Fjáraukalög 1995

Þriðjudaginn 17. október 1995, kl. 15:33:40 (356)

1995-10-17 15:33:40# 120. lþ. 13.5 fundur 44. mál: #A fjáraukalög 1995# frv., fjmrh.
[prenta uppsett í dálka]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frv. til fjáraukalaga ársins 1995. Frv. hefur verið lagt fram á þskj. 44 og er 44. mál þingsins.

Fyrst vil ég láta þess getið að verið er að athuga betur nokkur mál sem kann að reynast nauðsynlegt að leggja fyrir þingið og fjárln. á síðari stigum. Þau mál snúa flest að ráðstöfunum til að leysa rekstrarvanda nokkurra stofnana. Ég vil þó sérstaklega nefna eitt atriði sem leiðir af nýgerðum búvörusamningi milli ríkisstjórnarinnar og Bændasamtakanna vegna stuðnings við sauðfjárframleiðendur. Í þeim samningi er gert ráð fyrir 250 millj. framlagi úr ríkissjóði til að taka á þeim birgðavanda, á þremur árum reyndar, sem myndast hefur á undanförnum árum í kjölfar minnkandi markaðar fyrir kindakjöt innan lands.

Nú er talið að birgðir innan greiðslumarks, þá er ekki verið að tala um umsýslukjötið svokallaða, geti orðið um 2.000 tonn í lok þessa verðlagsárs, jafnvel hefur verið talað um ívið hærri tölu, án sérstakra aðgerða. Samningurinn miðast við að varið verði 150 millj. kr. til þessa verkefni í ár og mun ég flytja brtt. við þetta frv. ef Alþingi fellst á nýja búvörusamninginn, en það mun sjást þegar móttökur búvörulagafrv., sem lagt verður fram í dag, sjást, sem vonandi verða sem allra fyrst, því það liggur mjög mikið á því að fá afgreiðslu þessa máls því bændur bíða auðvitað eftir því að sjá hver úrslit þingsins verða, en Bændasamtökin samþykktu þennan búvörusamning um síðustu helgi eins og öllum er kunnugt.

Það er fyrirhugað að verja þessum 150 millj. kr. að hluta til til markaðsaðgerða innan lands með sölu á dilkakjöti og að hluta til til markaðsstuðnings við útflutning, hvort tveggja til að ná niður birgðum. Á þessu stigi er ekki fullljóst hvernig þessari upphæð verður skipt, en um það verður að sjálfsögðu náið samráð á milli ríkisstjórnarinnar og Bændasamtakanna.

Í grg. með frv. eru veittar skýringar á þeim útgjaldatilefnum sem leitað er heimilda fyrir. Ég tel ekki ástæðu til að ræða um einstök atriði eða tildrög mála að þessu sinni heldur mun ég fjalla um meginatriðin í endurskoðaðri áætlun um ríkisfjármálin eins og þau koma fram í frv.

Í þjóðhagsáætlun sem lögð var til grundvallar fjárlögum ársins 1995 var gert ráð fyrir bata á flestum sviðum efnahagslífsins eftir langvinna efnahagslægð. Í samræmi við þær spár var gert ráð fyrir að kaupmáttur ráðstöfnartekna heimilanna mundi aukast og atvinnuleysi mundi lækka frá árinu 1994. Talið var að efnahagsbatinn myndi vega upp áhrif ýmissa skattalækkana og styrkja tekjuhlið ríkissjóðs. Við setningu fjárlaganna var tekjuaukinn nýttur að hluta til þess að draga úr halla á ríkissjóði og að hluta til aðgerða í atvinnumálum með sérstöku framkvæmdaátaki í vegagerð.

Á þeim tíma ríkti hins vegar nokkur óvissa um áhrif kjarasamninga á ríkisfjármálin þar sem flestir kjarasamningar voru lausir í byrjun ársins 1995. Í forsendum fjárlaga var gert ráð fyrir að niðurstaða samninganna yrði í takt við áætlaðan hagvöxt og að samningarnir mundu þannig samrýmast áframhaldandi stöðugleika í efnahagsmálum og stefnumiðum ríkisstjórnarinnar um minni halla á ríkissjóði. Miðað við þessar forsendur voru fjárlög ársins 1995 afgreidd með 7,4 milljarða kr. halla.

