Lánsfjárlög 1996

Þriðjudaginn 17. október 1995, kl. 14:29:36 (346)

1995-10-17 14:29:36# 120. lþ. 13.4 fundur 43. mál: #A lánsfjárlög 1996# frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Óskaplega er þetta eitthvað þokukennt allt og erfitt. Ég er ekki viss um að það sé réttur útgangspunktur í þessu að það eigi að stefna að því afdráttarlaust að ganga þannig frá þessu máli að út úr rekstrinum í Keflavík eða skattlagningu farþega sem þar fara í gegn, í fluginu eða ferðaþjónustunni, komi allir þeir fjármunir sem til þess duga að hvort tveggja reka mannvirkið og borga niður skuldirnar. Það eru óheyrilegir peningar, einfaldlega vegna þess að þetta mannvirki varð allt of dýrt á sínum tíma. Síðan hafa þær skuldir hlaðið upp á sig. Það sem ég er fyrst og fremst að lýsa eftir er einhver niðurstaða í málinu. Ég gæti alveg séð fyrir mér að hún yrði því miður að vera á þann veg að einhver tiltekinn hluti greiðslubyrðanna komi úr ríkissjóði. Það er beinlínis óskynsamlegt að ganga svo langt í skattlagningu þarna eða hækka svo leigutekjur að allir flýi út úr húsinu. Eftir því sem ég best veit er leigan það há nú þegar að menn kveinka sér undan því að reka þarna pínulitla bása. Meira að segja Landsbankinn og Póstur og sími væla undan því að húsaleigan sé svo há að þeir geti varla haldið opnum smákrubbum. Það er ekki aðalatriðið í mínum huga að þvinga fram lausn sem þýðir hækkun á húsaleigu eða meiri skattlagningu eða sérstakan Leifs Eiríkssonar skatt á flugfarþega til landsins sem væri ekki góð auglýsing. Ég held að það sé aðalatriði að menn verða hreinlega að ná niðurstöðu sem gengur upp. Ef hún yrði t.d. á þann veg að einn þriðja eða helming af þessum stofnkostnaði yrði að greiða úr ríkissjóði en afgangurinn kæmi af rekstrartekjum er það þó niðurstaða, þá eru menn loksins að taka á málinu. En að velta því svona á undan sér er gersamlega glórulaust.