Lánsfjárlög 1996

Þriðjudaginn 17. október 1995, kl. 14:34:01 (348)

1995-10-17 14:34:01# 120. lþ. 13.4 fundur 43. mál: #A lánsfjárlög 1996# frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég tek auðvitað fullgilt að núv. ríkisstjórn hafi á því hug að leysa þetta mál og sé með sína bestu og einna hæstlaunuðu menn, ráðuneytisstjórana, í nefnd um það efni og það er gott. (Fjmrh.: Flugumferðarstjórana.) Nei, ekki flugumferðarstjóra þó að þeir kunni örugglega líka á þessi mál. Þeir hafa nóg að gera við að stjórna flugumferðinni. Ég er ekki viss um að málið liggi þannig að við getum lengt þetta í 20--30 ára lán og borgað svo af þeim. Ég held nefnilega að það styttist í þann tíma að það þurfi að fara í framkvæmdir og úrbætur í þessum stað. Staðreyndin er að flugstöðin er að verða of lítil á mestu álagstímum og í öðru lagi er hún svo fáránlega hönnuð frá byrjun að hún rúmar ekki neitt innanlandsflug sem þyrfti að vera hægt að auka og tengja við millilandaflugið í Keflavík. Ef eitthvað væri þyrfti að vera hægt á næstu árum að horfa til þess að þarna yrðu frekari framkvæmdir og frekari uppbygging. Það kostar þá líka peninga þannig að ég held að flugstöðinni veitti ekkert af því að hafa eitthvað af tekjum sínum til slíkra hluta ef menn ætla að gera alvöru úr því að sækja fram í ferðaþjónustunni, sem er mjög mikilvægt, og þar er Keflavík og Keflavíkurflugvöllur alger miðpunktur.

Ég held að sú lausn hæstv. fjmrh. að krukka í flugvallarskattinn, þ.e. fara inn á hina mörkuðu tekjustofna flugmálaáætlunar og stela meiru af þeim í rekstur í staðinn fyrir að nota það til uppbyggingar í flugmálum, sé ekki góð leið. Ég veit ekki betur en í fjárlagafrv. sé þegar búið að ræna drjúgum hluta af þeim eða 190 millj. kr. í rekstur á næsta ári þannig að það er nú að verða lítið eftir. Það mál skulum við ræða betur þegar fjárlögin koma á dagskrá á eftir.

En ég segi það að lokum að það er fullur vilji af minni hálfu og væntanlega annarra þingmanna til þess að takast á við þessi mál. Ég hef lengi saknað þess að menn reyndu að gera það en með það í huga að reyna að nýta betur og spila úr þeim möguleikum sem þarna geta verið á svæðinu til atvinnuuppbyggingar og verðmætasköpunar í tengslum við millilandaflugið úr Keflavík. Ég held að sá þáttur megi ekki týnast í einhverri skattlagningar- og álögugleði af hálfu hæstv. fjmrh.