Lánsfjárlög 1996

Þriðjudaginn 17. október 1995, kl. 14:36:36 (349)

1995-10-17 14:36:36# 120. lþ. 13.4 fundur 43. mál: #A lánsfjárlög 1996# frv., KÁ
[prenta uppsett í dálka]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Hér er til umræðu kunnuglegt mál því að það er einu sinni svo að lánsfjárlögin eru með svipuðum hætti ár eftir ár og ekki ýkjamiklar breytingar. Hér er einmitt eitt af þeim frumvörpum sem teljast til þess pakka sem við afgreiðum á hverju hausti með fjárlögum, ráðstöfunum í ríkisfjármálum og skattafrumvörpum sem við erum ekki farin að sjá hér enn þá þegar kemur að tekjuöflun ríkisins og væri nú ástæða til þess að brýna hæstv. fjmrh. til að koma snemma með þau frumvörp inn á hið háa Alþingi þannig að við þurfum ekki að líta þau augum í fyrsta skipti í desember eins og hefur viljað brenna við ár eftir ár.

Það frv. sem hér er til umræðu endurspeglar greinilega að heldur er ástand mála að skána. Hinn margrómaði efnahagsbati er að sýna sig að hluta til í lántökum ríkisins en þó er ekki allt sem sýnist og það er ekki sama hvaða aðili er skoðaður. Ef við horfum á skuldastöðuna í heild þá er hún auðvitað mjög alvarleg og við Íslendingar sem þjóð skuldum býsna mikið. Í fjárlagafrv. segir um erlendar skuldir þjóðarbúsins, með leyfi forseta:

,,Mikil umskipti hafa orðið á erlendri skuldastöðu þjóðarbúsins á síðustu árum. Á árunum 1987--1993 hækkuðu erlendar nettóskuldir okkar úr 40% af landsframleiðslu í rúm 54%. Greiðslubyrði erlendra lána sem hlutfall af útflutningstekjum tvöfaldaðist á sjö árum og náði hámarki, tæplega 35% árið 1994. Þessi þróun hefur hins vegar snúist við og á síðustu árum hafa erlendar skuldir okkar lækkað verulega. Spár gera ráð fyrir að árið 1996 verði hrein erlend skuldastaða komin niður í 46% af landsframleiðslu og að greiðslubyrði erlendra lána nemi 23% af útflutningstekjum.

Erlendar skuldir einstakra geira þjóðfélagsins hafa þróast með mismunandi hætti. Erlendar skuldir lánastofnana og fyrirtækja hafa lækkað verulega á sama tíma og erlendar lántökur opinberra aðila hafa aukist. Þetta má fyrst og fremst rekja til þess að á síðasta ári leitaði ríkissjóður fremur á erlenda markaði en innlenda eftir lánsfé til að treysta í sessi þá vaxtalækkun sem orðið hafði. Lágir vextir leiddu síðan til þess að lánastofnun hjá fyrirtæki tóku lán í auknum mæli á innlendum markaði.``

Þetta er athyglisverð lýsing á þeirri þróun sem hefur átt sér stað og auðvitað er vert að spyrja hvað liggur þarna á bak við. Það er staðreynd að tekjur ríkisins hafa aukist umfram það sem gert hafði verið ráð fyrir. Veltan er að aukast í samfélaginu en við vitum líka að miklar skuldir hvíla á öðrum aðilum og þá verður mér ekki síst starsýnt annars vegar á sveitarfélögin og hins vegar heimilin í landinu. Það er mjög athyglisvert að lesa það sem segir í fjárlagafrv. um stöðu sveitarfélaganna en þar segir, með leyfi forseta:

,,Afkoma sveitarfélaga hefur versnað mjög mikið á tiltölulega skömmum tíma. Árið 1990 voru sveitarfélögin rekin með afgangi, en frá þeim tíma hefur staðan gjörbreyst og hallinn aukist ár frá ári. Á árinu 1994 nam hallinn 7 milljörðum kr., eða sem samsvarar 22% af tekjum. Til samanburðar var halli ríkissjóðs sama ár innan við 7% af tekjum. Í kjölfar þessa hallareksturs er fjárhagsstaða margra sveitarfélaga orðin mjög slæm. Því hafa mörg sveitarfélög gripið til sparnaðar- og aðhaldsaðgerða á árinu 1995. Spáð er að tekjur aukist um rúmlega 2 milljarða króna á árinu og gjöld lækki um tæplega 2 milljarða kr. og hallinn verði þannig rúmir 3 milljarðar króna.``

Þetta eru allt mjög athyglisverðar tölur og spurningin er sú hvernig samspilið er þarna á milli því að það er staðreynd að ríkið hefur velt ákveðnum byrðum yfir á sveitarfélögin. Sveitarfélögin í landinu eru að taka við sífellt fleiri verkefnum. Þau hafa auðvitað orðið fyrir barðinu á atvinnuleysinu og við sjáum þetta á mjög athyglisverðan hátt í Reykjavík þar sem staða borgarinnar er með þeim hætti að það er nánast enginn afgangur til framkvæmda hjá borginni heldur fer allt í rekstur og afborganir af lánum sem Sjálfstfl. tók til þess að koma upp glæsihöllum sínum í borginni og við erum að súpa seyðið af. Á meðan ríkissjóður er heldur að laga sína stöðu fer ástandið enn versnandi hjá sveitarfélögunum. Ég hef spurst reglubundið fyrir um það hjá Reykjavíkurborg hvort þar á bæ verði menn varir við þennan margrómaða efnahagsbata og ég fæ alltaf sama svarið sem er nei. Eins og kom nýlega fram í fréttum aukast beiðnir um félagslega aðstoð jafnt og þétt hjá Reykjavíkurborg sem segir okkur að atvinnuleysi vegur ákaflega þungt hjá mörgum heimilum og skapar mikla erfiðleika og þarna er ekki samhljómur á milli. Á meðan ástandið skánar hjá ríkissjóði hafa fyrst og fremst heimilin í landinu tekið á sig þá efnahagslegu erfiðleika sem hér hafa verið. Þetta speglast einmitt í þessu frv. þar sem gerð er grein fyrir skuldum hinna stóru aðila í samfélaginu. Að vísu er athyglisvert að lántökur ríkisins hafa aukist í krónum talið þó að heildarstaðan sé að skána, þ.e. að þessar skuldir séu ekki eins þung byrði á ríkissjóði og áður var. Sveitarfélögin hafa dregið saman seglin í lántökum sínum og eru að reyna að rétta sína stöðu en það þýðir auðvitað um leið að sveitarfélögin verða að draga saman í framkvæmdum sem eykur atvinnuleysið og gerir sveitarfélögunum erfiðara um vik að taka á því alvarlega ástandi.

Fyrirtækin hafa líka dregið úr lántökum sínum og við vitum að mjög mörg fyrirtæki hafa verið að hagræða í rekstri sínum og greiða niður skuldir en við vitum líka jafnframt að fjárfestingar í atvinnulífinu hafa verið í sögulegu lágmarki eins og Seðlabankinn orðaði það í sínum skýrslum í fyrra og það væri fróðlegt að fá að heyra það hjá hæstv. fjmrh. hvort eitthvað sé að rofa til í þeim efnum, hvort menn verði eitthvað varir við auknar fjárfestingar. Við höfum nýlega heyrt gleðileg tíðindi af samningum Íslenskra sjávarafurða við Rússa og menn eru sífellt meira að leita út fyrir landsteinana að verkefnum og verða auðvitað að gera það þegar þröngt er um hér heima þannig að maður spyr sig hvað er á bak við svona tölu að fyrirtækin hafi dregið sínar lántökur saman um 7,2%. Er það vottur um bætta stöðu og betri rekstur eða er þetta einfaldlega samdráttur?