Afkoma ríkissjóðs á árinu 1995 hefur nú verið endurmetin og er talið að greiðsluhalli ríkissjóðs verði um 8,9 milljarðar kr. á árinu. Greiðsluhalli ríkissjóðs er að sjálfsögðu sá halli sem myndast samkvæmt uppsettum fjárlögum þar sem eingöngu er horft á sjóðstreymi en ekki skuldbindingar. Gangi þetta eftir verður frávikið frá fjárlögum um 1,5 milljarðar kr. eða sem svarar til um 1,4% af tekjuáætlun fjárlaga. Frávik gjalda og tekna frá fjárlögum eru nokkru meiri en ganga til beggja átta og mun ég hér á eftir geta þeirra helstu. Ég vek athygli á að yfirlit um helstu frávikin er að finna á bls. 26 í grg. með frv.

Flest bendir nú til þess að efnahagsbatinn verði meiri en miðað var við í forsendum fjárlaga. Þannig var í fjárlögum reiknað með að einkaneysla gæti aukist um 2,5% frá árinu 1994 og að hagvöxtur á mælikvarða vergrar landsframleiðslu yrði um 2,1%. Nú er hins vegar talið að aukning einkaneyslu milli ára verði 4,5% og að hagvöxturinn verði 3,2%. Einnig eru horfur á að ráðstöfunartekjur á mann aukist um 5,5% í stað 2,8% í áætlun fjárlaga. Þessi auknu umsvif í efnahagsstarfseminni hafa skilað ríkissjóði viðbótartekjum af virðisaukaskatti og öðrum veltutengdum sköttum, en einnig af tekjusköttum vegna betri afkomu fyrirtækja og heimila. Þá er útlit fyrir að vaxtatekjur og arðgreiðslur verði talsvert hærri en reiknað var með í fjárlögum. Á móti verður ríkissjóður af talsverðum tekjum vegna niðurfellingar á tekjuskatti af lífeyrisgreiðslum sem ákveðin var í tengslum við gerð kjarasamninga snemma á árinu. Að samanlögðu er nú áætlað að tekjur ársins 1995 verði 114,4 milljarðar kr. eða um 2,3 milljörðum kr. hærri en í fjárlögum.

Ef við lítum aðeins á gjaldahliðina þá er gert ráð fyrir heldur meiri breytingum. Horfur eru á að útgjöldin verði um 123,3 milljarðar kr. eða 3,8 milljörðum kr. hærri en í fjárlögum. Nærri 2 milljarðar kr. af útgjaldaaukanum skýrast af áhrifum kjarasamninga sem gerðir hafa verið á árinu. Eru þá talin með útgjöld vegna ákvörðunar ríkisstjórnarinnar um að svonefndar eingreiðslur almannatrygginga skyldu greiddar í samræmi við ákvæði kjarasamninga ASÍ og VSÍ sl. vor. Í annan stað má rekja tæplega hálfan milljarð af viðbótarútgjöldum til nýrra ákvarðana ríkisstjórnarinnar og Alþingis eftir afgreiðslu fjárlaga, svo sem varðandi rekstrarvanda sjúkrahúsanna á höfuðborgarsvæðinu, aðstoð við íbúa Súðavíkur í kjölfar snjóflóða o.fl. Í þriðja lagi hafa útgjöldin aukist um 550 millj. kr. vegna sparnaðaráforma í sjúkratryggingum sem ekki hafa gengið eftir. Loks nema önnur ný útgjaldatilefni af ýmsum toga alls um 1100 millj. kr. Í því sambandi má t.d. nefna 330 millj. kr. aukningu vaxtagjalda og svipaða hækkun vegna uppgjörs á mörkuðum tekjum framkvæmdasjóða aldraðra og fatlaðra. Á móti þessu koma nokkur tilefni til lækkunar sem alls nema um 800 millj. kr., þar af eru 425 millj. kr. launagreiðslur sem féllu niður í verkfalli kennara fyrr á árinu. Í því sambandi má þó geta þess að ríkið hefur fallist á að fjölga kennslustundum tímabundið og munu þær falla til bæði nú í haust og eins fyrri part næsta árs.

Nýjar fjárlagaheimildir sem leitað er eftir með frv. vegna framangreindra útgjaldatilefna nema þannig alls um 3,3 milljörðum kr. Að auki er í frv. lagt til að fjárveitingar gildandi fjárlaga verði hækkaðar sem nemur ýmsum óhöfnum heimildum í árslok 1994, en jafnframt lækkaðar sem nemur umframgjöldum á árinu 1994.

