Fjárlög 1996

Þriðjudaginn 17. október 1995, kl. 18:51:57 (375)

1995-10-17 18:51:57# 120. lþ. 13.7 fundur 1. mál: #A fjárlög 1996# frv., RG
[prenta uppsett í dálka]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég hef af því áhyggjur hvaða stefna birtist í þessum fjárlögum. Ég hef af því áhyggjur hvað sparnaðaraðgerðirnar bitna á erfiðum sviðum og hvernig höggvið er í kjör þeirra er síst skyldi og þeirra sem við reyndum að verja í samstarfi við Sjálfstfl. á síðasta kjörtímabili. Mér finnst að það séu ótrúlega erfiðar aðgerðir sem gripið er til miðað við það að þegar maður fer yfir fjárlagafrv. eru að miklu leyti settar inn óbreyttar fjárhæðir á útgjöldin í mörgum málaflokkum.

Þegar ég tala um ótrúlega erfiðar aðgerðir ætla ég að nefna t.d. að dregið er úr framlögum til fatlaðra, bætur almannatrygginga og Atvinnuleysistryggingasjóðs verða ekki lengur tengdar við kjarasamningana og það er mat ASÍ að þetta minnki greiðslur ríkisins til þessara aðila um 700 millj. kr. Það er líka mat þeirra að óbreyttur persónuafsláttur gefi ríkissjóði einn milljarð á næsta ári miðað við að hann hefði hækkað með tilliti til þróunar en að tekjutapið vegna frádráttar á 2% lífeyrissjóðsiðgjöldin verði hins vegar eingöngu 600 millj. kr. Mig undrar að á tíma batnandi hags sé gripið til slíkra aðgerða og úrræða sem bitna á þessum hópum.

Ég ætla aðeins að leyfa mér, virðulegi forseti, að fara örfáum orðum um tekjurnar. Þær aukast um 4,8% sem mér skilst að þýði um 5,5 milljarða, 4,8% á meðan við vorum á undanförnum árum eingöngu með 2,5% tekjuaukningu á ári að rembast við það sem maður vildi reyna að kalla réttlátar aðhaldsaðgerðir, nógu voru þær erfiðar samt. Ég tel að við séum á margan hátt með þessum tekjum, með þessari aukningu upp á 4,8%, að uppskera árangur undangenginna ára, sérstaklega þegar litið er til þess hagvaxtar sem er að verða núna annað árið í röð. En mér finnst að í raun og veru hafi ríkisstjórnin ekki þurft að taka verulega á og hún hafi freistast til að fara inn í þennan sama útgjaldapakka sem baráttan hefur verið um aftur og aftur.

Ég vil hins vegar segja að ég styð að sjálfsögðu, þó að ég sé í stjórnarandstöðu áfram, að leitast verði við að vera með stöðugleika og vaxtalækkun og hafa það að leiðarljósi en ég bendi á það sem kom fram í Vísbendingu að þar er sett spurning á forsíðu hvort við séum að fara inn í verðbólgu og það væri áhugavert að heyra viðbrögð fjmrh. við því í örfáum orðum.

Til viðbótar því að tekjurnar aukast um 5,5 milljarða nemur að mati ASÍ --- svo að ég vitni aftur til þeirra sem hafa gert sérstaka úttekt á þessu --- lækkun framkvæmdafjár bæði til viðhalds og stofnframkvæmda um 3 milljörðum. Þá getum við í raun og veru sagt að 8,5 milljarðar hafi verið til ráðstöfunar í tilfærslur til þess að létta álagið sem þarna er verið að bregðast við. Ég tek að sjálfsögðu eftir því að það er haldið áfram með hátekjuskattinn og það styð ég og ég vil líka lýsa því yfir úr þessum ræðustól að ég styð hugmyndirnar um að minnka tekjutengingu hjá ungu barnafólki vegna þess að ég held að allir flokkar hafi verið sammála um það fyrir kosningar að þar þyrfti að taka á og ungt fjölskyldufólk væri að bera allt of þungar byrðar miðað við aðra hópa. Að sjálfsögðu mun skipta máli hvernig útfærsla þessara mála verður, hæstv. fjmrh., og ég minni enn og aftur á það hvað það skiptir miklu máli að útfærslur á slíkum aðgerðum séu skýrar svo oft sem það hefur komið fyrir að takmarkaðir útreikningar hafa birst um efnahags- og viðskiptamál, í skattamálum, varðandi vaxtabætur og annað. Eftir á hafa menn kannski séð að aðgerðin sem slík var allt önnur en útlit var fyrir.

