Félagsleg aðstoð

Mánudaginn 16. október 1995, kl. 18:34:23 (334)

1995-10-16 18:34:23# 120. lþ. 12.3 fundur 80. mál: #A félagsleg aðstoð# (endurhæfingarlífeyrir) frv., Flm. ÁRJ
[prenta uppsett í dálka]

Flm. (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 118/1993, um félagslega aðstoð. Eins og kom fram í máli mínu fyrr í dag þar sem ég fór fram á að þetta mál yrði tekið fyrir með afbrigðum í dag er svo komið að þegar lög um almannatryggingar, nr. 67/1971, voru tekin til umræðu árið 1993 um jólaleytið og þeim skipt upp í tvenn lög, lög um almannatryggingar og lög um félagslega aðstoð, tel ég að mistök hafi orðið í þinginu þegar grein um endurhæfingarlífeyri var færð yfir lög um félagslega aðstoð.

Í athugasemdum um einstakar greinar frv. um félagslega aðstoð sem kom fyrir þingið var sagt svo um 8. gr. sem er grein um endurhæfingarlífeyri að hún væri að öllu leyti samhljóða 2. mgr. 12. gr. laga um almannatryggingar. Það var sem sagt verið að færa grein um endurhæfingarlífeyri í heilu lagi yfir í félagslega aðstoð. Síðan hefur komið á daginn að hluti úr setningu hefur fallið út úr greininni sem gerir það að verkum að þeir sem eru í endurhæfingu eftir slys eða sjúkdóm fá verulega skertar bótagreiðslur frá Tryggingastofnun miðað við þessa lagagrein. Núna 1. okt. kom fram úrskurður heilbr.- og trrn. um að þessi lagagrein skuli vera túlkuð til hins ýtrasta þannig að sá sem er í viðurkenndri endurhæfingu skuli einungis njóta tekjutryggingar og grunnlífeyris. Það þýðir að sá sem er í endurhæfingu eftir slys eða sjúkdóm, jafnvel inni á sjúkrastofnun, t.d. inni á Grensásdeild eða á Reykjalundi, fær grunnlífeyri sem er 12.921 kr. og tekjutryggingu 24.439 kr. Þetta er óháð því hvort hann sé með börn á framfæri, hvort hann beri kostnað af því að hann er fatlaður og ætti að öðrum kosti rétt á bensínstyrk. Hann fær ekki uppbót ef hann þarfnast umönnunar o.s.frv.

Fyrir 1. okt. sl. áttu þeir sem voru í endurhæfingu á þennan hátt rétt á sömu bótagreiðslum frá Tryggingastofnun og 75% öryrkjar. Þegar greinin um endurhæfingarlífeyri var sett inn í almannatryggingalögin frá 1989 þótti þetta mikil réttarbót fyrir þá sem voru að reyna að ná aftur starfsorku eftir slys og sjúkdóma vegna þess að þessar bætur voru úrskurðaðar í stuttan tíma í einu, oftast þrjá mánuði og síðan áfram og aldrei lengur en í 18 mánuði. Sá sem fær endurhæfingarlífeyri getur líka verið inni á stofnun án þess að missa bætur en það geta 75% öryrkjar ekki því að þegar 75% öryrki er búinn að vera í fjóra mánuði inni á stofnun undanfarna 24 mánuði missir hann bæturnar sínar. Hann fær engar greiðslur en á kannski rétt á vasapeningum. Endurhæfingarlífeyrisþeginn heldur aftur á móti bótunum.

