Lánsfjárlög 1996

Þriðjudaginn 17. október 1995, kl. 14:22:21 (343)

1995-10-17 14:22:21# 120. lþ. 13.4 fundur 43. mál: #A lánsfjárlög 1996# frv., JBH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka]

Jón Baldvin Hannibalsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. vék að einstökum atriðum í þessari lánsfjáráætlun, Þróunarsjóði og Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Ég hafði almennt gert ráð fyrir því að við 1. umr. ræddu menn stefnumarkandi atriði en ekki einstök verkefni en hann spurði sérstaklega: Hvað var mönnum að vanbúnaði í tíð fyrri ríkisstjórnar að koma með lausnir á viðvarandi fjárhagsvanda Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar og hvort það gæti ekki verið leið til lausnar að breyta verkaskiptingu ráðuneytanna með því að færa verkefnið yfir til samgrn. Í ljósi þess að sl. sjö ár var ég ábyrgur fyrir þessum rekstri er rétt að upplýsa það einu sinni enn að í tíð síðustu ríkisstjórnar var fimm sinnum gerð að því atrenna með formlegum tillögum við ríkisstjórnarborð að fá samstöðu um lausn á fjárhagsvanda Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar og tókst aldrei. Meginástæðan fyrir því var sú að hæstv. samgrh. í fyrrv. ríkisstjórn lagðist ævinlega gegn öllum þessum tillögum og öllum útfærslum hverjar sem þær voru, þar á meðal þegar á það var fallist að ef hæstv. samgrh. gæti sætt sig við aðgerðir til að leysa fjárhagsvandann væri á það fallist að færa þetta undir samgrn. Þannig að meira að segja sú tillaga dugði ekki til.

Kjarni málsins er sá að það er auðvitað til vansa að þetta hefur verið látið dankast svona lengi. Staðreynd er það líka að tekjur verða til í rekstri Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar sem samgöngumannvirkis og þjónustumannvirkis sem gætu staðið undir vöxtum og afborgunum af öllum þessum byggingarkostnaði og er þó allt satt sem fram kom hjá hv. þm. um það hvernig til þess var stofnað. Kjarninn er hins vegar sá að fyrir utan það að bróðurparturinn af þessu rennur einfaldlega sem tekjur í ríkissjóð er um að ræða markaða tekjustofna til annarra framkvæmda í þágu samgöngukerfisins. Það er ekki hægt að segja: Ríkissjóður verður að hafa sínar tekjur. Síðan skulu vera markaðir tekjustofnar til annarra þátta samgöngukerfisins innan lands en jafnframt synjað um allar tillögur um annaðhvort gjaldtöku, sparnað eða breytingar á rekstri. Þannig hefur málið staðið. Það náðist aldrei pólitískt samkomulag um það og þess vegna er ástæða til þess að taka undir með hv. þm. og beina þeim spurningum til fjmrh.: Eru menn eitthvað nær einhverri niðurstöðu um að leysa þennan viðvarandi margra ára vanda?