Fjárlög 1996

Þriðjudaginn 17. október 1995, kl. 18:27:59 (371)

1995-10-17 18:27:59# 120. lþ. 13.7 fundur 1. mál: #A fjárlög 1996# frv., GGuðbj
[prenta uppsett í dálka]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á að segja frá því hvernig þessi bók virkar á mig sem nýjan þingmann. Ég verð að segja það að fyrir utan innihaldið þá er uppsetningin á henni að mörgu leyti fremur óaðgengileg þannig að ég hef bent fulltrúum frá ráðuneytinu á það. Víða eru t.d. töflur aftast sem hjálpa manni að breyta verðlagi til núgildandi árs o.s.frv. en hvergi eru neðanmálsgreinar sem vísa fram og til baka í frv. þannig að ég held að það væri ágætis ábending til fjmrh. að reyna að gera þessa bók aðgengilegri fyrir almenning til þess að skilja.

Ég vil byrja á því að taka undir það meginmarkmið þessara fjárlaga að það sé mjög mikilvægt að reyna að ná niður hallanum á ríkissjóði. Ég efa þó mjög að þeim takist að taka þetta stóra skref sem hér er stefnt að, bæði vegna þess að skrefið er stórt og einnig vegna þess að undanfarin ár hefur hinn raunverulegi halli ávallt farið fram úr því sem til stóð. T.d. var árið 1992 áætlað að hallinn yrði 3,7 milljarðar, en reyndist 10,6. Síðasta ár átti hann að vera 6,5 milljarðar en stefnir í 8--9.

[18:30]

En þó að markmiðið að ná niður halla ríkissjóðs sé gott, þá eru leiðirnar sem farnar eru að mínu mati bæði forkastanlegar og í raun hættulegar. Forkastanlegar vegna þess að það er staðfest með þessu frv. að efnahagsbatinn sem hér hefur orðið, aðallega vegna veiðanna í Barentshafi, og hefur skilað sér í auknum útflutningstekjum, aukinni veltu og auknum hagvexti, á ekki að fara til þeirra sem minnst bera úr býtum. Gert er ráð fyrir óbreyttum kjarasamningum þó að ýmsar blikur séu reyndar á lofti um að sú forsenda muni standa. Enda ekki skrýtið því að á yfirborðinu er rekin sú launastefna að þeir lægst launuðu fái mestar hækkanir en í raun bendir margt til að þveröfug launastefna sé í gangi þar sem þeir hærra launuðu fá meira. Þó að ljóst sé að verulega hefur verið þrengt að millitekjuhópunum í þessu þjóðfélagi, fólkinu sem er að koma sér upp þaki yfir höfuðið og er með lítil börn, er þó forkastanlegast að þeir sem búa við allra kröppustu kjörin, þ.e. atvinnuleysið, og þeir sem lifa af ellilífeyrisbótum eða örorkubótum eiga enn að herða sultarólarnar. Það á að skerða flestar tegundir bóta með því að aftengja þær frá launavísitölu og því er ekki gert ráð fyrir hækkun bóta eins og hækkun launa á næsta ári.

Þá er sérstaklega ámælisvert að það eigi að fresta greiðslum á bótum til þolenda afbrota um eitt ár og það eigi að hækka aldursviðmiðanir vegna afslátta á lyfjakaupum úr 67 í 70 ár þó að vissulega sé rétt að huga að því að hér í landinu er að myndast tiltölulega stór hópur vel stæðs fólks sem kominn er á efri ár. Það er fólk sem flaut ofan á á verðbólgutímanum og hefur tiltölulega mikið af peningum og auðvitað er ástæða til að þetta fólk greiði til samfélagsins eins og aðrir. Þetta fólk kom sér upp húsnæði á góðum tíma og það greiddi námslán sín á góðum tíma og það þarf að huga að því að það greiði til samfélagsins eins og aðrir. Ég er þeirrar skoðunar að núna sé mikilvægara að huga að því að létta skattbyrðinni af ungu fólki, þeim sem eru að koma sér upp húsnæði, greiða af námslánunum sínum og ala upp börnin sín. Ég held að það fólk sé verulega aðþrengt nú til dags.

Það er einmitt megingallinn á frv. að það skortir í því framtíðarsýn og því er alls ekki ljóst að þær niðurskurðaráætlanir sem hér eru munu standast og hvort þær munu leiða til nokkurs varanlegs sparnaðar í ríkisútgjöldum. Það er t.d. ekki nóg að ætla sér að spara í heilbrigðiskerfinu ef ekki er jafnframt reynt að huga að því að beina peningum í fyrirbyggjandi starf því að annars heldur fólk áfram að veikjast og það með sama tilkostnaði og áður. Það verður einhvern veginn að reyna að brjóta upp þetta kerfi og það er því miður ekki verið að gera það hér. Það sama á við í sambandi við slys. Ég get ekki séð neitt sem sé sérstaklega fyrirbyggjandi að því leyti en það getur vel verið að þetta sé allt á einhverjum leyndum liðum.