Við þessa breytingu gerist það að þeim sem er í endurhæfingu er ætlað að lifa á rúmum 37 þús. kr. á mánuði, honum og fjölskyldu hans og börnum. Ef hann er með meðlagsgreiðslur koma meðlagsgreiðslurnar af fullum þunga á lífeyrisþegann fyrir hvert einasta barn. Með þeirri breytingu sem varð 1. okt. þarf hann að greiða fulla greiðslu fyrir læknisþjónustu. Hann þarf að borga fullt verð fyrir lyf og nýtur ekki þeirra hlunninda sem öryrkjar hafa. Sama gildir um öll hlunnindi sem tengd eru bótaflokkum. Ég get nefnt sem dæmi að hann þarf að borga afnotagjaldið af Ríkisútvarpinu, 2.000 kr. á mánuði sem hann hefði ekki þurft ef reglurnar hefðu gilt eins og þær voru fyrir 1. okt. því þá hefði hann sem umönnunarþurfi fengið uppbót vegna umönnunar.

Hann hefði líka fengið bensínstyrk ef hann þarf að komast á milli og er hreyfihamlaður. Þessi réttur fellur niður núna 1. okt.

Ég ætla að bera saman hvernig greinarnar voru, hvernig greinin um endurhæfingarlífeyri var í lögum nr. 67/1971 sem þingmenn töldu sig vera að samþykkja óbreytta um jólin 1993, 2. mgr. 12. gr. laga, um endurhæfingarlífeyri. Hún hljóðar svo:

,,Endurhæfingarlífeyrir skal nema sömu fjárhæð og elli- og örorkulífeyrir. Um tekjutryggingu og aðrar tengdar bætur fer eftir sömu reglum sem um elli- og örorkulífeyri. Sjúkrahúsvist í greiningar- og endurhæfingarskyni skerðir ekki bótagreiðslur.``

Þegar greinin er komin inn í lög um fjárhagslega aðstoð hljóðar hún svo:

,,Endurhæfingarlífeyrir skal nema sömu fjárhæð og grunnlífeyrir örorkulífeyris ásamt tekjutryggingu. Sjúkrahúsvist í greiningar- og endurhæfingarskyni skerðir ekki bótagreiðslur.``

Hér er hluti af setningu fallinn út og rétturinn til tengdra bóta ekki lengur inni í greininni. Þrátt fyrir það að þetta hafi verið samþykkt svona um jólin 1993 og lögin tóku gildi um áramót hefur framkvæmd laganna verið eins og eftir gömlu almannatryggingalögunum. Endurhæfingarlífeyrisþegar hafa haldið tengdum bótum enda eru það lágmarskupphæðir fyrir lífeyrisþega til þess geta framfleytt sér. Fyrir þá sem þekkja ekki almannatryggingakerfið þá er það brotið upp þannig að því er skipt niður í marga, litla bótaflokka þar sem sérstakar reglur gilda um hvern og einn. Það gerir fólki líka erfiðara fyrir að sækja um það sem það á rétt á því að það kerfi er orðið svo flókið. En með þessari breytingu er ég sannfærð um að þingmönnum hafi orðið á mistök og ef einhverjir þingmenn eru hér í salnum, sem sátu á þingi 1993 og telja sig hafa ætlað að skerða þennan hóp, oftast ungt fólk sem lent hefur í slysum eða lent hefur í sjúkdómum og er í endurhæfingu, vil ég að að þeir gefi sig fram hér. Var það meiningin með lögunum 1993 að skerða þessa lífeyrisþega niður í 37 þús. kr. á mánuði og láta þá ekki njóta barnalífeyris ef þeir eru með börn á framfæri? Var það meiningin? Mér þætti fróðlegt að heyra það frá þeim þingmönnum sem sátu á þingi 1993 en ég sé að þeir eru ekki margir hér í salnum.

Með þeirri breytingu sem lögð er til núna er verið að vísa þessum hópi beint á félagsmálastofnanir, fólki sem er að reyna að ná starfsgetu sinni aftur, komast aftur út í samfélagið til þess að sjá fjölskyldu sinni farborða, það er verið að vísa þeim á sveitarfélögin. Ég vil benda á að það er enginn sparnaður í svona vinnubrögðum. Þó það sé kannski sparnaður tímabundið fyrir heilbrigðiskerfið er það aukinn kostnaður i félagslega kerfinu á móti.