[14:45]

Síðan eru það skuldir heimilanna sem enn aukast um 4,6% í janúar til júní á þessu ári. Þótt þar hafi dregið úr aukningu eða hægt á henni, ef svo má að orði komast, þá eru þetta samt gífurlegar upphæðir og mjög athyglisvert að sjá það sem síðasti ræðumaður benti hér á áðan, að skuldir heimilanna í landinu eru að nálgast skuldir fyrirtækjanna. Á meðan fyrirtækin í landinu skulda 313,7 milljarða kr. í júní 1995 þá skulda heimilin 305,1 milljarð kr. Þetta eru auðvitað gífurlegar upphæðir og Seðlabankinn hefur margsinnis vakið athygli á versnandi skuldastöðu heimilanna sem er í beinu samhengi við atvinnuleysið í landinu, samdrátt í yfirvinnu og auðvitað þá láglaunastefnu sem hér hefur verið rekin um árabil og veldur nú mikilli ólgu í samfélaginu eins og við þingmenn höfum orðið varir við.

Við hljótum auðvitað að velta fyrir okkur hvað býr að baki þessum tölum og hvernig ber t.d. að túlka það að heimilin eru ekki að auka skuldir sínar í jafnríkum mæli og áður. Það er sérstaklega bent á það hér að eftirspurn eftir húsnæðislánum hefur dregist saman. Hvað þýðir það? Er það vegna þess að fólk treystir sér ekki í húsnæðiskaup? Er það vegna þess að að einhverju leyti er búið að metta markaðinn eða hvað liggur þarna að baki? Það er ekki gott að átta sig á því án þess að það fari fram rækileg skoðun á því. Þetta tengist nú því sem ég ætla að taka fyrir hér á eftir sem er Byggingarsjóður verkamanna þar sem nú eru boðuð ýmis tíðindi.

Það eru líka mjög athyglisverðar upplýsingar sem koma fram í greinargerð frv. um sparnað heimilanna sem hefur orðið miklu minni en gert var ráð fyrir, þ.e. frjáls sparnaður heimilanna, 7 milljarðar í stað 13 milljarða. Og ég spyr hæstv. fjmrh. hvort hann og hans ráðuneyti kunni einhverjar skýringar á þessu eða hvort þeir átti sig á því hvað þarna er á ferð. Var þetta einfaldlega ofáætlun hjá ráðuneytinu og þeim sem voru að spá í þessi spil? Eða hvað liggur þarna að baki? Ég þykist vita það að heimilin í landinu eigi yfirleitt lítinn afgang til þess að leggja til hliðar, því miður. Þetta er auðvitað eitt af því sem þarf að reyna að bæta.

Ég ætla þá að koma að þremur atriðum varðandi þessar lántökur. Reyndar er það eitt atriði sem mig langar að minnast á á undan, það varðar þær breytingar sem orðið hafa á íslenskum fjármagnsmarkaði og þau áhrif sem hin óhefta samkeppni við erlendan markað hefur haft. Það kom fram þegar Seðlabankinn gerði efh.- og viðskn. grein fyrir þróuninni fyrr á þessu ári og á sl. ári að töluvert útstreymi varð úr landinu fyrstu mánuðina eftir að frelsið komst á en síðan dró úr því. Ég hef skilið það svo að þarna væri bara sæmilegt jafnvægi. En mig langar að beina þeirri spurningu til hæstv. fjmrh., hvernig hann sér þessa þróun, áhrif þessa frelsis? Hafa þau orðið eitthvað öðruvísi en menn reiknuðu með eða er þetta allt í góðu gengi? Við þurfum auðvitað að fylgjast grannt með fjárstreymi inn og út úr landinu því að það getur haft mikil áhrif á efnahagslífið ef streymi fjármagns út úr landinu verður óeðlilega mikið.

Þá ætla ég að víkja hér að þremur atriðum varðandi einstakar lántökur. Ég vil fyrst taka undir þá umræðu sem hér hefur átt sér stað um Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Í fjárlagafrv. er bent á það, sem reyndar kom mjög skýrt fram í fyrra, að rekstrarhallinn á flugstöðinni er það mikill, að fyrirtækið eða stofnunin á engan veginn fyrir afborgunum og skuldum. Maður spyr sig: Hvernig á þetta dæmi að ganga upp? Hvað ætla menn að gera til að reyna að koma rekstrinum í eitthvert horf? Ég held að það geti varla verið leið að hækka leigu mikið í stöðinni eða að þar sé mikið fé að finna, a.m.k. við fyrstu sýn.

