Fjárlög 1996

Þriðjudaginn 17. október 1995, kl. 17:38:46 (366)

1995-10-17 17:38:46# 120. lþ. 13.7 fundur 1. mál: #A fjárlög 1996# frv., SighB
[prenta uppsett í dálka]

Sighvatur Björgvinsson:

Virðulegi forseti. Ég er nú ekki sammála hv. síðasta ræðumanni um það að þetta fjárlagafrv. sé lélegt plagg. Það verður að segja eins og er að með hverju fjárlagafrv. sem birtist eru þingmönnum gefnar gleggri upplýsingar í greinargerð um ýmsa hluti sem full ástæða er til þess að menn kynni sér og varpa skýru ljósi á ýmsar staðreyndir í ríkisfjármálum og efnahagsmálum þjóðarinnar. Ég tel því ekki að þetta plagg sé gagnslaust eða lítils virði. Hins vegar mættu þeir höfundar í fjmrn. takmarka sig nokkuð meira en þeir gera því það er gjarnan að menn tví- og þrítaka sömu hlutina í grg. og textinn er kannski ekki alltaf upp á það besta, eins og stendur hér í upphafskafla frv., þar sem segir svo, með leyfi forseta:

,,Megináhersla er lögð á að skapa skilyrði til varanlegs hagvaxtar og aukinnar atvinnu án þess að stofna í hættu stöðugleika í verðlagi og frekari lækkun erlendra skulda.``

Ég vissi nú ekki fyrr að menn væru hræddir um að frekari lækkun erlendra skulda gæti átt sér stað, en það mætti lesa úr þessu fjárlagafrv. og er það vissulega athyglisverð stefnuyfirlýsing.

Þá fannst mér líka mjög athyglisvert sem segir hér á bls. 245, með leyfi forseta:

,,Mikill hallarekstur á ríkissjóði hefur verið í brennidepli efnahagsumræðunnar á alþjóðavettvangi undanfarin ár.``

Ég vissi ekki heldur, virðulegi forseti, að meginatriði alþjóðlegrar umræðu um efnahagsmál hafi verið ríkissjóðurinn hans Friðriks Sophussonar og meginatriðið í allri alþjóðlegri umræðu væri ríkissjóðshallinn á Íslandi.

(Forseti (ÓE): Hæstv. fjmrh.)

Hæstv. fjmrh. En það eru nokkur tíðindi sem þetta fjárlagafrv. segir og þess vegna er ég ekki alveg sammála hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni í því að þetta sé gagnslaust plagg og vænti ég þess að fjmrh. skýri okkur þá frá niðurstöðum um þessa miklu alþjóðlegu umræður um hallann á ríkissjóði sem hann hefur væntanlega tekið þátt í.

Það hefur komið fram og ég er sammála því hjá hæstv. fjmrh. að markmiðið með því fjárlagafrv. sem hér er lagt fram er að ná tökum á fjármálum ríkissjóðs og ég er líka sammála hæstv. fjmrh. í því að það er forsenda fyrir því að hagvöxtur geti orðið hér á Íslandi, vextir farið lækkandi og dregið verði úr atvinnuleysi. Það er ekki nokkur vafi á því að ef ríkisstjórn getur gert eitthvað til þess að ná árangri í uppbyggingu atvinnulífs til lækkunar vaxta og til aukins hagvaxtar, þá er það að ná tökum á ríkisfjármálunum. Þannig að okkur greinir ekki á um þau markmið sem hæstv. ríkisstjórn setur sér í þessu frv. Ég hef hins vegar ekki eins mikla trú á því og hæstv. fjmrh. að frv. sé þess eðlis að það sé líklegt að hann nái þessum markmiðum sínum.

Í fyrsta lagi bendi ég á, eins og kom fram hjá hv. 5. þm. Vesturl. fyrr í þessari umr., að þær forsendur sem frv. byggir m.a. á í tekjuspám sínum eru afskaplega veikar. Þar er gert ráð fyrir 30 þús. tonna afla úr Smugunni þó svo að menn viti nú að það sé verið að semja við Norðmenn um mun minni afla. Þá er einnig gert ráð fyrir því að loðnuveiðin verði á vertíðinni um eða yfir ein millj. tonn þó svo menn hafi ekki fundið möguleika á þeirri veiði enn. Þessar tekjulegu forsendur fjárlagafrv. eru því vægast sagt mjög veikar.