Ég hef verið spurð að því varðandi þetta mál hvers vegna er fólk bara ekki metið beint á 75% örorku. Er það ekki eina rétta leiðin? Það er hvort eð er óvinnufært. Menn vita hvernig það er að fá framan í sig eftir að vera búinn að vera veikur eða slasaður að maður er metinn 75% öryrki og það er yfirleitt gert í tvö ár. Það hefur oft haft þau áhrif að fólk gefst upp og það heldur áfram að vera á 75% örorkunni. Það hefur verið kannað í Tryggingastofnun að þeir sem eru metnir á 75% örorku eru áfram á örorkunni. Aftur á móti fara þeir sem eru metnir á endurhæfingarlífeyri frekar út af bótakefinu og út í samfélagið aftur. Það hefur sýnt sig. Mér er spurn: Hver ákvað að nota þessa glufu í kerfinu til að spara? Ég trúi því ekki að það hafi verið gert af ásetningi. Það þarf auðvitað að svara þessu. Ég veit að heilbrrh. hafði ekki tök á að koma hér til þess að svara þessari spurningu. En ég er með bréf þar sem kemur fram að það er ákvörðun hæstv. heilbrrh., sem er því miður ekki hér til þess að svara, þar sem það er ákvörðun ráðuneytisins að þessi hópur skuli ekki njóta nema grunnlífeyris og tekjutryggingar eftir 1. okt., 37 þús. kr. Það væri fróðlegt að fá svör við þessu.

[18:45]

Það er annað sem ég vil leggja áherslu á. Þetta kom til framkvæmda 1. okt. sl. og þeim sem hafa verið metnir á endurhæfingarlífeyri eftir það hefur verið synjað um tengdar bætur. Því fólki hefur verið synjað sem hefur verið metið eftir það. Þess vegna er mjög mikilvægt að þetta mál verði afgreitt fljótt þannig að þetta fólk fái réttarbætur, fái þá aðstoð úr velferðarkerfinu sem velferðarkerfið ætlaðist til þegar reglurnar voru settar og þingmenn töldu sig samþykkja óbreytt þegar lögin um félagslega aðstoð voru tekin til afgreiðslu eina jólanóttina fyrir tveimur árum.

Það kom fram í máli manna áðan um launakjörin að lífeyrisþegar eru ekki of sælir af þeim launum sem þeim eru ætluð úr tryggingakerfinu. Meðan almennir launamenn á vinnumarkaði hafa hækkað um marga tugi prósentna frá 1989 kom fram að lífeyrisþegar hafa aðeins hækkað um 35% varðandi grunnlífeyri og tekjutryggingu. Er ekki nóg að þurfa að takast á við það að reyna að ná starfsþreki aftur eftir áfall eða slys og veikindi þó að maður þurfi ekki að fara bónleið til sveitarfélagsins til þess að fá framfærslu fyrir sig og fjölskyldu sína? Mér finnst þetta vera mikið sanngirnismál sem þarf að leiðrétta fyrir 1. nóv. og að þessir einstaklingar fái það sem þeir ættu að eiga rétt á eftir það. Við erum að flýta í gegn málum um launakjör þingmanna. Þetta mál er ekki síður mikilvægt. Þingmenn lifa alveg af sínum launum en fólk sem lendir í þessu getur ekki séð sér og sínum farborða með 37 þús. kr., það vitum við öll. Þingmenn ættu að geta sett sig í spor þessa fólks.

Mér finnst það vera að ráðast á garðinn þar sem hann er lægstur að spara á þessum hópi sem allra minnst má sín í samfélaginu. Ég trúi því ekki að það hafi verið vilji nokkurs einasta þingmanns. Ég krefst þess að málið verði tekið fyrir í þinginu og afgreitt áður en við förum í þinghlé í næstu viku þannig að þessi leiðrétting geti komið til endurhæfingarlífeyrisþega strax 1. nóv.