Fjárlög 1996

Þriðjudaginn 17. október 1995, kl. 16:57:37 (365)

1995-10-17 16:57:37# 120. lþ. 13.7 fundur 1. mál: #A fjárlög 1996# frv., SJS
[prenta uppsett í dálka]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Mér þætti vænt um að forseti gerði hæstv. samgrh. viðvart um að ég vildi gjarnan fá hann hér til umræðunnar síðar og eiga við hann orðastað en ég fagna nærveru hæstv. heilbr.- og trmrh. fyrir utan fjmrh. sem ég ætla líka að beina spurningum til.

Það er nú kannski nærtækt, herra forseti, að byrja aðeins á þessu með ríkisbúskapinn sem hér var tilefni orðaskipta áðan og þá ekki síst í ljósi þeirra karlmannlegu yfirlýsinga sem hæstv. fjmrh. gaf að nú yrði aldeilis brotið blað og tekið á þessum málum. Hæstv. fjmrh. er auðvitað að fara fram á traustsyfirlýsingu eða að fara fram á umboð til að glíma við þetta verkefni annað kjörtímabil. Þá er fróðlegt að skoða útkomuna á því sem er liðið. Það er nú svo að oft er þrasað um upphafspunkt í svona viðmiðunum og gjarnan er það árið sem kosningar fara fram á eða er látið tilheyra þeim sem á undan var. Það er valin sú leið hér í fjárlagafrv. í töflu á bls. 251. Þar eru einmitt teknar saman, að vísu því miður á verðlagi hvers árs, hallatölurnar eða rekstrarafkomutölur ríkissjóðs á hverju ári fyrir árin 1992 til og með áætlun um halla ársins 1995. Þetta er samanlagt á verðlagi hvers árs 33 milljarðar kr. Og uppreiknað þá væntanlega 34, 35 eða 36 milljarðar. Þetta er nú niðurstaðan af kjörtímabilinu 1992--1995 ef við köllum það kjörtímabil í fjárlagaskilningi. Væntanlega er niðurstaðan að verða nokkuð endanleg því við teystum því að áætlunin fyrir yfirstandandi ár sé nokkuð nákvæm.

Um þetta þarf ekki að þrasa. Þetta eru staðreyndir sem hæstv. fjmrh. verður að horfast í augu við. Þær röksemdir sem hann flutti hér um mikilvægi þess að ná tökum á ríkisbúskap og safna ekki skuldum á reikning barnanna okkar eru ekki nýjar af nálinni. Hæstv. fjmrh. hefði getað viðhaft nákvæmlega sömu orð árið 1991 og 1992. Það var jafnrétt eins og það er rétt í dag. En þetta er samt útkoman og er þá ekki hin pólitíska ábyrgð hæstv. fjmrh. orðin nokkur? Takandi mark á hans eigin orðum hafandi sullað svona saman skuldum á reikning framtíðarinnar allt sl. kjörtímabil, 7--9 milljarða á ári hvert einasta ár. Lægsta talan er 7,1 milljarður óframreiknað frá 1992 og sú hæsta tæpir 10 milljarðar. Svona er þetta nú.

Ég taldi rétt, herra forseti, í ljósi hreystiyrða hæstv. fjmrh. hér áðan um betri tíð í þessum efnum að minna hann á ferilinn. Það sem fyrir liggur eru tölulegar staðreyndir en ekki einhver áform og fyrirheit út í loftið. Því miður hræða sporin í þessum efnum og hæstv. fjmrh. má takast mikið betur upp á komandi árum ef hann á að komast í burtu frá þessari arfleifð sinni.

Í öðru lagi, herra forseti, vil ég gera að umtalsefni þátt sem varðar forsendur fjárlagafrv. og lítið hefur farið fyrir umræðum um það ég hef heyrt. Það er væntanleg álagning skatta á landsmenn á næsta ári. Ég sé ekki betur en að hér sé verið að boða í forsendum fjárlagafrv. varðandi álagningu tekjuskatts stórfellda skattahækkun. Þ.e. í þeim skilningi að í gegnum lækkun á skattfrelsismörkum á að taka til baka að fullu áformað skattfrelsi lífeyrisiðgjalda. Þannig að þegar upp er staðið þá verði landsmenn engu betur settir þrátt fyrir hina samningsbundnu úrlausn varðandi það að afnema nú tvísköttun í formi skattlagningar á iðgjöldum launamanna í lífeyrissjóðum. Hvað gerir ríkisstjórnin? Jú, hún ætlar væntanlega að standa við þau loforð og þau samningsbundnu fyirheit sem hún gaf í tengslum við kjarasamninga um það. En þá svíkur hún það bara með því að hækka skattleysismörkin á móti. Þegar upp er staðið eru menn því nákvæmlega jafnsettir. Eða hvað, hæstv. fjmrh.? Hvað þýðir orðalagið efst á bls. 252: ,,Skattleysismörk verða því svipuð og þau hefðu orðið ef persónuafsláttur hefði hækkað í takt við verðlag og skattfrelsi lífeyrisiðgjalda hefði ekki komið til sögunnar``?

[17:00]

Þetta er eins skýrt og það getur verið og mér finnst nokkur sérkennilegt miðað við þá ólgu sem verið hefur um kjaramál og fleira í þjóðfélaginu að undanförnu að þetta mál skuli ekki hafa orðið að meira hitamáli en nú er. Þetta er sérkennileg efnd á loforði að lýsa því yfir í texta að það verði svikið með þessum hætti strax á fyrsta ári.