En þrátt fyrir það að menn reikni með því að þetta gerist og gangi eftir hvort tveggja, þá er samt aðeins spáð 2% hagvexti á næsta ári, sem er mun minni hagvöxtur heldur en orðið hefur á þessu ári. Það sýnir mjög einfaldlega að þrátt fyrir að ríkisstjórnin spenni væntingarboga sína eins hátt og framast er kostur þá eru ekki horfur á því að hagvöxtur á Íslandi á næsta ári verði neitt í líkingu við það sem menn vonuðust eftir fyrir aðeins hálfu ári síðan né heldur neitt í líkingu við það sem honum er spáð í helstu viðskiptalöndum okkar. Það er því ljóst að þó að allar væntingar séu settar í hámark þá verður ekki sá efnahagsbati á næsta ári sem menn eru að gera sér vonir um nema einhver búhnykkur verði á árinu, sem ég sannarlega vona að geti orðið, eins og t.d. með tilkomu álversframkvæmda, sem ég tel að séu um það bil 90% líkur á. Þannig að þær væntingar styrkja forsendur fjárlagafrv. þó að það sé ekki tekið fram í frv., e.t.v. nálægt því sem Smuguveiðarnar og loðnuveiðarnar gætu gefið, en munu að öllum líkindum ekki gefa.

Ef við lítum aðeins á hvað auðkennir þetta fjárlagafrv. þá er það í fyrsta lagi athyglisvert að tekjurnar samkvæmt tekjuspánni eru mjög að vaxa á næsta ári umfram það sem þær hafa vaxið á sl. fjórum árum. Ef ég man rétt þá spáir fjárlagafrv. því að tekjur ríkisins á næsta ári vaxi um eitthvað á sjötta milljarð kr. Á undanförnum fjórum árum hafa tekjur ríkissjóðs aðeins vaxið um rúmlega 2 milljarða kr. á ári þannig að af þessu má sjá að tekjuforsendur fjárlagafrv. eru nú til muna betri heldur en þær hafa verið. Og hver er ástæðan fyrir því? Ástæðan fyrir því er sú að þrátt fyrir allt tókst síðustu ríkisstjórn að skila þokkalegu búi eftir alla þá erfiðleika sem hún varð að takast á við. Einmitt þess vegna getur það gerst nú að tekjurnar geta vaxið svo mikið eða um það bil tvöfalt meira heldur en var í forsendum fjárlagafrv. sl. fjögurra ára. Þetta er í fyrsta lagi það sem einkennir þetta fjárlagafrv., að tekjuspáin fyrir næsta ár er mun jákvæðari fyrir ríkissjóð heldur en hún hefur verið sl. fjögur ár.

[17:45]

Í öðru lagi er það einkennandi fyrir þetta fjárlagafrv. að ekki er gjaldamegin tekist á við meginvanda í ríkisfjármálunum, sem er rekstur ríkisstofnana. Það er ekki gert ráð fyrir því í þessu fjárlagafrv. að á næsta ári verði náð umtalsverðum árangri til þess að draga úr rekstrarkostnaði ríkisins þrátt fyrir öll stór orð hæstv. fjmrh. frá liðnum árum um að þetta væri meginviðfangsefnið og meginvandinn í ríkisfjármálum. Það er sagt einhvers staðar í grg. frv. að því sé frestað um eitt ár að takast á við þetta viðfangsefni og það megi ekki vænta tillagna um þann þátt ríkisfjármála fyrr en í fyrsta lagi á árinu 1997. Þetta er atriði númer tvö sem auðkennir þetta fjárlagafrv. Það er ekki tekist á við rekstrarvanda ríkisins í þessu frv.

