Lánsfjárlög 1996

Þriðjudaginn 17. október 1995, kl. 15:06:26 (354)

1995-10-17 15:06:26# 120. lþ. 13.4 fundur 43. mál: #A lánsfjárlög 1996# frv., JónK
[prenta uppsett í dálka]

Jón Kristjánsson:

Herra forseti. Eins og fram hefur komið hjá ræðumönnum sem talað hafa á undan mér við þessa umræðu, er e.t.v. ekki ástæða til að setja á langar ræður við 1. umr. um frv. til lánsfjárlaga sem hér liggur fyrir. Það mun ganga til efh.- og viðskn. til nánari meðferðar og skoðunar á þeim einstöku atriðum sem í því felast. Eigi að síður vildi ég leggja örfá orð inn í þessa umræðu um þau meginmarkmið sem þetta frv. felur í sér. En auðvitað er þetta frv. nátengt frv. til fjárlaga sem verður hér til umræðu síðar í dag, eða framhald þeirrar umræðu.

Það er lykilatriði í þessu frv. að það gerir ráð fyrir minnkandi lánsfjárþörf ríkisins. Ég vil leggja mikla áherslu á þetta markmið og að það gangi eftir. En auðvitað er þetta markmið og það er afar áríðandi að málum verði stýrt á þann veg að lánsfjárþörf ríkisins minnki á næsta ári. Það er forsenda fyrir því að vextir geti lækkað og að það verði rúm á fjármagnsmarkaði fyrir atvinnulífið í landinu, til atvinnuuppbyggingar. Og það er ein mesta kjarabót fyrir almenning í landinu miðað við þá skuldsetningu sem er hjá heimilunum. Ég tek undir það markmið að vextir geti lækkað. Þýðing þess fyrir heimilin og fyrir atvinnulífið í landinu er afar mikil svo ekki sé meira sagt.

Hv. 9. þm. Reykv., Jón Baldvin Hannibalsson, kom inn á þetta atriði í ræðu sinni í upphafi þessarar umræðu. Ég get tekið undir flest af því sem hann sagði. Ég fagna því að sjálfsögðu að mér heyrðist að það væri góður skilningur hjá ræðumanni fyrir þessum markmiðum. En það var eigi að síður svolítill efatónn í ræðu hans um að þessi markmið mundu nást og hæstv. fjmrh. væri e.t.v. í verri félagsskap nú en hann var á síðasta kjörtímabili, hefði minna skjól heldur en af hans breiðu herðum síðast. Ég vil láta það koma fram og tala þar fyrir munn þingflokks okkar, að það er staðfastur ásetningur okkar að stýra málum á þann veg að lánsfjárþörf ríkissjóðs fari hlutfallslega minnkandi og að það markmið sé raunhæft. Í ljósi þess var sú stefnumarkandi ákvörðun tekin á síðasta vori að ná halla ríkissjóðs niður í áföngum á tveimur árum. Það hefði auðvitað mátt hugsa sér að reiða það hátt til höggs að reyna að ná þessum halla niður á einu ári, en það er betra að ná þessu markmiði í áföngum heldur en að það náist ekki því að það rýrir traust á efnahagsstefnunni. Þess vegna vil ég segja það að við framsóknarmenn viljum gera það sem í okkar valdi stendur til að raða málum í forgangsröð á þann veg að markmiðið varðandi minnkandi lánsfjárþörf ríkissjóðs náist. Það er nú svo að íslenskur lánsfjármarkaður er lítill og viðkvæmur fyrir sveiflum þannig að hallarekstur ríkissjóðs hefur bein áhrif á vaxtastigið í landinu. Eins og svo margoft hefur verið rakið er þjóðhagslegur sparnaður íslensku þjóðarinnar minni heldur en gerist og gengur í okkar helstu viðskiptalöndum. Það er vissulega áhyggjuefni að sparnaðarmarkmið skuli ekki hafa staðist. Það veldur einnig erfiðleikum í þessu efni að það hefur farið saman verulegur hallarekstur ríkissjóðs og vaxandi hallarekstur sveitarfélaga þannig að hallatölur sveitarfélaganna eru orðnar umtalsverð stærð inn á íslenskan lánsfjármarkað. Það er mjög áríðandi að snúa þessari þróun við til þess að auka trú á íslensku efnahagslífi þannig að vextir fari lækkandi til hagsbóta bæði fyrir heimilin í landinu og atvinnulífið í landinu. Þar fara hagsmunir einstaklinga og fyrirtækja saman.

Það er ekki létt verk að standa að þessu og það hefur reynst nauðsynlegt að grípa til aðgerða sem ekki eru vinsælar í þjóðfélaginu. En þetta er nauðsynjaverk og grundvöllur fyrir því sem koma skal. Því miður hefur það verið þannig að opnunin á íslenskum fjármagnsmarkaði og tenging við erlenda markaði hefur ekki laðað að sér fjárfestingu og það er halli á fjármagnsviðskiptum við útlönd. Það er nauðsyn að breyta þessu og frv. er þáttur í því og þess vegna er það svo nauðsynlegt að markmið þess standist.

[15:15]

Ég vil aðeins leggja eitt orð inn í þá umræðu sem hefur verið hér um Byggingarsjóðs verkamanna. Í athugasemdum við 4. gr. segir að lagt sé til að honum verði heimiluð lántaka að fjárhæð 5,6 milljarðar á árinu 1996 en lántökur sjóðsins voru áætlaðar samtals 6,6 milljarðar á árinu 1995 og ráðgert sé að veita lán til 230 nýrra íbúða og 850 endursöluíbúða. Þetta er að vissu leyti stefnubreyting, ég viðurkenni það. En ég tel að það sé rétt að leggja áherslu á það að lána til kaupa á íbúðum fremur en að leggja ofuráherslu á nýbyggingar eins og hefur vissulega verið gert á undanförnum árum. Ég er ekki að lasta það í sjálfu sér en ég held að það þurfi að spyrna við í þessum efnum og ræða um framtíð þessarar starfsemi og hvaða áherslur koma notendum best.

Það er vissulega þannig að félagslega íbúðakerfið úti á landi hefur lent í ógöngum og þar, eins og kom fram hjá hv. 2. þm. Vesturl., hafa auðvitað miklu fleiri þættir í efnahagslífinu áhrif á heldur en þeir að sveitarstjórnarmenn úti á landi hafi verið of ákafir að byggja. Það hefur því miður verið þannig að fólki hefur fækkað úti á landsbyggðinni og íbúðir hafa staðið auðar af þeim sökum.

Ég viðurkenni það að hér er um vissa stefnubreytingu að ræða, að leggja áherslu á kaup á íbúðum, en ég tel að það sé rétt áhersla meðan mál sjóðsins eru athuguð. En ég veit að hæstv. félmrh. hefur vilja á því að skoða þessi mál sérstaklega og vinnur að því.

Ég ætla ekki að hafa öllu fleiri orð um þetta mál að sinni. Erindi mitt hér upp var eingöngu að undirstrika það markmið frv. að draga úr lánsþörf ríkissjóðs og þann ásetning okkar framsóknarmanna að stuðla að því að þau markmið standist.