Þetta er kannski dálítið flókin framsetning eins og þeir þekkja sem hafa lesið grg. þessara frv. Ég veit ekki hvort mér gefst tækifæri til þess hér síðar að fara örlítið betur í gegnum það. En nettóbreytingin, og það er hún sem skiptir máli, nemur 1,5 milljörðum kr. Nýjar heimildir ársins 1995, að viðbættum breytingum vegna greiðslustöðu í árslok 1994, verða þannig alls 4,9 milljarðar kr. í frv.

Gert er ráð fyrir því að í lok ársins 1995 hafi á sama hátt myndast afgangsheimildir og umframgjöld sem leitað verði staðfestingar á með frv. til fjáraukalaga ársins 1996. Hins vegar er talið að í ár verði gengið á slíkar óhafnar heimildir ráðuneyta sem nema um hálfum milljarði kr. einkum vegna meiri nýtingar á fjárveitingum til viðhalds og stofnkostnaðar. Í greiðsluáætlun ársins 1995 er þess vegna reiknað með að greidd heildargjöld í árslok aukist um 3,8 milljarða kr. frá fjárlögum og verði alls 123,3 milljarðar kr. eins og áður er getið.

Það er kannski ástæða til þess hér að staldra aðeins við og minna á að ástæðan fyrir því að menn færa skuldbindingar og inneignir yfir áramót er sú að með því vildum við ná betri tökum á ríkisrekstrinum. Það hefur sem betur fer tekist. Það er ekki sama hvatning og áður að eyða öllu því sem að hægt er að eyða rétt fyrir árslok né heldur gerist það nú að fyrirtækjum og stofnunum ríkisins sem spara sé hegnt með því að það sé tekið af fjárveitingum næsta árs. Að sama skapi gerist það hins vegar að þau fyrirtæki og þær stofnanir sem fara yfir fjárlagaheimildir geta búist við því að þær þurfi að endurgreiða þá fjármuni á næsta ári eða næstu árum. Þetta hefur haft verulega þýðingu að sjálfsögðu fyrir ríkisfjármálin og orðið til þess að auðveldara er fyrir menn að horfa til lengri tíma en eins árs í senn og er það vissulega mikill kostur.

[15:45]

Ef litið er til hagrænnar skiptingar ríkisútgjaldanna er fyrst að nefna að nú er áætlað að rekstrarkostnaður verði um 1,3 milljörðum kr. hærri en í fjárlögum. Viðbótarútgjöldin stafa að stærstum hluta af auknum launagjöldum ríkissjóðs í kjölfar nýrra kjarasamninga. Launahækkanir á árinu eru taldar leiða til um 850 millj. kr. útgjalda umfram forsendur fjárlaga. Mest munar um kjarasamninga kennara, en kostnaður af þeim er metinn á 545 millj. kr. Á móti vegur að launagreiðslur að fjárhæð 425 millj. kr. féllu niður á meðan verkfall kennara stóð yfir eins og ég hef minnst á áður. Samkvæmt þessu aukast launaútgjöld nettó um 430 millj. kr. til viðbótar við þær 800 millj. kr. sem þegar hefur verið gert ráð fyrir á launa- og verðlagsmálalið fjárlaganna.

Af öðrum málum vega þyngst um 240 millj. kr. vegna rekstrarhalla hjá stofnunum heilbrrn. og um 100 millj. kr. vegna stofnana utanrrn.

Neyslu- og rekstrartilfærslur eru taldar verða 48 milljarðar kr. í ár eða alls um 1,6 milljörðum hærri en gert var ráð fyrir í fjárlögum. Hefur þá verið tekið tillit til 370 millj. kr. lækkunar sem skiptist á nokkra tilfærsluliði. Af einstökum tilefnum til hækkunar munar mest um 1.300 millj. kr. aukningu bótagreiðslna í lífeyristryggingum og 280 millj. kr. í atvinnuleysistryggingum vegna kjarasamninga. Á launa- og verðlagsmálalið fjárlaga hafði þegar verið gert ráð fyrir 560 millj. kr. til að mæta þessum hækkunum og nema viðbótarútjöldin því um einum milljarði kr.