Auðvitað get ég ekki talað um tekjuhlið öðruvísi en minna á fjármagnstekjuskattinn en ég ætla ekki að flytja langa ræðu þannig að ég ætla eingöngu að segja að það hefur verið sjónarmið flokks míns að byrja ekki með fjármagnstekjutengingu á öldruðum eða inni í Tryggingastofnun meðan ekki er búið að útfæra fjármagnstekjuskattinn á tekjuhópana og fólkið með fjármagnseignir og þar með fjármagnstekjur í þjóðfélaginu. Auðvitað er búið að margskoða hvar réttlætið liggi þar og það er auðvelt að segja að það sé ekki eðlilegt að einhverjir, sem hafa milljónir í fjármagnstekjur, fái ýmislegt það sem fátækt launafólk er kannski með skerðingu út af. En það er mjög erfitt að taka upp slíkt prinsippmál fyrst í Tryggingastofnun ríkisins og ég ætla að láta það nægja um þetta mál.

Ég get ekki stillt mig um það, virðulegi forseti, að fá að lesa upp nokkrar setningar af blaði sem er fyrir framan mig:

,,...þær staðreyndir sem blasa við mörgum heimila í landinu, þar sem þúsundir fjölskyldna eru að verða gjaldþrota, þá er bara því þannig komið því miður að það blasir við neyðarástand á mörgum heimilum í landinu og það neyðarástand mun skapa margvísleg félagsleg vandamál. Það mun leggja auknar byrðar á félagsmálastofnanir, það mun auka örvæntingu einstaklinganna og það mun skapa sár í þjóðfélaginu sem seint munu gróa.

Á flokksþingi framsóknarmanna var skuldastaða heimilanna eitt stærsta umfjöllunarefni þingsins og þar er tvennt sem við viljum leggja til í núverandi stöðu.

Þríhliða samningur um lífskjarajöfnun felur það í sér að við þurfum að ganga strax til kjarasamninga ríkisvalds og aðila vinnumarkaðarins. Við framsóknarmenn erum tilbúnir að beita okkur fyrir því að hægt sé að setja 3 milljarða til að ná slíkum samningum.`` Svo fylgja nánari útfærslur á því hvernig þær skulu fjármagnaðar, hvernig þær skulu nýttar. Til þess að geta tekist á við þann mikla vanda sem er að leysa upp heimilin í landinu þarf að breyta Húsnæðisstofnun ríkisins í endurreisnar- og ráðgjafarmiðstöð. --- ,,Það erum við framsóknarmenn tilbúnir til að gera. 1983 var flotinn stopp. Þá komum við til valda í sjútvrn. og bárum ábyrgð á því að koma flotanum af stað. Nú eru heimilin strand og framsóknarmenn eru tilbúnir til þess að koma heimilunum aftur á flot.``

Virðulegi forseti. Ég þarf ekki að lesa meira en ég má til að koma með tvær, þrjár setningar frá hæstv. félmrh. frá því í desember 1994 og þær eru þessar:

,,Ástandið í þessum málum er gersamlega óviðunandi. Það er útilokað að ljúka þingi í vetur öðruvísi en að ganga frá þessum málum. Skuldasöfnun heimilanna hefur náttúrlega á valdatíma núv. ríkisstjórnar orðið mjög alvarlegt vandamál. Þessi ríkisstjórn hefur verið að færa til þjóðarauðinn.``

[19:00]

Ég ætla ekki að lesa meira þó það væri fróðlegt að lesa upp af þessum tveimur síðum. En ég ætla að nefna það, virðulegi forseti, að í fjárlagafrv. er lagt til að setja upp væntanlega byrjun á endurreisnarstöð heimilanna og til þess eru veittar 12,5 millj. kr. Félagar mínir hafa komið inn í þessa fjárlagaumræðu og mér finnst fullkomlega ástæðulaust að ég ræði nákvæmlega sömu mál og þeir þó ég hefði haft áhuga á að tjá mig um ýmislegt en ég ætla að koma örlítið inn á þann málaflokk sem mér hefur verið hugstæður og ég ætla ekki að krefjast þess að félmrh. mæti á þennan fund til að hlýða á mál mitt enda hef ég ekki átt mjög málefnalega viðræðu við hann úr þessum ræðustóli.

Eitt af því sem að gerist í tengslum við að það hafa orðið stjórnarskipti og skiptir stóru máli fyrir fatlaða og öryrkja er að afnumin eru svokölluð bílalán Tryggingastofnunar til fatlaðra og öryrkja. Þetta er afar stórt mál og því var harðlega mótmælt af öllum hagsmunasamtökum fatlaðra sem létu í ljós miklar áhyggjur yfir því hvernig mál væru að þróast. Petrína Baldursdóttir og Guðrún Helgadóttir gerðu svofellda bókun í tryggingaráði, virðulegi forseti:

,,Við greiðum atkvæði á móti tillögunni um afnám bílakaupalána til hreyfihamlaðra. Við teljum engin veigamikil rök hafa komið fram er réttlæti afnám þessara lána. Við teljum ljóst að lán Tryggingastofnunar ríkisins til bílakaupa eru veitt á betri kjörum en almennt gengur og gerist og afgreiðsla þeirra er öruggari. Það er ljóst að ávallt er mikil eftirspurn eftir þessum lánum þrátt fyrir aukið aðgengi að öðrum lánum og meiri samkeppni ríki á fjármagnsmarkaðnum. Það hefur verið þrengt að hag fatlaðs fólks. Við teljum að lengra verði ekki gengið í að skerða rétt þeirra og kjör og að réttara hefði verið fyrir nýkjörið tryggingaráð að beita sér fyrir því að gæta hags þessara skjólstæðinga sinna heldur en að beita sér fyrir því að skerða hag þeirra sem við teljum m.a. felast í þessum bílalánum.``

Á sama tíma og þetta er að gerast er jafnframt viðmiðun við laun afnumin af bótum Tryggingastofnunar ríkisins og Atvinnuleysistryggingasjóðs og aftur er það mat ASÍ sem að hefur farið ofan í þessi mál að þar sé um nokkur hundruð millj. að ræða, allt að 700 millj. kr. í minnkuðum útgjöldum ríkisins. Á sama tíma á að vera aukin gjaldtaka og ég hef talið að miðað við frv. sé nokkuð óvisst um framkvæmdina og hvort þessum hópi verði í einhverju hlíft. Um leið og ég gekk hér í húsið af fundi sem ég var á þá heyrði ég heilbrrh. segja frá því, hafi ég skilið hana rétt, að það verði settar reglur þar um og ég treysti því að þannig verði það.

Einn er sá sjóður sem skipt hefur mjög miklu máli í því sem ég vil kalla jafnrétti þegnanna og snýr að fötluðum og það er Framkvæmdasjóður fatlaðra. Það var gert heiðursmannasamkomulag að taka inn í sjóðinn framlög til rekstrar í trausti þess að sjóðurinn yrði ekki skertur. Að erfðafjárskattur rynni í sjóðinn óskertur auk þess sem framlög kæmu frá ríkinu. Það hefur verið sjónarmið aðila samtaka fatlaðra að þetta heiðursmannasamkomulag hafi legið fyrir og þetta var tekið fyrir á þeirra samráðsfundi áður en þeir féllust á það í góðu samkomulagi að taka ákveðna þætti inn til rekstrar. Ef framlög til liðveislu, viðhalds, aðgengismála og stuðningsfjölskyldna, sem er mjög stórt mál fyrir fjölskyldur mikið fatlaðra barna, yrðu óbreytt frá fyrra ári þá er talið að 100 millj. kr. mundu dragast frá því sem eru hefðbundin verkefni Framkvæmdasjóðs fatlaðra. Erfðafjárskatturinn er áætlaður 390 millj. kr. á næsta ári, framkvæmdasjóðurinn fær 237 auk hefðbundins framlags vegna fyrri fimm ára áætlunar varðandi sérstaka uppbyggingu fyrir geðfatlaða upp á 25 millj. kr.

Ég veit að því hefur verið haldið fram að sala á Sólborgu á Akureyri til menntamálaráðuneytisins þýði að 80 millj. kr. komi aukalega inn í þennan þátt en ég vil vekja athygli á því ef búið er að taka framlög úr Framkvæmdasjóði fatlaðra á liðnum árum til þess að byggja upp og framkvæma fyrir þannig að unnt sé skrifa út af Sólborgu er náttúrlega bara búið að flytja til þjónustu af Sólborgu út á sambýlin og þá vantar uppbyggingu umfram Sólborgu í framhaldinu. Þess vegna er ekki hægt að líta á svo á að þessar 80 millj. eigi eingöngu að fara í greiðslur aftur í tímann eins og mér skilst að sé svar fjmrh. varðandi þetta mál. Ég vil líka nefna það að eftir því sem ég hef fengið upplýst eru skuldbindingar sjóðsins vegna 1996 um 160 millj. og þar af 20 millj. í viðhald á byggingum. Það er mjög mikilvægt vegna þess að á erfiðum tímum verður að vera ákveðið flæði þarna á milli þátta í þágu fatlaðra en það er líka afar mikilvægt að það sem til þess er ætlað standist.

Bent hefur verið á aukningu í málaflokknum og er þá vísað til þess að það er verið að flytja stöðugildi, sem að hafa verið undir heilbrigðisráðuneytinu, yfir í félagsmálageirann. Þau stöðugildi tilheyrðu Kópavogshælinu, sem er þjónustustofnun sem hefur sinnt fötluðum, og þetta er vegna mjög góðra áforma um útskriftir af Kópavogshæli sem hefur verið baráttumál undangenginna ára. Ekki er hægt að segja að verið sé að auka málaflokk fatlaðra þegar stöðugildi, sem þjónuðu fötluðum í heilbrigðisgeiranum, eru tekin af því þetta var heimili þeirra sem þar bjuggu og þeir flytjast á önnur heimili með starfsmönnum sem flytjast þarna frá. Ég hafna því að þarna sé hægt að tala um aukningu.

