Fjárlög 1996

Þriðjudaginn 17. október 1995, kl. 18:19:33 (367)

1995-10-17 18:19:33# 120. lþ. 13.7 fundur 1. mál: #A fjárlög 1996# frv., heilbrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það voru nokkrar spurningar sem hv. þm. beindi að mér og ég vildi gjarnan fá að svara. Hann talaði um vissan sjúkling sem væri 48 ára gamall og hvað við ætluðum að gera fyrir hann. Við höfum þegar lækkað lyfjaverð til hans og við munum sérstaklega taka tillit til öryrkja og þeirra sem minna mega sín fjárhagslega þegar við erum að skoða þessi innritunargjöld.

Varðandi ferliverkin sem hv. þm. minntist hér á og hans reglugerð var svohljóðandi, að sjúklingur gat legið á sjúkrahúsi og sérfræðingur gat tekið allt að 18 þús. kr. fyrir aðgerð á honum. Ég tel mjög óeðlilegt að sérfræðingur sem er í fullu starfi á sjúkrastofnun geti líka verið verktaki og þessu vil ég breyta. Mér finnst eðlilegra að sjúklingur borgi eina lága upphæð og hún renni þá til sjúkrahússins heldur en til sérfræðinganna sem þar vinna. Það er hugsunin með þessari breytingu.

Hann spurði sérstaklega um svokallaðar endurtengingar og ég vil gjarna fá að svara því. Fólk sem tekið hefur þá ákvörðun að fara í ófrjósemisaðgerð sem samfélagið borgar að sjálfsögðu fyrir, tekur síðar þá ákvörðun að láta endurtengja sig. Það er mjög flókin aðgerð. Það er líkt og og taka tvær makkarónustangir og reyna að sauma þær saman. Mér finnst ekki óeðlilegt að aðili sem tekur slíka ákvörðun greiði eitthvað fyrir aðgerðina. Hvað hún kostar kann ég ekki að segja til um hér á þessari stundu, en mér finnst ekki óeðlilegt að hann greiði eitthvað fyrir aðgerðina.

Varðandi sjónprófin vil ég segja það að Tryggingastofnunin borgar 250 kr. fyrir þau. Sjúklingurinn borgar að mig minnir 1.500 kr. Sem betur fer þarf sjúklingur ekki oft að fara í sjónpróf og mér finnst ekki taka því að senda þennan reikning til Tryggingastofnunar kannski á 5 ára fresti.

Það er þegar búið að slá í bjölluna og ég vil segja bara eitt orð varðandi glasafrjóvgunina. Það er ekki búið að taka ákvörðun um hvað gjaldtakan verður há. Hv. þm. minntist á að önnur aðgerð væri ódýrari, hún kann að vera ódýrari. En ég vil líka minna á það að nú eru komin lyf sem einstaka aðilar þurfa að taka inn vegna ófjósemisaðgerða sem kosta allt upp í hálfa milljón kr. skammturinn.