Í annan stað eru horfur á að umframútgjöld sjúkratrygginga verði 550 millj. kr. vegna ýmissa sparnaðar- og aðhaldsaðgerða sem áformaðar voru í fjárlögum en gengu ekki eftir eða hafa ekki gengið eftir hingað til. Þá má nefna að 210 millj. kr. eru vegna uppgjörs á mörkuðum tekjum Framkvæmdasjóðs aldraðra sem gert er ráð fyrir að renni til að leysa úr fjárhagsvanda ýmissa sjúkrastofnana. Vextir verða um 12,6 millj kr. eða rúmlega 300 millj. kr. hærri en reiknað var með við setningu fjárlaga. Skýrist þetta einkum af aukinni skammtímalántöku erlendis.

Varðandi vextina verður að segja frá því að eftir því sem stærri stokkur er tekinn til styttri tíma, þá hækka vextirnir því þá falla þeir til jafnóðum eða innan ársins. En á greiðslugrunni gerist það að lán til lengri tíma hleður upp vöxtum sem ekki eru síðan greiddir fyrr en þegar viðkomandi lán kemur til greiðslu. Á yfirstandandi ári var um það að ræða að ríkið þurfti að greiða verulega stórt lán en slíkt mun halda áfram á næstu árum, enda eru skuldir ríkisins háar eins og margoft hefur komið fram. Það ætti að vera hv. þm. umhugsunarefni þegar íslenska ríkið fer að greiða 13 milljarða í vexti. Þeir peningar verða ekki notaðir til annarra hluta og þetta er afleiðing af uppsöfnun skulda og rýrir auðvitað getu þjóðarinnar, ríkisins, ríkissjóðs til þess að standa undir ýmsum þeim kosntaði sem við erum vön að láta eftir okkur. Þess vegna hlýtur það að vera keppikefli að draga sem allra mest úr skuldunum og fyrsta skilyrðið til þess að það geti gerst er að sjálfsögðu að draga úr halla ríkissjóðs og síðan þegar honum hefur verið eytt að greiða niður skuldir.

Það hefur einnig komið fram þegar minnst er á þetta atriði og kom fram fyrr í umræðum í dag að það gerist nú á næsta ári, gangi þessi áform eftir, að í fyrsta skipti í 8 eða 9 ár mun það gerast að skuldir íslenska ríkisins, bæði erlendar og innlendar, munu lækka í hlutfalli við verga landsframleiðslu. Er það auðvitað annars vegar vegna þess að gert er ráð fyrir minni skuldsetningu en áður, en einnig vegna hins að hagvöxtur er heldur meiri en hefur verið á undanförnum árum.

Viðhald og stofnkostnaður verður um 600 millj. kr. umfram forsendur fjárlaga eins og nú horfir. Um það bil helmingur fjárhæðarinnar stafar af kostnaði við snjómokstur Vegagerðarinnar. Afgangurinn skýrist að mestu af því að aðstoð við fyrirtæki á Vestfjörðum var heimiluð með fjáraukalögum undir lok síðasta árs en kemur ekki til greiðslu hjá Byggðastofnun fyrr en í ár.

Þá vil ég, virðulegi forseti, víkja aðeins að lánahreyfingum ríkissjóðs. Lakari rekstrarafkoma en gert hefur verið ráð fyrir í fjárlögum hefur í för með sér að lánsfjárþörf ríkissjóðs eykst um 1,5 milljarða kr. Þá er útlit fyrir að endurlán til Þróunarsjóðs sjávarútvegsins verði 500 millj. kr. hærra en ætlað var þar sem heimildir sjóðsins fluttust milli ára. Hér kemur a.m.k. að hluta til skýring sem hefði verið gott að muna eftir í lokaræðu við fyrra mál sem hér er á dagskrá í dag.

Önnur aukning hreinnar lánsfjárþarfar er um 7,5 milljarðar kr. og stafar nær öll af því að ríkissjóður hefur þurft að hafa milligöngu um lántökur fyrir Húsnæðisstofnun ríkisins eins og kunnugt er. Þessi endurlán hafa hins vegar engin áhrif á heildarlántökur opinberra aðila.

Líkt og undanfarin ár er gert ráð fyrir að með frv. verði gerðar breytingar á fjárveitingum í fjárlögum þessa árs með tilliti til greiðslustöðu fjárlagaliða í lok síðasta árs. Þessar ráðstafanir hafa ýmist verið nefndar yfirfærslur eða flutningur heimilda milli ára. Kann það orðalag að hafa leitt til nokkurs misskilnings um tilhögun þeirra sem stundum verður vart við í umfjöllun fjölmiðla og jafnvel hjá opinberum aðilum. Virðist því ekki vera vanþörf á að árétta meginatriðin í fyrirkomulagi þessara ráðstafana Alþingis.