Það þriðja sem einkennir þetta frv. er sá mikli niðurskurður á verklegum framkvæmdum sem frv. gerir ráð fyrir. Ég veit alveg í hvaða tilgangi sú tillaga er gerð. Sú tillaga er gerð í þeim tilgangi að búa til pakka sem á síðan að selja verkalýðshreyfingunni þegar hún hefur viðræður við ríkisstjórn í framhaldi af þeim atburðum sem orðið hafa nú upp á síðkastið og þeirri óánægju sem orðið hefur í landinu með takmarkaðar aðgerðir ríkisstjórnarinnar til atvinnusköpunar. Þrátt fyrir að það séu mörg gagnrýnisverð atriði í fjárlagafrv. þá var þetta fyrsta atriðið sem forseti Alþýðusambands Íslands gagnrýndi. Hann gagnrýndi ekki þann mikla niðurskurð sem á sér stað í tilfærslum í tryggingakerfinu og í heilbrigðiskerfinu, hann gagnrýndi hinn mikla niðurskurð í verklegum framkvæmdum og hann byggði þá gagnrýni sína á því að þar með væru menn að draga saman í atvinnulífinu en ekki auka framboð starfa. Það má alveg lesa í það mál og ég þekki líka af langri og ágætri samvinnu við ýmsa þá sem nú sitja í þessari ríkisstjórn og þá má alveg geta í eyðurnar. Það sem menn ætla sér að gera er einfaldlega að þessum niðurskurði verklegra framkvæmda upp á um það bil 2 milljarða kr. sem er í þessu frv. á að skila til baka í viðræðum við verkalýðshreyfinguna, það á að nota þennan málamyndaniðurskurð til þess að bjóða sem dúsu fyrir verkalýðshreyfinguna í þeim viðræðum sem fram undan eru. Og hvað stendur þá eftir af niðurskurðinum gjaldamegin í frv.? Þá stendur bara eitt eftir. Það er sá niðurskurður sem þar er boðaður í tilfærslum, þ.e. í tryggingakerfinu og í heilbrigðiskerfinu. Það sem er því einkennandi fyrir þetta frv. er að menn fá þarna mikinn tekjuauka, menn takast ekki á við rekstrarvanda ríkisins og eini niðurskurðurinn sem eftir mun standa í þessu frv. eru þær aðgerðir sem hæstv. heilbrrh. verður að taka á sig.

Það er líka ýmislegt athyglisvert sem kemur í ljós ef skoðað er það sem segir í fjárlagafrv. um tekjumálin. Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir því í frv. að tryggingagjald fyrirtækja verði hækkað um 0,5% án þess að tryggingagjaldið sé samræmt, en það er vitað að einmitt það atriði er nú til meðferðar hjá Eftirlitsstofnun EFTA eftir að kæra barst þangað um að með stefnu sinni í skattamálum, hvað þennan skatt verðar, þ.e. tryggingagjaldið, væru íslensk stjórnvöld að mismuna atvinnuvegum. Ég tel að það liggi alveg beint við og sé næstum því óhjákvæmilegt að Eftirlitsstofnun EFTA muni fella þann úrskurð að þetta sé ekki heimilt, þessi mismunun sé ekki heimil, samkvæmt þeim samningum sem Íslendingar hafa gerst aðilar að. Þannig að fyrirætlanir hæstv. ríkisstjórnar um að hækka tryggingagjald fyrirtækja um 0,5% án þess að samræma gjaldið í leiðinni munu ekki ganga upp, þessi forsenda fjárlagafrv. mun ekki standast.

Þá er mjög athyglisvert að skoða það sem kemur fram á bls. 274 og 275 í frv. Þar kemur í ljós að megintekjustofn ríkisins sem er virðisaukaskattur, þær auknu tekjur sem af honum hafa orðið og munu verða á næsta ári stafa svo til allar af auknum innflutningi en ekki af aukinni tekjumyndun af innlendri starfsemi, sem nánast hefur staðið í stað. Þegar menn horfa á þetta, hvernig dettur mönnum þá í hug, eins og ríkisstjórnin lætur sér um munn fara, að þess sé að vænta að innlendir fjárfestar í einkageiranum muni fjárfesta í atvinnulífinu til móts og vel það við þann niðurskurð á framlögum til fjárfestinga sem ríkissjóður boðar með þessu fjárlagafrv.? Þetta er auðvitað algerlega út í hött vegna þess að það kemur fram í spá um tekjur af virðisaukaskatti að það er ekki gert ráð fyrir auknum virðisaukaskatti af innlendri starfsemi á árinu 1996 sem neinu nemur. Það er nánast sama tala, þó heldur lægri en var á fjárlögum árið 1995. Þannig að meginuppistaða tekjuaukningarinnar af virðisaukaskatti stafar af virðisaukaskatti af innflutningi. Með öðrum orðum, innflutningurinn er að stóraukast og hættan sem af því stafar er að sjálfsögðu sú að þeim markmiðum sem þó hafa náðst í efnahagsstjórnun undanfarin ár, þ.e. að dregið var úr miklum halla á viðskiptajöfnuði og Íslendingar fóru að greiða niður skuldir sínar erlendis, sé stefnt í voða með stórauknum innflutningi eins og spáð er.

