Fjárlög 1996

Þriðjudaginn 17. október 1995, kl. 16:45:43 (359)

1995-10-17 16:45:43# 120. lþ. 13.7 fundur 1. mál: #A fjárlög 1996# frv., heilbrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Kristínu Ástgeirsdóttur fyrir mjög málefnalega og góða ræðu. Hún spurði hér nokkurra spurninga sem ég ætla að svara. Hún spurði um innritunargjöldin. Þegar innritunargjöld verða sett á verður sérstakt tillit tekið til öryrkja og tekjulágs fólks. Hún spurði hér um glasafrjóvgunardeildina. Ég vil minna á það sérstaklega hér að það er verið að byggja upp þessa deild og í fjárlagafrv. er ætlað til þess verkefnis 21 millj. kr. fyrir utan þær 24 millj. sem eiga að fara á þessu ári. Um mánaðamótin mars/apríl verður deildin orðin mjög fullkomin og þá á að fækka á biðlistum. Hér er talað um sérstakt gjald, nýtt gjald. Það kostar í dag fyrir hvern einstakling 105 þús. kr. að fara í þessa aðgerð og endurtekin aðgerð kostar 60 þús. kr. Raunverulega kostar aðgerðin 250--280 þús. kr. með lyfjagjöf. Það er ætlunin að hækka gjaldið á fyrstu aðgerð en taka síðan tillit til þeirra sem þurfa að fara oftar en einu sinni. Það er ekki rétt að hver aðgerð eigi að kosta 200 þús. kr. eins og kom fram í máli hv. þm.

Ég vil taka undir með hv. þm. þegar hún talar hér um forvarnir. Það er gert ráð fyrir sérstakri upphæð í þessu fjárlagafrv. til forvarna varðandi áfengi og vímuefni. Og þá verða lagðar til þess málaflokks 50 millj. kr. og það er hægt að gera sérstakt átak í þessum efnum fyrir þá fjárhæð.

Varðandi ekkjulífeyri þá er það rétt sem kom fram hjá hv. þm. að hann mun falla niður. Það eru um 5 millj. kr. á ári. En þær sem eru nú þegar komnar á ekknabætur munu halda þeim áfram. En í staðinn fyrir ekkjulífeyri kemur framlenging á dánarbótum og þá er það jafnt fyrir ekkla og ekkjur.

Að öðru leyti vil ég minna á það að í fjárlagafrv. ársins 1994 var gert ráð fyrir 46 milljörðum til þessa málaflokks en fyrir árið 1995 49 milljörðum.