Lánsfjárlög 1996

Þriðjudaginn 17. október 1995, kl. 15:03:46 (353)

1995-10-17 15:03:46# 120. lþ. 13.4 fundur 43. mál: #A lánsfjárlög 1996# frv., KÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka]

Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég mótmæli því að ég sé hér með einhvern áróður gegn byggðum úti á landi. Að mínum dómi á fólk að búa þar sem það vill búa eða getur búið ef það kærir sig um. En spurningin snýst auðvitað um það hvernig við Íslendingar ráðstöfum þeim peningum sem við höfum til umráða. Og ég fullyrði það enn og aftur og ég gæti nefnt ákveðin dæmi um sveitarstjórnir sem hafa gengið á fund stjórnar Húsnæðisstofnunar eins og grenjandi ljón og heimtað að fá peninga til húsnæðisbygginga sem ekki hefur verið þörf fyrir. Ég ætla ekki að upplýsa ... (Gripið fram í: Er ekki rétt að þingmaðurinn upplýsi það?) Nei, ég ætla ekki að gera það, af því að ég hef ekki skriflegar upplýsingar, ég hef þær frá fulltrúum í stjórn Húsnæðisstofnunar. En ég vil upplýsa þingmanninn um það að hv. félmn. ætlar að kynna sér sérstaklega stöðuna í félagslega húsnæðiskerfinu. Og ég býðst til þess að veita honum þær upplýsingar sem við fáum þegar þar að kemur. En allt tengist þetta því hvernig við nýtum okkar peninga. Og við hljótum að viðurkenna það, bæði sú sem hér stendur og hv. þm. Sturla Böðvarsson, að þar hefur ekki alltaf verið farið skynsamlega með. Við höfum fjárfest að ýmsu leyti óskynsamlega og minnir þar margt á hvernig menn fóru að ráði sínu í Færeyjum. Ég minni þar t.d. á hafnir og heilsugæslustöðvar og ýmislegt sem hefði mátt samnýta miklu betur en við gerum. Það sama gildir um félagslegt húsnæði. Það er rétt sem fram er komið að það á að fara fram könnun í sveitarfélögum á þörfinni en þær kannanir hafa bara ekki farið fram. Það er frekar undantekning en regla að sveitarstjórnir kanni hver þörfin er. (StB: Það er greinilegt að þingmaðurinn hefur ekki mikla hugmynd um hvað hann er að tala.) Jú, ég hef töluverða þekkingu á því. En ég vona að það sé rétt sem fram kemur hjá þingmanninum að í hans kjördæmi sé þetta allt í sóma.