Einnig finnst mér, herra forseti, athyglisvert að hér er talað um að sérstakur hátekjuskattur, 5% hátekjuskattur, verði framlengdur um eitt ár. Ég vil spyrja hæstv. fjmrh. í öðru lagi: Er það samkomulag stjórnarflokkanna um að þessi skattur verði eingöngu lagður á í eitt ár? Er búið að semja um það á milli stjórnarflokkanna að sérstök skattalækkun hátekjufólks komi til framkvæmda að ári liðnu? Er það það sem felst í þessum texta? Er það framlag Framsfl. í skattamálum á kjörtímabilinu? Ég veit ekki betur en Framsfl. hafi stutt álagningu hátekjuskatts á síðasta kjörtímabili. En er þar nú einmitt fundinn hópurinn sem þarf að létta af sköttum, þ.e. einstaklingar með yfir 225 þús. kr. á mánuði eða eru það 250? Hvort sem heldur er. Þetta er nokkuð athyglisvert í ljósi aðstæðna almennt og þeirrar miklu áherslu sem hæstv. fjmrh. leggur á að ná tökum á ríkisbúskapnum og halla fjárlaganna niður að þarna skuli vera boðaðar skattalækkanir á hátekjufólki. E.t.v. verður svo fallið frá þessu, þetta er e.t.v. eitthvert viðkvæmnismál fyrir hæstv. fjmrh. og hann hefur fengið að setja þetta fram svona, að þetta verði fellt niður á næsta ári og síðan þar næsta og síðan þar næsta o.s.frv. En til hvers er þá verið að þessum skollaleik?

Hér er í forsendum fjárlagafrv. enn talað um upptöku olíugjalds í stað þungaskatts. Eru þau áform ekki afslegin eða hvað? Er ekki samræmi á milli annars vegar fjárlagafrv. og hins vegar þess sem boðað er annars staðar? Ég veit ekki betur en að í efh.- og viðskn. hafi menn verið undir það búnir að það kynni að þurfa að fresta þessari álagningu olíugjaldsins. ( Fjmrh.: Það kom mjög skýrt fram í framsöguræðunni að þessu yrði breytt.) Já, já, þannig að textinn er... (Fjmrh.:... hv. þm. hefur hugsað um það.) Nei, það var ekki svo mjög en þetta hefur bara farið fram hjá mér. Ég biðst forláts á því, en það er gott að þetta komi fram. Það er þá allt í lagi að vekja athygli á þessu aftur. Það er sem sagt ósamræmi á milli textans í fjárlagafrv. og þeirrar framkvæmdar sem er fyrirhuguð af hálfu hæstv. ríkisstjórnar og það er það sem ég hafði rekið augun í. Þannig að ég tel alveg ástæðulaust að skamma mig fyrir skort á athygli. Ég hef ætlað að festa augun á þessum þætti.

Ég tel einnig ástæðu til að nefna hér áform ríkisstjórnarinnar varðandi fleira sem lýtur að skattamálunum og þá vil ég sérstaklega nefna jaðarskattamálið fræga því ég sé ekki annað en skattlagning fólks almennt og þar með talið auðvitað barnafólks og þeirra sem eru með húsnæðisskuldbindingar muni þyngjast vegna þeirra álagningaforsendna sem ég hef hér gert að umtalsefni miðað við það sem menn höfðu bundið vonir við, þ.e. þeir mundu njóta í formi hærri skattfrelsismarka skattfrelsi inngreiðslna í lífeyrissjóði. Nú á að taka það af mönnum þannig að ekki verður það til að mynda jaðaráhrif í skattkerfinu. Það er hins vegar með óljósu orðalagi boðað hér einhvers staðar að það verði eitthvað sem sé fyrirhugað ef ég man orðalagið rétt, að tekjuskerðing barnabótaaukans verði eitthvað minnkuð strax á næsta ári. Ég hef ekki séð á þessu neina útfærslu og ég spyr hæstv. fjmrh. að því: Liggur það fyrir? Um hvaða upphæðir er þar að ræða? Og þá í öðru lagi hvernig sú útfærsla verður. Verður dregið úr tekjuskerðingunni jafnt á barnabótaauka vegna þriðja og fjórða barns o.s.frv. eða verður þar einhver önnur framkvæmd á sem til að mynda kemur frekar til góða stærri fjölskyldunum eða eitthvað í þeim dúr sem manni fyndist sanngjarnt?

