Lánsfjárlög 1996

Þriðjudaginn 17. október 1995, kl. 15:01:12 (352)

1995-10-17 15:01:12# 120. lþ. 13.4 fundur 43. mál: #A lánsfjárlög 1996# frv., StB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka]

Sturla Böðvarsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er út af fyrir sig mikið umhugsunarefni að hv. þm. telji sig geta kveðið upp þann úrskurð og dóm hér í þinginu að sveitarstjórnarmenn hafi haft meiri áhuga á því að byggja en að koma upp húsnæði yfir tekjulágt fólk. Ég tel þessa afstöðu mjög óábyrga. Ég þekki ekki nokkurn sveitarstjórnarmann, og þekki ég þó ýmsa, sem hafa vísvitandi staðið fyrir íbúðarhúsabyggingum án þess að þeir ættu von á því að um þær væri sótt. Í reglum og lögum er gert ráð fyrir því að félagslegar íbúðir séu byggðar að undangenginni athugun.

Hins vegar er það þannig, eins og fram kom í ræðu minni hér áðan, að vegna atvinnuástandsins þá skipast oft skjótt veður í lofti úti á landi og ekki síst í sjávarbyggðunum. Varðandi það að fram hafi komið hjá hæstv. félmrh. að íbúðir hafi ekki selst, þá held ég að það séu nú kannski fleiri skýringar á því en að ekki sé eftirspurn eftir þeim. Það eru kannski ýmsir sem telja hag sínum betur borgið með því að fá þessar íbúðir á leigu fremur en að festa fjármuni sína í þeim. Ekki síst þegar áróðurinn gegn þessum byggðum er nú með þeim hætti eins og fram kemur hjá hv. þm. Ef hamrað er á því nógu lengi að þar sé óbyggilegt og dreginn kjarkur úr fólki, þá má kannski búast við því að fólk leiti fyrr en síðar þeirra kosta að flytja.

Hæstv. forseti. Ég tel algerlega órökstutt það sem hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir sagði hér. Og þótt hún vísi þar til orða hæstv. félmrh. þá eru forsendurnar fyrir því að félagslegar íbúðir hafa ekki selst svo margar, að ekki er hægt að draga þá ályktun að það sé vegna óráðsíu.