Það sama á við um búvörusamninginn. Nú stendur til að gera búvörusamning við bændur til fimm ára án þess að tryggt sé að staða sauðfjárbænda verði nokkuð betri en nú eftir fimm ár. Það er ekki hægt, hæstv. fjmrh., að sætta sig við endalausar bráðabirgðalausnir án skýrrar framtíðarsýnar. Þetta er fyrsta frv. þessarar ríkisstjórnar og ég hefði gjarnan viljað sjá svolítið háleit markmið og að hverju er stefnt þó að vissulega sé það markmið gott að koma ríkishallanum niður.

Það atriði sem ég vil þó sérstaklega gera að umræðuefni í þessari tölu minni eins og hv. þm. Kristín Halldórsdóttir boðaði í ræðu sinni í þessari umferð er umfjöllun um menntamálin. Því miður verð ég að segja að í menntamálunum bólar ekki á þeim krafti sem kosningabaráttan gaf okkur vonir um. Vissulega er rétt að það er dálítil aukning framlags til menntamála og hún er hlutfallslega mest í menntamálum miðað við hin ráðuneytin en þessi aukning skýrist fyrst og fremst af því að á sl. ári var lögbundnum kennslustundum í grunnskólum fækkað. Nú er verið að reyna að borga til baka þá fækkun og einnig á að fjölga viðmiðunarstundum vegna nýsamþykktra grunnskólalaga og einnig koma kjarasamningar kennara þarna inn.

Auðvitað er mjög mikilvægt að vel sé staðið að fjárveitingum til grunnskólans núna þegar stendur til að flytja rekstur grunnskólans yfir til sveitarfélaganna og alger nauðsyn að skapa ekki tortryggni með því að hafa þessar fjárveitingar lágar þannig að ég skil mjög vel og fagna því að það skuli vera aukið fjármagn til grunnskólans. Samt sem áður get ég ekki séð að þarna sé neitt fjármagn t.d. til þess að taka mið af því hvað það kostar að einsetja grunnskólann.

Fyrir utan fjárveitingar til grunnskólans er alls ekki margt sem menntmrh. og þessi ríkisstjórn getur státað sig af. Vil ég þar nefna nokkur dæmi. Fyrst vil ég nefna Háskóla Íslands sem enn einu sinni virðist eiga að reka undir hungurmörkum þannig að há innritunargjöld verða nauðsynlegur hluti af rekstrarkostnaði skólans. Eðlilegra væri að ríkisstjórnin hefði manndóm í sér eða kjark til að viðurkenna þá staðreynd að þetta eru skólagjöld og kalla það skólagjöld og setja lög um slíkt. Hækkunin til háskólans nemur 14,7 millj. kr. og þá er ég að ekki tala um á verðlagi sömu ára heldur bara krónutölu frá því í fyrra og aðalskýringin er laun tveggja prófessora á tilraunastöðinni á Keldum. Á móti er gerð krafa um hagræðingu og það mun að auki ekki vera nægjanlegt fé þarna til þess að taka mið af nýsettum kjarasamningi háskólakennara. Það hlýtur auðvitað að fást leiðrétt, ég ætla ekki hæstv. fjmrh. það að geta ekki staðið við gerða samninga. En það bólar ekkert á fjárveitingum til þess að efla framhaldsnám við háskólann og er ekki hægt að sjá mikinn stuðning nema síður sé til rannsóknarstarfsemi. Framlag í rannsóknarnámssjóð, sem styrkir efnilega námsmenn til framhaldsnáms við háskólann, er skert úr 25 millj. í 20 og framlag í nýsköpunarsjóð námsmanna er einnig skorið niður úr 15 millj. í 10 millj. Framlag í vísindasjóð Rannsóknarráðs er skorið niður úr 25 millj. í 15 millj. Þetta er verulegt áhyggjuefni, virðulegi hæstv. fjmrh. vegna þess að þetta sýnir að ekki er verið að fjárfesta í mannauði og nýsköpun sem hljóta þó að vera helstu vaxtarbroddar framtíðarinnar.

Þá vil ég geta þess að 5 millj. kr. eru ætlaðar til að undirbúa uppeldisháskóla og til að gera úttekt á háskólastiginu. Þessum lið fagna ég innilega því að skýr stefnumörkun sem byggir á staðreyndum þessa skólastigs er mjög knýjandi. En upphafið sýnir að ekki á að ráðast í nein stórvirki á þessu sviði á næsta ári en þessi liður gefur þó von um að markviss vinna sé að fara í gang og því fagna ég.