Það er einnig ljóst að það er verið að draga hér verulega úr fjárfestingum ríkisins. Það er a.m.k. upp á 2 milljarða kr. sem fjárfestingarnar lækka. Ég kem kannski nánar að einstökum þáttum þar síðar eins og samgöngunum, en það vekur óneitanlega mikla athygli að við þessar aðstæður og þetta atvinnuástand í þjóðfélaginu skuli ríkisstjórnin bregðast við með þessum hætti að skera sérstaklega niður fjárfestingarnar og uppbygginguna í landinu. Nú er flestra manna mál að hún sé hættulega lítil. Við Íslendingar leggjum hættulega lítið í fjárfestingu í atvinnulífinu í uppbyggingu í undirstöðuþáttum samfélagsins, í ,,infrastrúktúrinn`` eins og stundum er sagt. Og auðvitað er uppbygging á vegum ríkisins hluti af því, til að mynda í samgöngukerfinu. Það er hluti af þeim undirstöðum efnahagslífsins í landinu sem þurfa að vera fyrir hendi og þurfa að byggjast upp. Þarna er ríkisstjórnin fyrir sitt leyti að skera niður svo nemur 2 milljörðum kr. og það hefur bein áhrif á atvinnuástandið til hins verra. Og maður hlýtur að spyrja: Hefur eitthvað breyst til hins verra? Hefur eitthvað breyst --- það liggur við að maður segi til bölvunar, en það má víst ekki hér; til hins verra skulum við segja. Og þá er spurningin þessi: Hefur eitthvað breyst? Af hverju voru menn að leggja milljarða í atvinnuátak á árunum 1992 og 1993 þegar atvinnuleysið var kannski 3% og 4% ef það er ekki ástæða til að gera það nú? Er eitthvað skárra að búa við 5% atvinnuleysi í dag en það var þá? Ég skil ekki röksemdafærslurnar fyrir þessu. Ef eitthvað er, þá er atvinnuleysið núna verra og meira en nokkru sinni fyrr og auk þess orðið langvarandi, búið að standa í mörg ár. Þá er allt í einu bara hætt, engin verkefni í viðbót, engin framkvæmdaátök heldur þvert á móti dregið úr fjárfestingum hins opinbera. Það nemur líklega um 1.000--1.500 störfum í landinu á næsta ári og er þá vægt reiknað því að inn í það eru ekki tekin í sjálfu sér nein umtalsverð margfeldisáhrif.

Þetta eru umhugsunarverðar staðreyndir, herra forseti, og maður spyr sig auðvitað að því hvort það sé virkilega orðið svo að menn séu búnir að sætta sig við atvinnuleysi, menn séu bara búnir að gefast upp og sætta sig við það. Þegar atvinnuleysið fór vaxandi í tíð fyrri ríkisstjórnar, hægri stjórnar hæstv. forsrh. Davíðs Oddssonar sem innleiddi atvinnuleysi á Íslandi, þá var þó viðleitni í gangi til að beita sér gegn því með fjárveitingum bæði ríkis og sveitarfélaga og sameiginlegum átaksverkefnum þessara aðila. Nú virðast menn bara gefast upp og hætta og þarna er farið alveg í þveröfuga átt.

Á bls. 257 er fjallað um almennar forsendur og efnahagshorfur hér á landi, herra forseti, og þar er komið að þeirri alvarlegu staðreynd að hinn jákvæði viðskiptajöfnuður er að hverfa vegna þess að útflutningstekjurnar hafa hætt að vaxa á nýjan leik en einkaneyslan eða neyslan og innflutningurinn hefur aukist og er að éta upp afganginn sem var á viðskiptum við útlönd. Og það versta er að þessi aukna eyðsla er ekki fjárfesting, heldur fyrst og fremst neysla heimilanna í landinu. Sú neysla er fjármögnuð með lánum vegna þess að það kom fram í umræðum hér fyrr í dag um lánsfjáráætlun í töflu sem þar fylgir með að skuldaaukning heimilanna er fyrst og fremst vegna neyslulána í dag, ekki vegna fasteignalána. Það er hin hliðin á þessari auknu eyðslu að hún er tekin að láni þannig að það er ekki hægt að fagna henni á þeim grundvelli að heimilin eða fjölskyldurnar séu þarna að eyða meiru fyrir eigið aflafé. Það er ekki svo því miður. Enda vaxa skuldir heimilanna hratt og stefna fram úr skuldum atvinnulífsins innan fárra mánaða. Þetta eru umhugsunarverðar staðreyndir og ástæða til að nefna þær hér í tengslum við umfjöllun um þetta mál.

Þá, herra forseti, langar mig til að víkja aðeins að umfjöllun í frv. um málefni lífeyristrygginga og sjúkratrygginga. Og þá væri gaman að hæstv. heilbrrh. heiðraði okkur með nærveru sinni. Staðreyndin er auðvitað sú að í þessu frv. eru stórpólitísk tíðindi af ýmsu tagi hvað varðar þá útreið sem lífeyristrygginga- og sjúkratryggingakerfið á að fá af hálfu hæstv. ríkisstjórnar. Það er hart að þurfa að trúa því en maður fer að sakna Alþfl. í þessum ráðuneytum. (Gripið fram í.) Ja, það liggur við að maður segi það í alvöru. (Gripið fram í.) Það er alveg satt, hv. þm. Stefán Guðmundsson. Það er nú bara þannig þegar maður horfir á hvað Framsfl. ætlar að gera í þessu frv. til viðbótar því sem kratar voru búnir að gera. Það er ekki þannig að það sé verið að bakka með niðurskurðinn og fantaskapinn sem þeir beittu sér fyrir, alþýðuflokksmenn, sem gengu um eins og fílar í glervörubúð, heldur bætir Framsókn um betur í hverju tilvikinu á fætur öðru þannig að jafnvel hv. þm. Sighvatur Björgvinsson, fyrrv. hæstv. heilbrrh. sem varð frægur að endemum eins og kunnugt er af fyrstu mánuðum í sínu umdæmi, er byrjaður að blikna pínulítið við hliðina á hæstv. núv. ráðherra.