En það sem ég vildi sérstaklega vekja athygli á í þessari umræðu er það sem snýr að húsnæðismálunum og þá sérstaklega Byggingarsjóði verkamanna. Það kemur fram að lántökur Byggingarsjóðs verkamanna verða samkvæmt frv. fimm milljarðar, sexhundruð og sextíu millj. kr. á næsta ári. Lántökur eru með nokkuð svipuðum hætti og verið hefur. En jafnframt á að skera mikið niður lán til nýrra íbúða. Það á að fækka allverulega lánum til félagslegra íbúða. Við þingmenn Reykjavíkur, þar með talinn hæstv. fjmrh., við hljótum að setja spurningarmerki við þessa þróun og þurfum auðvitað að átta okkur á því hvort ákveðin óráðsía og skipulagsleysi sem átt hefur sér stað úti á landsbyggðinni eigi að bitna á Reykjavík. Á það að koma niður á láglaunafólki í Reykjavík, þótt íbúðir standi auðar úti á landi? Þýðir þetta að hér verði dregið verulega úr byggingu félagslegra íbúða? Þetta þurfum við, þingmenn Reykjavíkur, að hafa vel í huga þegar við skoðum stöðu Byggingarsjóðs verkamanna.

Það sem einkum tengist lánsfjárlögunum er auðvitað það að Byggingarsjóði verkamanna hefur, eins og öðrum sjóðum og stofnunum sem hér koma við sögu, verið ýtt lengra og lengra út á lánamarkaðinn á meðan framlag ríkisins hefur verið skorið niður. Á þessu ári á beint framlag ríkisins til sjóðsins að nema 400 millj. kr. og það kom fram á fundi félmn. í gær að viðstöddum fulltrúum Húsnæðisstofnunar, að það stefnir í algjört óefni hjá Byggingarsjóði verkamanna og hann verður kominn í mjög mikla erfiðleika upp úr næstu aldamótum nema að gripið verði þar til sérstakra aðgerða. Það sem nefnt var í því samhengi var annaðhvort að auka beint framlag ríkissjóðs eða hækka vextina. Miðað við ástandið og tilgang þessa sjóðs þá held ég að það komi ekki til greina að hækka vexti meira en gert hefur verið og því hljótum við að spyrja hvað núverandi ríkisstjórn ætli sér með þennan sjóð og hvernig henni er stætt á því að skera svona niður framlögin til hans þegar útlitið er jafndökkt og það er. Þarna er málefni sem virkilega þarf að taka á.

Ég vil líka aðeins minnast á Þróunarsjóð sjávarútvegsins, sem telst nú ekki til minna sérgreina í þessum efnum. En það væri fróðlegt að heyra álit hæstv. fjmrh. varðandi þróun sjóðsins og auðvitað verður það kannað í hv. efh.- og viðskn. Það var spáð illa fyrir honum í upphafi og það er ekki hægt að átta sig á því af þeim upplýsingum sem hér koma fram hvort allt er með tilætluðum hætti varðandi rekstur hans. Gegnir hann hlutverki sínu eða ekki? Hér á að taka lán upp á 850 millj. kr. til að sjóðurinn geti sinnt hlutverki sínu. Mig langar að spyrja hæstv. fjmrh. ef hann getur svarað því: Hver er spáin varðandi þennan sjóð? Búast menn við svipuðum lántökum á næstu árum eða er reiknað með að þær fari sífellt vaxandi? Hverju spá menn varðandi sjóðinn og hvernig er staða hans? Það var sagt þegar verið var að setja hann á stofn að hann ætti ekkert í heimanmund annað en skuldir og daufar framtíðarvonir en hvernig hefur þetta mál þróast?

Það er ýmislegt fleira, hæstv. forseti, sem vert væri að ræða í þessu samhengi en tíminn er útrunninn og það mun væntanlega verða hér frekari umræða við 2. umr. um þetta mál.