Þá er líka athyglisvert að skoða það sem fram kemur á bls. 271, að þar er gert ráð fyrir því að skattleysismörkin verði ekki hækkuð um sem nemur verðþróun í landinu og þannig verður sóttur sá kjarabati til launafólks sem fékkst vegna þess að inngjöld til lífeyrissjóða verða undanþegin skatti. Fólk er látið borga það með lækkun skattleysismarka þannig að skattborgararnir sjálfir standa undir þeim byrðum sem af því hljótast fyrir ríkissjóð, sem kannski eðlilegt má telja, en ég vil vekja athygli á þessu.

Ég hef rætt hér nokkuð um tekjuhlið frv. og ætla ekki að fara lengra út í þá sálma. Um gjaldahliðina hef ég einnig rætt nú þegar að verulegu leyti, þ.e. að sá niðurskurður útgjalda sem þar er boðaður mun í reynd fyrst og fremst verða á útgjöldum vegna heilbrigðis- og tryggingamála. En áður en ég skil við tekjukafla fjárlaganna þá vil ég aðeins leggja áherslu á að það náist til framkvæmda sem boðað er í frv., að endurskoða skattalög með tilliti til þeirra háu jaðarskatta sem eru orðnir á Íslandi. Ég vildi gjarnan spyrja fjmrh. að því, ef hann hefur upplýsingar um það, hvort Íslendingar séu ekki að verða komnir í toppsætið í Evrópu hvað varðar upphæð jaðarskatta, ekki síst ef menn líta til tengingar skattkerfisins og bótakerfis trygginga, því þar veit ég að eru dæmi um að jaðarskattar nemi 100%. Það er að segja að fyrir hverja eina krónu sem eldra fólk og öryrkjar á tilteknu tekjubili hafa í tekjur skerðast bætur þeirra um jafnháa fjárhæð og veit ég ekki dæmi til þess nokkurs staðar annars staðar að jaðarskattlagning nái 100%.

Ég tek sem sé mjög undir það sem kemur í fjárlagafrv. um ætlun ríkisstjórnarinnar að endurskoða jaðarskattana, en vildi beina þeim tilmælum til hæstv. heilbrrh. og hæstv. forsrh. að það yrði gert þannig að skattkerfið og lífeyrissjóðakerfið verði skoðað saman þannig að það gerðist ekki sem nú á sér stað að jaðarskattaígildið í lífeyrissjóðakerfinu gæti verið 100% fyrir tiltekna hópa. Og ég verð að segja það eins og það er, virðulegi forseti, að afskipti verkalýðshreyfingarinnar af skerðingarkerfinu í lífeyrissjóðs- og bótagreiðslum hafa ekki verið til góðs vegna þess að menn hafa ekki áttað sig á að skoða áhrifin þar af skattkerfinu eins og það virkar þannig að jaðarskattarnir eða jaðarskattaígildið í lífeyriskerfi landsmanna er orðið mjög alvarlegt, orðið mjög hátt, mjög ójafnt og kemur verst við þá sem hafa lægstar tekjurnar. Þetta eru hlutir sem ég veit að hæstv. fjmrh. þekkir, m.a. áhrif þessarar skattlagningar á tekjur þeirra sem njóta sérstakra heimildabóta, en sérstakra heimildabóta njóta aðeins þeir elli- og örorkulífeyrisþegar sem hafa engar aðrar tekjur en tryggingabætur. Afskipti verkalýðshreyfingarinnar af þessum kerfum hafa leitt til þess, ef skattkerfið og tryggingakerfið eru skoðuð saman, að þetta fólk greiðir 100% jaðarskatta og það er sjálfsagt ekki það sem fyrir mönnum hefur vakað.

Aðeins örfá orð um launaþáttinn sem kemur fram í frv. Ég furða mig á því að í þeirri umræðu sem orðið hefur um launamál í landinu þá hafa menn ekki skoðað og ekki verið greint frá því sem segir í þessu fjárlagafrv. um þá launaþróun sem orðið hefur hjá þeim aðilum sem ríkið hefur samið við. Og það sýnir ekki mikinn áhuga hjá fjölmiðlum eða mikinn vilja til að kynna sér mál að það skuli hafa verið þagað um þær upplýsingar sem koma fram bæði á bls. 259 í fjárlagafrv. og aftur á bls. 285. Þar segir m.a., með leyfi forseta: ,,Talið er að heildarlaunakostnaður í skólakerfinu vegna samninga ríkisins við kennara hækki um tæplega 20%.`` Með öðrum orðum, samningurinn sem ríkisvaldið gerði við kennara jók launakostnaðinn, sem er ígildi launahækkunar, um 20%.