Við skulum, herra forseti, ekki fara með dár og spé heldur fara aðeins yfir það sem Framsókn er að gera því að þetta er alvörumál. Það er líka mjög merkilegt hvað þeir eru fundvísir á hið smáa eins og til að mynda það sem ég mun koma að síðar, að þeir hafa fundið ekkjur sem markhóp til þess að fjandast á og þar finna þeir 5 millj. Aðalmálið er það að hér er boðuð sú stórpólitíska breyting á lífeyriskerfinu að afnema þá sjálfvirku tryggingu sem lífeyrisþegar og bótaþegar, atvinnulausir, öryrkjar og ellilífeyrisþegar hafa haft í þessu landi. Þeirra kjör fylgdu launakrónunni á almennum vinnumarkaði. Þetta létu kratarnir í friði. Það bryddaði að vísu á þessu í forsendum fjárlagafrv. í þeirra tíð, en það var kveðið í kútinn. En hér er þetta sett inn ekki bara sem áform heldur sem beinhörð staðreynd og það er ekkert verið að dulbúa hvað eigi að gera. Þetta er ekki kerfisbreyting. Þetta er skerðing. Því að strax á fyrsta ári breytinganna á lífeyrir að lækka um mörg hundruð millj. Það er að vísu sagt að þetta sé til þess að afnema sjálfvirkni en hver hlustar á slíkt þegar bein afleiðing af breytingunni er skerðing á þessum lífeyri? Þannig að menn skulu bara tala um það eins og er. Hér er verið að ráðast á þennan hóp sérstaklega og það er ekki reynt að dulbúa það hvað þarna er á ferðinni því að það er ekki minnst einu orði á það hvaða viðmiðun eigi að koma í staðinn. Hvernig ætla menn að mæla ef menn afnema þessa tengingu? Hver þarf þá eða skal lífeyririnn vera í landinu? Á það að byggjast á einhverjum könnunum á framfærslukostnaði þessa hóps eða hvernig á að ákveða þetta? Nei, það á bara að setja inn einhverja slumptölu í fjárlögin og það er hún sem á að ráða. Og svo verður það bara að hafa sinn gang hvort þetta fólk á fyrir mat eða ekki. Það er sú stefna sem hér er verið að boða og þetta er auðvitað alveg með ólíkindum.

[17:15]

Hér er margt fleira eins og lækkun mæðra- og ferðalauna, það eru breyttar reglur um útgreiðslu svonefndra heimildarbóta og margt fleira sem þarna kemur til. Í fimmta og síðasta lagi er hér á bls. 327 gert ráð fyrir að spara heilar 5 millj. kr. með því að fella niður ekkjulífeyrinn. Enn koma ekkjurnar blessaðar til sögunnar. En nú í öðru samhengi en því sem mest hefur verið rætt hér á undanförnum árum þegar að Sjálfstfl. hamaðist á því hversu mikill fjandskapur fælist í skattlagningu þáverandi ríkisstjórnar gagnvart ekkjum og hin fræga umræða var hér um ekknaskattinn. Sjálfstfl. tók ekkjurnar alveg sérstaklega upp á arma sína, bar þær á höndum sér og stofnaði hreyfingu úti í þjóðfélaginu til að verja þær. Það voru haldnir fundir á Hótel Borg og varaþingmaður Sjálfstfl. fór fyrir þeirri miklu fylkingu, þekkt söngkona í bænum. Það voru ekkjur Sjálfstfl. Hvað kom svo í ljós? Það kom í ljós að ekkjur Sjálfstfl. voru helstu stóreignamenn bæjarins. Það voru þær sem Sjálfstfl. vorkenndi og dulbjó undir heitinu ekkjur. En hér eru hinar eiginlegu ekkjur á ferðinni. Og þar er Sjálfstfl. með allt annað viðhorf. Þar er hægt að taka 5 millj. Já, litlu verður Vöggur feginn. Og svo er sú snilld sett hér inn að þær konur sem verði ekkjur eftir 1. jan. 1996, muni ekki eiga rétt á þessum bótum. Þannig að ef karlarnir deyja fyrir áramót þá verður þetta í lagi. (Gripið fram í: Það er þá best að flýta sér.) Já, það er víst best.

Það er ótrúlegt að sjá þessa texta hér á prenti. Og að það skuli vera Sjálfstfl., sérstakur vinur ekknanna, sem stendur fyrir þessu. Að vísu í gegnum Framsfl. Það er með þessa ríkisstjórn eins og þá síðustu, Sjálfstfl. hefur sérstakt lag á því að láta framsóknarmennina eða samstarfsmennina ganga í skítverkin og niðurskurðinn. Og etur þeim á foraðið. Hæstv. utanrrh. viðurkenndi hér í ræðu í dag að Sjálfstfl. hefði ekkert þurft fyrir þessu að hafa því að Alþfl. hefði alltaf farið á undan í niðurskurðinum.

Það er auðvitað margt fleira hér með miklum ólíkindum. Þegar kemur að sjúkratryggingunum má í rauninni fara yfir þann þátt mála með svipuðum hætti. Þar er lið fyrir lið farið yfir þessa hópa og reitt af þessum hér og hinum þar. Þar er til að mynda verið að tala um smámuni eins og þá að afsláttur eftirlaunaþega á greiðslum fyrir heilbrigðisþjónustu og lyf á að hækka úr 67 ára aldri í sjötugt. Þetta er lítið dæmi um þann naglaskap sem þarna er á ferðinni. Það á með öðrum orðum að reyna að pína fólk til þess að bera þennan kostnað sjálft ef það vill fara á eftirlaun á þeim aldri sem það hefur rétt til og á þá vonandi einhvern sæmilegan lífeyri til. Nei, þá skal það samt bera þennan kostnað í þrjú ár þangað til það verður sjötugt. Og ég spyr: Af hverju ekki sjötíu og tveggja ára eða sjötíu og þriggja og hálfs? Hvaða kúnstir eru þetta? Af hverju er þetta ekki miðað við þau mörk sem eðlileg eru, eða hinn viðurkennda eftirlaunaaldur í landinu? Þetta er með miklum ólíkindum. Og svo koma hlutir eins og þeir að í sjöunda og síðasta lagi er ráðgert að 10 millj. kr. sparist með því að hætt verði að greiða fyrir sjónpróf og endurtengingar vegna fyrri ófrjósemisaðgerða. Er það einhver sérstakur hópur sem er betur staddur en aðrir sem njóta einhverra sambærilegra greiðslna í kerfinu? Er búið að athuga það? Eru sjónskertir eitthvað betur staddir fjárhagslega til að bera þetta heldur en fólk sem býr við annars konar erfiðleika og fær sambærilegan stuðning í kerfinu? Hvaða vísindi eru á bak við þetta? Engin. Þetta er bara geðþóttaniðurskurður þar sem menn bera einhvers staðar niður. Það vottar ekki fyrir faglegum rökstuðningi eða áherslum hér af neinu tagi. Ég held að hæstv. heilbrrh. skuldi okkur það að fara aðeins betur yfir þessa hluti og útskýra það fyrir okkur í hverju þessi mikla lífsspeki framsóknarmanna er fólgin. Að ráðast þarna á garðinn.

