Lánsfjárlög 1996

Þriðjudaginn 17. október 1995, kl. 14:00:07 (339)

1995-10-17 14:00:07# 120. lþ. 13.4 fundur 43. mál: #A lánsfjárlög 1996# frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. fyrir ræðu hans sem ég tel nú að sé stuðningsræða við þá stefnu sem kemur fram í þessu frv. og reyndar í fjárlagafrv., enda er skammt síðan við vorum samherjar í baráttunni fyrir því að draga úr ríkisútgjöldum og ná niður halla íslenska ríkisins. Þegar rætt er um skuldasöfnun ríkisins held ég að það sé nauðsynlegt að hafa það í huga að ef áform ríkisstjórnarinnar ganga eftir á næsta ári þá gerist það í fyrsta skipti um margra ára skeið, líklega 8--9 ára skeið, að skuldir ríkissjóðs fara lækkandi í hlutfalli landsframleiðslu. Það þýðir að raunskuldaaukningin er minni heldur en aukning landsframleiðslunnar. Það er í fyrsta skipti frá því 1987 og það er auðvitað árangur þótt hann sé ekki nægur. Þetta held ég að sé nauðsynlegt að komi fram.

Varðandi sparnað heimilanna og almennan sparnað í landinu, þá fjallaði ég um það nokkuð í minni ræðu. Það hefur komið í ljós að einkaneyslan hefur vaxið og það er reyndar þannig að þrátt fyrir að kaupmátturinn sé að vaxa verulega á þessu ári og miklu meira en áætlanir benda til, þá hefur einkaneyslan aukist talsvert meira heldur en það. Það hlýtur að sjálfsögðu að vera áhyggjuefni ef slíkt heldur áfram. En menn þurfa sem sagt að skoða saman allar þessar tölur til þess að sjá raunverulega þá þróun sem er að eiga sér stað og ef menn skoða síðan spár fyrir næsta ár þá kemur í ljós að nokkuð mun draga úr einkaneyslunni í staðinn sem vonandi leiðir til meiri sparnaðar heimilanna heldur en verið hefur á undanförnum árum.

Það er þetta tvennt sem ég tel nauðsynlegt að komi fram á þessu stigi, en vil annars ítreka þakkir til hv. þm.