Þá er rætt um það hér að samið hafi verið við ýmsar hjúkrunarstéttir um heldur meiri launabreytingar en gert var ráð fyrir. Með þessum orðum, heldur meiri launabreytingar en gert var ráð fyrir, eru menn að tala um launahækkanir á bilinu 15--19%?

Þá segir hér líka um þriðja hópinn, sem eru ýmis aðildarfélög ASÍ. Þar hafði ríkið gengið inn í samninga sem gerðir hafa verið á hinum frjálsa vinnumarkaði, svo sem eins og við Sókn, Iðju og Einingu. Við getum bætt við Rafiðnaðarsambandinu. Þar var líka gengið inn í samninga sem aðilar vinnumarkaðarins höfðu gert og þessir samningar hafa falið í sér launahækkun um eða kringum 20%.

[18:00]

Á bls. 285 er sagt að samningar ríkisins við félög innan ASÍ hafi hækkað laun félagsmanna þeirra um tæplega 15% að meðaltali. Og nú spyr ég: Getur ríkið gert svona samninga við aðildarfélög ASÍ án þess að forustumenn ASÍ viti af því? Auðvitað ekki. Hvernig í ósköpunum stendur þá á því að þeir vakna fyrst til vitundar um að það sé eitthvað annað að gerast í kjaramálum heldur en þeir hafi óskað eftir þegar Kjaradómur fellir kjaradóm um rétt innan við 10% kauphækkun til æðstu embættismanna. Hvernig stendur á því? Það má segja að skýringin geti verið sú að þarna hafi bara verið reynt að færa laun t.d. rafiðnaðarmanna sem starfa á vegum hins opinbera til samræmis við laun rafiðnaðarmanna á hinum almenna markaði. En hvað var sagt þegar Kjaradómur ætlaði að gera þetta sama fyrir alþingismenn og ráðherra árið 1992 og útifundir voru haldnir hér á Austurvelli til þess að mótmæla því að kjarasamningar þessara hópa ríkisstarfsmanna yrðu færðir til samræmis við það sem borgað væri á hinum almenna markaði? Urðu ekki viðbrögð bæði ríkisstjórnar og Alþingis eftir þær áskoranir verkalýðshreyfingarinnar þau að fallast á að þetta væri ekki eðlilegt og að fella kjaradóminn úr gildi? Nú hafa menn verið að gera nákvæmlega þetta sama gagnvart félögum innan ASÍ og fjmrh. upplýsir það hér að með þessu hafi menn verið að hækka kaup um og yfir 20%. Og þá segir enginn neitt. Hvaða samhengi er nú í þessum málflutningi? Ég minni enn á þá kröfu sem kom fram á útifundi á Ingólfstorgi um að Alþingi setti lög til að koma í veg fyrir að hækkanir yrðu meiri en það sem almennir launamenn hefðu fengið, 2.500 til 3.700 kr. á mann. Og ég vildi spyrja þá sem stóðu fyrir þeim fundi: Hvað eruð þið að biðja um? Eruð þið að biðja um að Alþingi setji almenn launalög þar sem sagt verði: Allir þeir samningar, þar á meðal samningar við ykkar félagsmenn, sem gerðir hafa verið um allt að 20% kauphækkun skuli felldir úr gildi og ákveðið með lögum að enginn sem þiggur kaup sitt samkvæmt þessum samningum skuli fá meira en 2.500 til 3.700 kr. á mánuði og sama skuli gilda um þá sem enn eiga ósamið. Eruð þið að biðja um þetta? Eða eruð þið bara að biðja um það að Alþingi setji lög um að alþingismenn og ráðherrar skuli ekki fá meiri kauphækkun en hitt standi? Það er mjög eðlilegt að svona sé spurt. Það hefur ekki verið gert og því leyfi ég mér að gera það hér og vænti þess að fá einhver svör við því. Því ég vænti þess, virðulegi forseti, að menn séu ekki svo tvöfaldir í roðinu að segja að þessir samningar eigi að gilda fyrir alla en svo séu sumir og þar á meðal þeirra eigin félagsmenn að því leytinu til jafnari en aðrir að það sé allt í lagi þó þeir fái tífalda hækkun en hún megi bara ekki ganga til stjórnmálamanna.