Svo kemur að sjúkrastofnununum, herra forseti, og þar er hinn frægi sjúkrahúsaskattur á ferðinni, 200 millj. kr. Og hver er nú röksemd hæstv. heilbrrh. sem ég hef heyrt borna fram í þessu efni? Það þarf að jafna samkeppnisskilyrðin milli einkageirans og stofnana. Það er ekki sanngjarnt að fólk sem leitar til einkageirans þurfi að borga meira en það sem fer inn á stofnanir og þess vegna eðlilegt að menn greiði einhvern skatt. En þetta þóttist ég nú hafa heyrt, hæstv. heilbrrh. Er þetta ekki nærri lagi? (Heilbrrh.: Nei, nei.) Nú jæja. Hin djúpa speki, hin nýja heilbrigðisspeki Framsóknar verður þá vonandi útskýrð hér á eftir. En ég segi að þetta er vitlaus speki og stefna. Það á ekki að skattleggja fólk fyrir að fara inn á sérhæfðar heilbrigisstofnanir eins og sjúkrahús. Menn gera það ekki að gamni sínu. Það er engin hætta á því. Menn streyma ekki þangað inn einu sinni í viku eða tvisvar í mánuði til að láta taka úr sér botnlangann eða eitthvað þar fram eftir götunum. Ég þekki engan mann sem gerir slíkt að gamni sínu. Og þetta er ósköp einfaldlega innleiðing á kostnaði fyrir fólk án tillits til efnahags sem felur í sér mismunun. Það endar þannig, hæstv. heilbrrh. Spyrðu Bandaríkjamenn, hæstv. heilbrrh., ef þú ert í vafa um hver þróunin verður. Því í næsta frv. og þar næsta frv. þá verður þetta hærra og hærra og áður en menn líta við þá er gjaldtakan orðin þannig að hún er farin að mismuna fólki stórkostlega. Auk þess er það vitlaust frá sjónarhóli heilbrigðisþjónustunnar og skynsamlegrar nýtingar á uppbyggingunni þar að ýta þjónustunni út af sjúkrastofnununum. Því hvert fer hún þá? Hún gufar ekki upp. Hún fer út í einkageirann sem er miklu dýrari. Og ef það er eitthvað sem er ástæða til þess að hafa áhyggjur af þá er það einmitt það, að það er búið að svelta sjúkrastofnanirnar svo, stóru og sérhæfðu stofnanirnar, að þær geta ekki einu sinni nýtt þann tækjakost sem þær hafa. Á sama tíma er verið að byggja upp einkastofur úti í bæ og eyða tugum og jafnvel hundruðum millj. í uppbyggingu á jafnvel fullkomnum röntgendeildum. Þetta er glórulaust á meðan dýrustu og sérhæfðustu tæki landsmanna, t.d. á deildum Landspítalans, eru ekki fullnýtt af því að það er búið að þjarma svo að rekstrinum þar. Menn mega ekki láta vinna yfirvinnu til að nýta þessi tæki sem kosta sum tugi og jafnvel hundruð millj. kr. En á sama tíma eru menn með samninga úti í bæ að byggja upp fullkomnar stofur, rannsóknastofur og röntgenstofur og jafnvel litla spítala og eru með óútfylltar ávísanir á Tryggingastofnun ríkisins til að láta hana borga reikningana. Er þetta þjóðhagslega hagkvæmt? Er þetta skynsamlegt? Það er jafnvel verið að kaupa núna á vegum einkaaðila inn í landið tæki sem eru svo dýr að það var stórátak að kaupa fyrsta tækið sinnar tegundar inn á Ríkisspítalana fyrir nokkrum árum. Hver borgar reikningana? Halda menn að peningarnir komi af himnum? Ef hæstv. heilbrrh. væri að taka á þessum málum þá skyldi ég styðja hæstv. ráðherra en ekki í svona vitleysu. Að þjarma þarna að stofnunum sem að búið er að byggja upp. Fjárfesta í. Kaupa til tæki og fá svo erfiðustu verkefnin til að leysa þau hvort sem er, því öllum vandamálunum er vísað þangað. Einkageirinn fleytir bara rjómann ofan af. Tekur einföldustu aðgerðirnar og þær rannsóknir sem ekki eru mjög flóknar. Sendir hinar inn á Ríkisspítalana, þannig að ríkið situr áfram uppi með erfiðustu verkefnin og kostnaðinn. Og þetta er glórulaus stefna.