Í frv. til síðari fjáraukalaga ársins 1994 eftir að endanlegt greiðsluuppgjör hafði farið fram var leitað eftir heimildum vegna allra umframgreiðslna ráðuneyta á því ári. Í fskj. með frv. voru jafnframt kynntar tillögur um hækkanir og lækkanir á fjárveitingum yfirstandandi árs með tilliti til óhafinna fjárveitinga og umframgjaldaliða í lok liðins árs. Á því stigi voru tillögurnar einungis til kynningar og voru ekki hluti af heimildarákvæðum frv. Þar sem fjárveitingar fjárlaga ársins 1994 gilda aðeins fyrir það ár verður hins vegar að afla nýrra heimilda fyrir breytingum á fjárveitingum ársins 1995 vegna greiðslustöðu liða í lok síðasta árs.

Í 2. gr. frv. sem hér liggur fyrir, frv. til fyrri fjáraukalaga ársins 1995, eru þær tillögur fluttar í einu lagi undir launa- og verðlagsmálalið fjmrn. og koma þannig til ákvörðunar á Alþingi á sama hátt og aðrar heimildir frv. Í reynd eru fjárheimildir því ekki yfirfærðar eða fluttar milli ára af hálfu framkvæmdarvaldsins, heldur ákvarðar Alþingi breytingar á gildandi fjárlögum með hliðsjón af greiðslustöðu liða í lok liðins árs og að fengnum tillögum fjmrh. Hefur þetta fyrirkomulag líkt og í mörgum öðrum löndum aukið ráðdeild í ríkisrekstrinum og stuðlað að agaðri fjármálastjórn ráðuneyta og stofnana eins og ég vék fyrr að í mínu máli.

Þegar menn líta á þetta, og þetta kann að vera framandi fyrir suma hv. þingmenn, er eðlilegast að líta á bls. 46 og 47, þ.e. fskj. 1 í frv., en þar er listi yfir breytingar á framlögum 1995 vegna óhafinna heimilda og umframgjalda 1994. Ef við lítum á fyrsta dálkinn þar sem segir: Rekstur óhafið, þá er verið að leita þar viðbótarheimilda 1995. Síðan dregst frá næsti liður, rekstur umframgjöld. Það eru atriði sem við teljum að viðkomandi stofnanir og liðir eigi að bera sjálfir og síðan koma viðbæturnar í næstu tveimur dálkum, þ.e tilfærslur og viðhald, þannig að í raun og veru til þess að fá samtöluna, þá leggur maður dálkana saman, þann 1., 3. og 4 en dregur dálk nr. 2 frá. Þannig fæst samtala sem er í síðasta dálkinum. Vona ég að þetta hafi komist mjög vel til skila til þeirra mestu áhugamanna um ríkisfjármál sem hér sitja og hlýða á mál mitt að þessu sinni. Þetta mál þekkja hv. fjárlaganefndarmenn mjög vel, enda fjalla þeir um einstaka liði frv. og venjan er sú að gera ekki þessa liði að umtalsefni við 1. umr. heldur fremur í nefndinni og við síðari umræðu málsins.

Heildartölur vegna þessara ráðstafana í frv. eru þannig að í fyrsta lagi er lagt til að framlög til rekstrar samkvæmt fjárlögum ársins 1995 verði aukin um 603 millj. kr. vegna afgangsheimilda liðins árs, en að rekstrarfjárveitingar skerðist á móti um 597 millj. kr. vegna umframgjalda liðins árs þannig að þessar tölur jafnast nokkuð út.

Í öðru lagi er gert ráð fyrir að afgangur á tilfærsluframlögum síðasta árs sem nemur 363 millj. kr. komi með sama hætti til viðbótar við gildandi fjárlög. Og í þriðja lagi nemur heimild til viðhalds og stofnkostnaðar tæpum 1.200 millj., nánar tiltekið 1.193 millj. kr. vegna óhafinna fjárveitinga ársins 1994. Þetta er auðvitað sýnt eins og ég gat um áðan á fskj. nr. 1 með frv.

Virðulegi forseti. Ég vil í lok máls míns leggja til að frv. verði vísað til hv. fjárln. að lokinni 1. umr. málsins og síðan til 2. umr.