Lánsfjárlög 1996

Þriðjudaginn 17. október 1995, kl. 14:59:14 (351)

1995-10-17 14:59:14# 120. lþ. 13.4 fundur 43. mál: #A lánsfjárlög 1996# frv., KÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka]

Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Það kemur fram í fjárlagafrv. og hefur reyndar margsinnis komið fram í máli hæstv. félmrh. að í lok síðasta árs voru 115 félagslegar íbúðir óseldar úti á landi. Nú vill svo til að ég átti sæti í stjórn verkamannabústaða hér í Reykjavík um nokkurt árabil og þekki þessi mál nokkuð vel af eigin raun. Ég veit að það hefur verið mjög langt í frá að Reykjavík hafi getað uppfyllt þá þörf sem hér er fyrir félagslegt húsnæði. Hins vegar veit ég líka, og nú bið ég þingmanninn að hlusta vel, að víða úti á landi hafa og hefur verið byggt félagslegt húsnæði umfram þarfir án þess að þar hafi verið raunverulega kannað hver þörfin var. Það hefur verið altalað, ég ætla bara að láta það fjúka hér, að sveitarstjórnunum hafi verið meira í mun að halda uppi vinnu í sínu sveitarfélagi heldur en að þær væru beinlínis að sinna þörf fyrir félagslegt húsnæði. Hins vegar er það rétt sem fram kom hjá þingmanninum að félagslegar íbúðir hafa víða orðið mjög dýrar. Auk þess sem víða er ekki þörf fyrir þær, þá eru þær svo dýrar að fólk ræður ekki við kaup á þeim, verð á þeim er ekki í neinu samræmi markaðsverð á öðru húsnæði á þessum stöðum. En því miður þá er það staðreynd að það hefur verið byggt umfram þarfir.