Ég held að í þessum áherslum og breytingum á lífeyristryggingunum og sjúkratryggingunum, sé alveg stórhættuleg og vitlaus pólitík á ferðinni. Og það er ömurlegt að sjá Framsfl. standa fyrir þessum hlutum undir því yfirskini að það þurfi að sýna ábyrgð í ríkisfjármálum. Auðvitað, nema hvað? En þarf að gera það með því að reita fáeinar milljónir af sérstökum völdum hópum með veika stöðu í heilbrigðiskerfinu eða sjúkratryggingakerfinu? Er það eina ráðið? Er svo komið á Íslandi að eina aðferðin til að ná endum saman í ríkisbúskapnum sé að þjarma að þessu fólki? Er það skoðun Framsóknar? Er það það sem hún uppgötvaði eftir kosningar, hún Framsókn? Hún sagði okkur það að minnsta kosti ekki fyrir þær. (Gripið fram í: Fólk í fyrirrúmi.) Þetta er fólk í fyrirrúmi já. Ég þakka hv. þm. Þetta var gott frammíkall. Þetta er stefnan fólk í fyrirrúmi í praxís, eins og hún er eftir kosningar hjá Framsókn. Og ég vona að hæstv. heilbrrh. komi og útskýri enn betur fyrir okkur á eftir í hverju þetta felst.

Ég vil svo spyrja hæstv. ráðherra um eitt atriði enn sem varðar heilbrigðismálin sérstaklega og það er sú mikla speki að skera á allar fjárfestingar nánast í heilbrigðiskerfinu eins og það sé eitthvað sem staðist geti til frambúðar. Ég heyrði einhvern mikinn speking, gott ef það var ekki bara leiðarahöfundur, hæla ráðherra fyrir þessa snilld. Að hæstv. heilbrrh. hefði fyrstur manna áttað sig á því að það þýddi ekkert að vera að byggja upp hluti nema það væri hægt að reka þá. Það er út af fyrir sig sjónarmið. En halda menn að heilbrigðisþjónusta á Íslandi verði rekin til langfram án þess að þar verði einhver endurnýjun? Einhver fjárfesting og einhver uppbygging? Auðvitað ekki, það er enginn maður svo vitlaus að láta sér detta það í hug. Og hvað þýðir þá ef menn stöðva allt slíkt í eitt ár, tvö ár, þrjú ár? Það þýðir að vandinn safnast upp og verður enn meiri þegar reynt verður að taka á honum að nokkrum árum liðnum. Það þýðir að mannvirki drabbast niður, tækin ganga úr sér og við þurfum að ráðast í enn stærra átak til þess að halda hér nútímalegri, þróaðri og uppbyggðri heilbrigðisþjónustu þegar frá líður. Auðvitað er það hneyksli að það skuli ekki eiga að fara nema 74 millj. kr. í allt viðhald á Ríkisspítölunum. Við þekkjum alveg afleiðingar þess að skera það niður. Við vitum öll hvað það þýðir. Það þýðir að innan fárra ára hafa safnast þarna upp mikil verkefni sem verður að ráðast í og kosta þá hundruð millj. kr. á ári. Þetta er vitlaust. Og sérstaklega vil ég spyrja hæstv. heilbrrh. um uppbyggingu á Barnaspítala Hringsins. Er það svo að hæstv. heilbrrh. sé búinn að slá það mál af og það sé búið að ákveða að svíkja þann samning varanlega? Eða hvað er þarna á ferðinni? Því að nýframkvæmdir, framlag sem þar átti að vera upp á hundrað og einhverjar millj. kr. er fellt niður. Satt best að segja held ég að það sé ákaflega dapurlegt ef þau áform sem búið er að vinna lengi að og safna til miklu fé af hálfu áhugasamtaka úti í þjóðfélaginu og miða við í áformum Landspítalans eða Ríkisspítalanna varðandi nýtt húsnæði og endurskipulagningu starfsemi þar á bæ, ef þau verða nú slegin af. Það eru mikil vonbrigði fyrir alla þá sem þekkja eitthvað til starfsemi þessarar stofnunar ef þetta á að fara svona. Aðstaða barnadeildarinnar er algjörlega ófullnægjandi. Það er ekki til á Íslandi húsnæði sem er byggt upp sérstaklega með þarfir barnalækninga í huga heldur er sú starfsemi sett upp í deildum sem ætlaðar voru fyrir fullorðið fólk og er þess vegna hvorki sniðin að börnunum né foreldrum þeirra eða öðrum þeim sem þurfa að njóta þessarar þjónustu. Að vísu er á þessu sú undantekning að á Akureyri er að fást úrlausn á þessum málum. En það leysir ekki þörfina hér sem er mikil og ég ítreka það, hvað ætlar hæstv. núv. heilbrrh. sér að gera í málefnum Barnaspítala Hringsins?

Og þá, herra forseti, ætla ég nú að snúa frá þessum dapurlega kafla um heilbrigðis- og tryggingamálin og Framsfl. Sú útreið sem Framsfl. fær þarna er tæpast ræðandi um ógrátandi. Ég verð að játa að ég skil ekki það metnaðarleysi og þann aumingjaskap af Framsfl. að láta nota sig svona undir því yfirskini að menn þurfi að ná árangri í ríkisfjármálunum. Auðvitað, en þarf hann að birtast í þessu? Og það er von að hæstv. fjmrh. glotti því hann fær ekki pólitísku óvinsældirnar af því að ganga svona fram. Heldur aumingja heilbrrh. hæstv.