Ef við lítum til framhaldsskólans er ljóst að hann á að sæta skerðingum á næsta ári. M.a. er áætluð um 3% fækkun á áætluðum kennslustundum. Þá er framlag til Lánasjóðs ísl. námsmanna skorið niður, enda eru lánin sem boðið er upp á orðin það dýr að nemendur standa frammi fyrir því vali að taka námslán eða að koma sér upp húsnæði yfir höfuðið á lífsleiðinni, ég er ekki að ætlast til að þeir geti gert það samtímis. Slíkt getur auðvitað ekki gengið til lengdar og þetta jaðrar að mínu mati við mannréttindabrot og því hljótum við að beita okkur hér þinginu fyrir breyttum reglum um Lánasjóð ísl. námsmanna en þessi lækkun til LÍN er réttlætt með því að það sé ekki meiri eftirspurn eftir lánsfé.

Ef vísað er til fleiri þátta sem heyra undir menntmrn. vil ég sérstaklega nefna að framlag til Kvikmyndasjóðs er skorið niður. Það er ekki staðið við þau framlög sem eru í gildandi lögum og mér finnst það vera dálítið kaldar kveðjur til kvikmyndagerðarmanna okkar sem hafa verið að gera garðinn frægan úti um öll lönd og hafa staðið sig mjög vel. Mér finnst mjög miður að á svo merkum tímamótum sem þessi listgrein er á skuli ekki vera hægt að standa við lögbundin fjárframlög.

Virðulegi forseti. Ég hef gert að umtalsefni fjárlagafrv. sem fyrir liggur fyrir árið 1996, fyrsta fjárlagafrv. þessarar hæstv. ríkisstjórnar Sjálfstfl. og Framsfl. Markmiðið er gott, að ná niður hallanum á ríkissjóði, en leiðirnar eru vondar og væntanlega að verulegu leyti óraunhæfar. Ég nefndi í upphafi að leiðirnar væru ekki bara forkastanlegar heldur einnig hættulegar. Í því sambandi vil ég sérstaklega nefna að verulega er sorfið að þeim sem minnst mega sín í þjóðfélaginu með ófyrirséðum afleiðingum, að ekki bólar á neinum aðgerðum til að létta ungu fólki með börn róðurinn nema þeim sem eru allra verst settir, samaber aukinn barnabótaauka, sem ég fagna, en þetta mun skila sér í minni neyslu og minni tekjum af virðisaukaskatti og hafa mannskemmandi áhrif á uppvaxandi kynslóð. T.d. á að skerða mæðra- og feðralaun um 40% eða 125 millj. Hættulegast af öllu er þó að verið er að skerpa andstæðurnar milli ríkra og fátækra í þessu frv. með tilheyrandi viðbrögðum og reiði meðal þeirra lægst settu.

Umræður í þjóðfélaginu um launahæstu menn ríkisins og tekjur alþingismanna sýna hve mikil reiði kraumar undir og tel ég alls ekki ólíklegt að samningum verði sagt upp og allar forsendur þessa frv. kollvarpist. Þetta er óskynsamleg stefna og hlýtur að kalla á sterk viðbrögð jafnaðarmanna í landinu.

Að lokum tek ég fram að á einum stað sá ég minnst á jafnrétti kvenna og karla í þessu frv. og það var þar sem var verið að fella niður ekkjulífeyri til þeirra kvenna sem verða ekkjur eftir 1. janúar 1996. Réttlætingin er sú að það sé verið að jafna niður á við og ná jafnrétti á milli ekkna og ekkla með því að afnema bætur ekkna. Það stendur ekki á því að afnema forréttindi kvenna á þeim örfáu stöðum þar sem þau tíðkast þó að ljóst sé að fullorðnar ekkjur í dag hafa oft verulega minni möguleika en ekklar til þess að afla sér tekna á vinnumarkaði. Það bólar ekki neitt á því að það eigi að stokka upp í launakerfi ríkisins eða draga úr launamisrétti kynjanna. Þetta er frv. sem mun ýta undir atvinnuleysi og meiri ójöfnuð. Þetta er vont frv. sem verður að breyta en þetta er frv. hæstv. ríkisstjórnar, hægri flokkanna í landinu. Því miður njóta þessir flokkar mikils kjörfylgis og því má búast við að stjórnin geti komið þessari stefnu í gegn, knúið þetta frv. í gegnum hið háa Alþingi. Þetta frv. sannfærir mig betur en margt annað um nauðsyn þess að jafnaðar- og kvenfrelsissinnar taki saman höndum og hnekki veldi þessarar ríkisstjórnar.