Það sem segir um heilbr.- og trmrn. væri full ástæða til að ræða nokkuð hér í þessum umræðum en ég ætla að spara mér það. En ég ítreka það sem ég sagði hér áðan að mér sýnist satt að segja að eins og frá frv. er gengið þá sé nánast eini niðurskurðurinn sá sem heilbr.- og trmrh. þarf að bera. Sá niðurskurður sem henni er ætlað að bera er mjög alvarlegur og mjög sársaukafullur og hreint ekki í samræmi við þann málflutning sem hv. framsóknarmenn hafa haft hér uppi sl. fjögur ár.

Hæstv. iðnrh., Finnur Ingólfsson, sagði t.d. á fyrsta þingi síðustu ríkisstjórnar að Framsfl. hafi alltaf lagt áherslu á að hlífa þeim sjúku, öryrkjum og gamalmennum með því að auka ekki álögurnar á þann hóp. Er það það sem þeir eru ekki að gera núna? Hæstv. iðnrh. sagði við sama tækifæri, með leyfi forseta: ,,Ég ætla að nefna hér eitt sláandi dæmi. 48 ára gamall karlmaður, þriggja barna faðir, sem hefur verið óvinnufær síðan í júlí 1992 hefur í sjúkradagpeninga á mánuði 28.560 kr. Hann þarf að greiða vegna blóðfitulyfja sem breyting varð á við síðustu reglugerð 8.400 kr. á mánuði. Önnur lyf sem hann þarf að hafa vegna ýmissa kvilla kosta 4.900 kr. Hann þarf að heimsækja sérfræðing tvisvar í mánuði, það kostar 4.300 kr. Til viðbótar þessu hafa útgjöld hans vegna breytinga á tannlækningum aukist um 2.300 kr. á mánuði. Þessi maður hefur 8.860 kr. til að lifa af með þrjú börn. Hann þarf að fara í aðgerð hjá sérfræðingi í maí og það mun kosta 8.150 kr., kostaði áður 3.000 kr. Ég spyr hæstv. ráðherra: Telur hann það nauðsynlegt að grípa til frekari aðgerða gagnvart þessum manni?`` Hvað hefur Framsfl. gert fyrir þennan mann? Hvað er Framsfl. að gera núna? Er hann að draga úr þessum kostnaði sjúklinganna? Nei, hann er að auka þá. Hann er að gera ráð fyrir að þeir borgi fullu verði aðgerðir innan eða utan spítala og þar að auki innlagnargjald á spítölum.

Það er víðar hægt að bera niður, virðulegi forseti. Það er t.d. mjög athyglisvert hér þar sem hv. þm. Guðmundur Bjarnason sagði á 118. þingi í umræðum um fjárlög: ,,Hvar er forgangsröðun ríkisstjórnarinnar? Er það kannski rétt hjá mér sem ég tel mig hafa séð í greinargerðinni að það ætti að afnema sjálfvirkar hækkanir á bótagreiðslum? Það þýðir sem sagt að lífeyrisþegar þessa lands geti ekki lengur átt það nokkuð öruggt að bætur hins opinbera til þeirra fylgi því sem gerist á hinum almenna markaði. Fylgi því sem gerist í kjarasamningum og þeirri þróun sem að öðru leyti kann að vera í þjóðfélaginu og þeir hafa getað reitt sig nokkuð á að undanförnu.`` Svo mótmælti hv. þm. þessu fyrir hönd Framsfl. Hvað er Framsfl. að gera núna? Nákvæmlega þetta.

Mig langar enn að vitna í orð hæstv. heilbrrh. frá umræðum utan dagskrár 24. febr. 1993. Þar var verið að ræða um svokölluð ferliverk, þ.e. reglugerð sem ég hafði sett um svokölluð ferliverk, en það eru verk sem að mestu leyti eru unnin á sjúkrastofum sérfræðinga hér í Reykjavík og krefjast ekki innlagnar og er greitt fyrir en var ekki greitt fyrir ef viðkomandi lagðist inn á sjúkrahús. Ég setti reglugerð um þessi verk sem kölluð voru ferliverk og jafnframt leiðbeinandi lista sem ég sendi til sjúkrahúsanna um það hvaða verk bæri að skilgreina sem ferliverk án þess að gefa sjúkrahúsunum fyrirmæli um að innheimta samkvæmt þessu. Þau gátu ráðið því sjálf. Þeim var sendur leiðbeinandi listi. Sum þeirra gerðu það en önnur ekki. Hv. þm. sagði orðrétt, með leyfi forseta:

,,Það er meira að segja svo langt gengið að á meðan hjúkrunarfræðingur svæfir sjúklinginn er læknirinn jafnvel að reikna út hvað hann fær mikið fyrir þetta ferliverk. En það vill svo til að það eru margir læknar sem hafa svo mikla andstyggð á þessari reglugerð að þeir nýta hana ekki.``

Hvað er nú hæstv. ráðherra að segja við þá lækna sem hafa svo mikla andstyggð á þessu að þeir vilja ekki nýta sér þetta. Hann er að fyrirskipa sjúkrahúsunum öllum að taka þetta upp. Líka þeim sem ekki hafa viljað gera það. Vegna þess að hæstv. ráðherra gerir ráð fyrir því í sértekjuáætlun sinni í frv., ef ég skil það rétt, að gefa sjúkrahúsunum fyrirmæli um að það eigi að innheimta þessi ferliverk með nákvæmlega sama hætti og gert er hjá læknum sem reka lækningsstofur sínar út í bæ. Menn eru nú heldur betur komnir í mótsögn við sjálfa sig. En svona til frekari áréttingar þá skilst mér, þótt það sé ekki alveg ljóst í fjárlagafrv., að það eigi bæði að innheimta þessi ferliverk á sjúkrahúsum og innritunargjald. Þ.e. að menn séu ekki með innritunargjaldinu að fella niður innheimtu ferliverkanna heldur eigi að innheimta hvort tveggja. Ég vildi gjarna spyrja hæstv. heilbrrh. hvort það er réttur skilningur. Hvort það er gert ráð fyrir því að innheimta innritunargjald af öllum sem leggjast inn á spítala og þar að auki að innheimta ferliverkagjald af þeim sem fara inn á spítala til aðgerða af því tagi sem undir ferliverk falla. Og hvort það getur virkilega verið að einn og sami sjúklingurinn sem leggst inn á spítala til einhverra aðgerða sem ekki telst vera ferliverk en í leiðinni er gerð aðgerð á honum sem telst vera ferliverk. Á hann þá að borga tvöfalt? Á hann að borga bæði innlagnargjaldið og ferliverkið?

Ég vil líka spyrja hæstv. ráðherra að því hvaða rök eru fyrir því sem kemur fram í greinargerðinni að það eigi allt í einu að fara að taka gjald fyrir svokallaðar endurtengingar. Ófrjósemisaðgerðir eru veittar ókeypis en endurtengingaraðgerðir, ef svo ber undir, á að borga fyrir. Hver rök eru fyrir því að tvískipta þessu með þessum hætti? Hvað á gjaldið fyrir endurtengingarnar að vera hátt? Hvað reiknar hæstv. ráðherra með að endurtengingin kosti? Það er nokkuð athyglisvert að um leið og á að taka gjald fyrir endurtengingar þá á að taka gjald fyrir sjónpróf. Mér er spurn hvort það sé eitthvert samhengi þar á milli eða hvort sú gjaldtaka eigi að fara fram í einu lagi eða tvennu lagi og hvort menn fá afslátt af gjaldtökunni ef hvort tveggja gæti nú komið fyrir í einu.