En þá, herra forseti, ætla ég að hverfa frá þessu og fá stórvin minn, samgrh. hér í salinn ef hann er hér á lóðinni. (Gripið fram í: Já, hann er í húsinu.) Vonandi eru góðar samgöngur hér um húsið svo að hann komist til viðræðnanna. Því miður er lítið skemmtilegra að ræða þessi mál við hæstv. samgrh. þótt þar sé kannski ekki beinlínis verið að níðast á sjúkum og lífeyrisþegum. En þar eru mikilvægir málaflokkar líka á ferðinni og þeir fá satt best að segja alveg skelfilega útreið í þessu frv., málaflokkar hæstv. samgrh. Er hæstv. samgrh. kannski upptekinn við borðaklippingar einhvers staðar? (Gripið fram í: Ja, nú kann ég ekki að svara.) Það gæti nú verið, að samgrh. væri einhvers staðar að klippa borða. Nei, hér kemur hæstv. samgrh. og það er alveg óhjákvæmilegt að hann sé hér aðeins við umræðuna og geri okkur nú þann heiður og þann sóma að svara svolítið fyrir sína málaflokka.

Og þá fyrst um vegamálin. Hvað þau varðar hefur hæstv. samgrh. farið býsna mikinn undanfarin ár. Hann hefur haldið því fram að hann væri að auka framkvæmdir í vegamálum með miklum glæsibrag, sem er að nokkru leyti rétt. Ég hef hins vegar gjarna bent á að þetta kynni að reynast hæstv. ráðherra skammgóður vermir vegna þess að stór hluti framkvæmdanna var framkvæmdur fyrir lántöku.

[17:30]

Nú kann að vera að hæstv. ráðherra hafi aldrei reiknað með því að vera samgrh. nema í fjögur ár. Sagan segir að hæstv. ráðherra hafi orðið mjög hissa á því að verða ráðherra og þar af leiðandi kannski ekki ætlast til þess beinlínis að það yrði nema í fjögur ár og þá hefði þetta allt saman gengið vel hjá hæstv. ráðherra því þá hefðu aðrir þurft að borga lánið. En nú kemur að vandanum. Nú er veislan búin og nú er komið að skuldadögunum og nú ætlar hæstv. fjmrh. að hirða í ríkissjóð hátt í milljarð kr., slagar upp í milljarð kr. í skuldirnar og framkvæmdirnar eru skornar niður að sama skapi. --- Hæstv. samgrh. þoldi þetta ekki, hann spýttist úr salnum þegar hann ...

(Forseti (ÓE): Hann hlustar.)

Ég veit það ekki, hæstv. ráðherra er alla vega farinn. (Samgrh.: Ég heyri þína ljúfu rödd.) Það er gott. Og hvað ætli leiði af þessu, hæstv. samgrh.? Það þýðir að það verður að taka upp vegáætlun, hún endist þá ekki betur en þetta, sem var afgreidd á þinginu í fyrra, og hæstv. ráðherra kemur með pakka í vegamálum sem þýðir niðurskurð upp á hátt í milljarð kr.

Það þarf í sjálfu sér ekkert að segja meira um þetta, herra forseti. Þetta er svona. Það er allt að koma fram sem við sögðum á síðasta kjörtímabili, að það yrði skammgóður vermir að byggja þá upp framkvæmdir á lántökum sem ætti síðan að fara að endurgreiða og það er reyndar gengið hraðar í það en við áttum von á því að hátt á sjöunda hundrað millj. kr. eiga að renna beint í ríkissjóð af mörkuðum tekjustofnum Vegagerðarinnar á næsta ári. Og fyrir utan ýmis önnur útgjöld og annað sem rýrir þennan pott sem er til skipta í framkvæmdum, þá verður auðvitað niðurstaðan sú að þarna verður um stórfelldan niðurskurð á framkvæmdum í vegamálum að ræða, stórfelldan niðurskurð. Það þarf því að taka upp nýja vegáætlun og út úr henni hverfa framkvæmdir fyrir hundruð millj. kr. Þetta kemur upp úr pokunum núna strax eftir kosningarnar, eftir að samgrh. er búinn að fara um landið og klippa á borða. Það hefur ekki mátt taka svo í notkun minnsta vegarspotta eða brú yfir læk að ráðherra væri ekki mættur þar og opnaði hann a.m.k. tvisvar eða þrisvar. Sagan segir að hæstv. ráðherra hafi náð því að klippa þrisvar sinnum á borða á norðurleiðinni frá Reykjavík til Akureyrar. Fyrst klippti hann á borða í Öxnadalnum sumarið 1993. Svo keyrði hann Botnastaðabrekkuna, sem hann tók upp á að kalla svo, en venjulegir menn kalla Bólstaðarhlíðabrekku, og klippti þar á borða. Það var númer tvö. Síðan afhjúpaði hann minnisvarða uppi á Öxnadalsheiði og klippti þar á borða skömmu seinna um haustið og það var númer þrjú. Þannig að það var þreföld vígsla á þeirri framkvæmd og ýmsar brýr á Austurlandi hafa líka verið hressilega vígðar að sögn.

Nú er þessari veislu hins vegar lokið, herra forseti, og það er heldur dapurlegt satt best að segja þegar menn koma svona í bakið á sjálfum sér. Og eina afsökunin eða skýringin sem ég kann á því, get getið mér til, er sú að hæstv. ráðherra hafi aldrei ætlað að vera ráðherra nema í fjögur ár. Það hafi orðið slys að hann endaði í samgrn. aftur.

