Fjárlög 1996

Þriðjudaginn 17. október 1995, kl. 18:22:57 (368)

1995-10-17 18:22:57# 120. lþ. 13.7 fundur 1. mál: #A fjárlög 1996# frv., SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Í fyrsta lagi: Lyfjaverð hefur lækkað vegna áhrifa reglugerðar um svokallað viðmiðunarverð sem hæstv. ráðherra setti og hafði verið í undirbúningi í eitt og hálft ár. Þannig að ef einhver á heiðurinn af því að lyfjaverð hafi verið lækkað, þá eru það þeir sem undirbjuggu þá reglugerð þó að þeir hafi ekki náð að segja hana. En það er einn hængur á því og hann er sá að ef sjúklingurinn getur ekki nýtt sér ódýrasta samheitalyfið í lyfjaskránni, þá verður hann sjálfur að borga mismuninn. Þannig að það er ekkert víst að þessi 48 ára gamli maður sem hæstv. ráðherra talaði um hafi uppskorið lægra verð en hann þurfti að greiða fyrir. Því að hann verður að borga allan mismuninn ef hann getur ekki nýtt sér lægsta samheitaverðið.

Í öðru lagi, ferliverk. Ég veit ekki betur en í fjárlagafrv. sé gert ráð fyrir því að ferliverk verði innheimt á öllum sjúkrastofnunum samkvæmt reglugerðinni. Ég hef að vísu ekki fengið það staðfest af hæstv. ráðherra, en ég veit ekki betur en svo sé. Ég er hins vegar alveg sammála ráðherranum um að það er ekki æskilegt fyrirkomulag að einn og sami maðurinn sé bæði starfsmaður á launum hjá sjúkrahúsi og starfi þar líka að einkarekstri. En það er ekki boðað í fjárlagafrv. að því verði neitt breytt. Það eina sem boðað er er það að innheimt verði fyrir ferliverkin á öllum spítalastofnunum með sama hætti og gerist utan þeirra. Þannig að ég vona að hæstv. ráðherra takist á við þann vanda. Sérfræðingar eru víða að störfum fyrir ríkið og hafa tekjur sínar víða að, en hann hefði gjarnan, hæstv. ráðherra, mátt boða það í frv. að það væri ætlunin.