Að lokum vil ég aðeins benda á það að með þeim framkvæmdum sem verið er að gera á glasafrjóvgunardeildinni er m.a. verið að gera það fært að frysta fósturvísa. Það þýðir að endurteknar þungunaraðgerðir, þ.e. umfram þá fyrstu, kosta nú mun minna fé en áður vegna þess að það er hægt að geyma fósturvísana frá fyrstu meðferð til annarrar og þriðju meðferðar. Og konan sem gengst undir meðferðina þarf ekki að fara í gegnum allar þær lyfjagjafir og tilheyrandi sem í dag þarf til þess að endurtaka aðgerðir. Þannig að önnur og þriðja aðgerð, ef kalla má meðferðina það, verður eftirleiðis miklu ódýrari fyrir alla aðila heldur en í dag. Það er því mjög eðlilegt, það segir sig bara sjálft, að kostnaður hjóna sem þurfa að fara í endurteknar glasafrjóvgunaraðgerðir hlýtur að lækka vegna þess að kostnaðurinn við meðferðina verður svo miklu minni eftir að frysting fósturvísa hefur verið tekin upp. Hver er þá ástæðan fyrir því, virðulegi forseti, að það er gert ráð fyrir að meira en tvöfalda gjaldtöku vegna glasafrjóvgunar eða úr 21 millj. kr., eins og er í dag upp í 45 millj. eins og gert er ráð fyrir í fjárlagafrv.? Það þýðir einfaldlega að það er gert ráð fyrir þeirri framkvæmd að aðgerðir vegna glasafrjóvgunar verði að mestu leyti bornar af hjónunum sjálfum sem þurfa á meðferðinni að halda en í sáralitlum tilvikum af hinu opinbera. Er það forgangsröðin sem menn eru að tala um?

[18:15]

Ég er sammála hæstv. heilbrrh. um að það er löngu orðið rétt og nauðsynlegt að taka upp forgangsröðun í framkvæmdum í heilbrigðismálum. En ég held að þjóðin geti aldrei tekið upp forgangsröð í þjónustu því að með því að ræða forgangsröð í heilbrigðisþjónustu eru menn ekki bara að tala um hverjir eigi að fá fljótari meðferð en aðrir og öruggari og skjótari, heldur hverjir ekki eigi að fá þær aðgerðir sem til boða standa. Forgangsröðun í löndunum í kringum okkur hefur þýtt ákvörðun um það t.d. að það séu ekki gerðar opnar brjóstholsaðgerðir á körlum eða konum yfir 65 ára aldur. Það hefur t.d. þýtt það að ekki eru gerðar mjaðmaskiptaaðgerðir eða hnjáliðaaðgerðir á fólki yfir sjötugt. Við Íslendingar eigum eina forgangsröðun í heilbrigðiskerfinu til samkvæmt lögum og hún er sú að að það er ekki heimilt að veita ókeypis læknisþjónustu á Íslandi þeim sem ekki eru sjúkratryggðir hér á landi. Þetta er eina forgangsröðunin í lögum sem ég man eftir í svipinn. Það er ekki heimilt að veita ókeypis læknisþjónustu þeim sem ekki eru sjúkratryggðir á Íslandi. En þessa forgangsröðun hafa Íslendingar ekki getað virt. Það eru fjölmörg dæmi um að við höfum veitt fólki ókeypis læknismeðhöndlun, meira að segja mjög dýra læknismeðhöndlun, sem ekki hefur notið sjúkratrygginga á Íslandi. Sú þjóð sem ekki getur virt þessa einföldu forgangsröðun, hvernig í ósköpunum halda menn að hún geti tekið ákvörðun eins og þá að ekki skuli gera opna brjóstholsaðgerð á fólki yfir sextugu, ekki skuli gera mjaðmaskiptaaðgerð á fólki yfir sjötugu o.s.frv., vegna þess að staðreyndin er einfaldlega sú að fólk er afskaplega ólíkt og einstaklingur sem er orðinn 70 ára gamall getur átt mörg ár eftir af sínu lífi og getur verið það frískur og hress að hann þoli vel að gangast undir erfiða aðgerð og sú aðgerð geti auðgað síðustu æviár hans meira en flesta grunar. Ég vara mjög við því að menn reyni að leggja út á þessa braut en er hins vegar sammála hæstv. heilbrrh. um að það er nauðsynlegt að forgangsraða í framkvæmd í heilbrigðismálum og hefði betur verið tekið á því máli fyrir 10--15 árum.

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara frekar út í fjárlagafrv. nú, en ítreka það að ég vil ekki veitast neitt sérstaklega að hæstv. heilbrrh. fyrir þau verk sem hún þarf að vinna í þessu frv. Þau eru mjög erfið, ég geri mér það fyllilega ljóst. Ég vil aðeins segja við hana, hæstv. ráðherra: Mér sýnist alveg áreitnislaust og af fullri sanngirni að það eina sem standi eftir af aðgerðunum á gjaldahlið þessa frv. þegar hæstv. forsrh. verður búinn að selja verkalýðshreyfingunni allan framkvæmdaniðurskurðinn til að friðmælast við hana, þá sé niðurskurðurinn, sem þér, hæstv. heilbrrh., er ætlað að gera nánast það eina sem eftir standi.