En því miður eru það ekki bara vegamálin sem fá þarna dapurlega útreið. Hafnaframkvæmdir eru skornar verulega niður og það er lakara að miklu, því ég held að við hv. þm. sem eitthvað þekkjum til þeirra mála höfum allir verið sammála um það að þar hafi menn kannski stundum gengið einna lengst á undanförnum árum í því að skerða framkvæmdir sem voru lífsnauðsynlegar og óumflýjanlegar og tengjast beint sjálfri undirstöðu verðmætasköpnarinnar í landinu, sjávarútveginum. Það er þess vegna ákaflega dapurlegt ef nú á að halda á nýja leið í sömu átt, að skerða þessar framkvæmdir. Það skal að vísu viðurkennt að það var haldið uppi allmyndarlegu framkvæmdastigi lengst af á síðasta kjörtímabili í hafnamálum og ég hef enga dul dregið á það, en það er jafnslæmt eftir sem áður ef það á núna að minnka.

Þá að síðustu, herra forseti, innan þessa samgöngugeira og það sem langljótast er, það eru flugmálin. Það er ósköp einfalt, það er bara til ein lýsing á því sem þar gerist. Flugmálaáætluninni er slátrað gersamlega. Henni er slátrað með því að hæstv. samgrh. virðist hafa látið beygja sig til þess að afsala sér í ríkissjóð svo til öllum tekjum flugmálaáætlunar. Það á að hirða 190 millj. kr. af mörkuðum tekjum flugmálaáætlunar í rekstur á næsta ári. Við stóðum í hörðum slag í fyrravetur um að lækka þá áformaða skerðingu úr 70 millj. í 40 millj. Það hafðist með barningi fyrir jólin af því að stjórnarþingmenn þurftu að komast heim, að lækka þetta niður og hún var varin sem þessu nam. En nú á að fara þarna í 190 millj. kr., sem þýðir að framlög til framkvæmda á flugvöllum lækka um 150 millj. frá því sem verið hefði, 150 millj., og það er verulegur hluti af þeim heildarframkvæmdum sem þar eru, en eftir standa þá um 200 millj. kr.

Þetta er ekki bara grimmilegur niðurskurður í málaflokki þar sem mikil þörf er á framkvæmdunum, því það er enn mikið verk óunnið við uppbyggingu flugsamgangna og menn eru í miðjum klíðum að ganga frá flugbrautum úti um allt land og reyna að koma þeim í viðunandi horf, leggja þar bundið slitlag o.s.frv., þetta er sýnu verra vegna þess hvernig þessi tekjustofn er til kominn. Hann er skattur á flugfarþegana og ekki síst þá sem fljúga innan lands og bera óheyrilega há flugfargjöld nú þegar. Um það var mikil umræða þegar ríkisstjórnin ætlaði að leggja virðisaukaskatt á farseðla í innanlandsflugi, það var líka barið niður loksins eftir mikinn slag í þinginu.

En ég spyr: Hvar eru þingmenn landsbyggðarinnar nú? Hvar eru framsóknarmennirnir í þessum slag? Ætla þeir að kyngja því að tekjustofnar flugmálaáætlunar, sem eru ekki síst skattur á flugfarþegana af landsbyggðinni, verði hirtir í ríkissjóð? Er það skattstofn að leggja gjaldtöku ofan á næstum 20 þús. kr. farseðil frá Vopnafirði til Reykjavíkur? Er sanngjarnt að það skuli kosta fólk, sem t.d. þarf til lækninga frá Vopnafirði til Reykjavíkur, 20 þús. kr.? Það er minna heldur en hægt er að hoppa á til Dublin í verslunarferð, er það ekki, og lifa þar á hóteli í vellystingum praktuglega fyrir svipað verð eða minna. En þetta fólk á engan annan kost. Ef það ætlar að nýta sér margs konar þjónustu sem hvergi er að finna nema hér, þá verður það að taka flug, t.d. sjúkt, gamalt fólk. Það sest ekki upp í bíl og keyrir í einum spretti frá Vopnafirði til Reykjavíkur. En fargjaldið kostar 20 þús. kr. Er þetta skattstofn? Er sanngjarnt að taka þann tekjustofn sem var búinn til með álögum á þennan rekstur og hirða hann í ríkissjóð? Ég segi nei. Það væri þá skárra að fella þessa gjaldtöku niður og lækka framkvæmdirnar sem því nemur og láta fólkið njóta þess í lægri fargjöldum að minna verður byggt upp í flugsamgöngum á Íslandi á næstu árum.

Þetta er argasta svívirða og hneyksli og ekkert minna og ég fagna því að hv. fyrrv. þm., Matthías Bjarnason, skuli ekki þurfa að sitja hér undir þessu. Ég fagna því að hann skuli ekki þurfa að horfa upp á flokksbræður sína og -systkini gera þessa hluti hér á þinginu eða boða þá. Því það er nú einu sinni svo að það var í hans ráðherratíð sem þessi flugmálaáætlun var samþykkt og hann beitti sér manna harðast fyrir því að taka upp þessa fjármögnun, enda stóð hann líka dyggilega vörð um það að henni væri varið til framkvæmda í flugmálum á meðan hann sat hér á þingi. Þetta er mikil hneisa og köld kveðja til hans meðal annarra sem hér er boðuð í þessu fjárlagafrv., sem er satt best að segja heldur lélegt plagg, herra forseti, og eiginlega varla þess virði að ræða um það í 40 mínútur þó að ég hafi gert það samt.