Ég vil líka geta þess, virðulegi forseti, að sá sparnaður sem dómsmrn. hefur gripið til er fullkomlega óásættanlegur, þ.e. að fresta því að bótagreiðslur verði inntar af hendi til þolenda kynferðislegs ofbeldis. Ég get þess hér úr þessum ræðustóli að þetta er eitt af þeim málum sem ég var stolt af hjá fyrrv. ríkisstjórn. Þetta var eitt af þeim umbótamálum sem ég nefndi þegar ég fór á fundi og talaði um árangur, afrakstur og sjónarmið sem hefðu komið fram og verið hrint í framkvæmd af þessari ríkisstjórn. Mér finnst það sárt að þessu máli verði frestað og ég vona og treysti að ríkisstjórninni snúist hugur. Ég þekki dæmi um unga manneskju sem er algjör öryrki til lífstíðar vegna ofbeldisverka og fjölskylda gerandans er ekki og mun ekki verða borgunarmenn fyrir því sem þarna hefur gerst. Þetta fólk hefur vænst og hefur litið fram til að þessar bótagreiðslur verði inntar af hendi.

Ég fagna því að heilbrrh. er hér. Hv. þm. Sighvatur Björgvinsson fjallaði um heilbrigðismál og þess vegna ætla ég ekki að koma mikið inn á þau þó ég hefði haft áhuga á því að fá aðeins umfjöllum um lyfjaútgjöldin en ég mun hiklaust ræða það við flokksbróður minn sem hefur rætt um þau mál þar sem ég var ekki í salnum þegar það kom fram og kynna mér það. En það eru mál sem ég hef miklar áhyggjur af í mínu kjördæmi og það er D-álman í Keflavík og það eru málefni heilsugæslustöðva. Ég ætla ekkert að fara í djúpa umræðu um frestun framkvæmda. Ég ætla að reyna eins og unnt er að vera ekki að éta upp umræður sem þegar hafa farið fram en ég er á þeirri skoðun að forgangsröðun þýði að einhver mál séu svo brýn að þau njóti forgangs umfram það sem annars væri en ekki að forgangsröðun þýði að það eigi að flokka niður í að einhverjir eigi að fá ekkert. Þetta gildir bæði um viðhorf mín varðandi forgangsröðun í heilbrigðisþjónustu og öllum sviðum. Ég hef af því áhyggjur hvernig haldið hefur verið á málum varðandi D-álmuna í Keflavík og vegna þess að bæði ég og heilbrrh. vorum á sama fundi hjá Sambandi sveitafélaga á Suðurnesjum þar sem að menn tóku því mjög illa að þar voru ekki komnar fram einhverjar upplýsingar vil ég gjarnan heyra hvar það mál stendur núna. Þar sem heilsugæslustöðvar eru ekki sundurliðaðar hef ég áhuga á að heyra hvort einnig er búið að hafna öllum áformum um uppbyggingu og endurbætur þar sem verst er ástatt um heilsugæslustöðvar. Mér er engin launung á því og segi að það hér að ég hef litið svo á að ef röðin er komin að einhverri heilsugæslustöð að fá úrbætur þá er það heilsugæslustöð Kópavogs.

Það á að skerða Atvinnuleysistryggingarsjóðinn um 300 millj. en að vísu kemur nú einhvers staðar fram að heildarfjárhæðin aukist. Ég er ekkert neikvæð gagnvart því að þarna fari fram endurskoðun og félmn. hefur fengið formann þeirrar nefndar sem er að skoða sjóðinn á sinn fund og hann hefur farið lauslega yfir það hvert stefnir án þess að þar komi neitt fram enn þá um það hvernig verði tekið á málum. Mér finnst afar gott að það er sérstök fjárveiting fyrir ungt fólk í atvinnuleit en ég hef þann fyrirvara að það er ekki þar með sagt að ég verði hrifin af því hvernig það verður útfært. Ég hef haft þá skoðun að enginn eigi að vera óvirkur á bótum. Ef fólk á ekki því láni að fagna að vera á vinnumarkaði þá á fólk að vera í námi, endurmenntun, á námskeiðum, í einhverju markvissu og vera gildir þegnar þessa þjóðfélags. Á þetta lagði ég áherslu við hæstv. fjmrh. á síðasta ári og við ræddum hversu mikilvægt það væri að innan þessa sjóðs yrði sérstakt fjármagn eyrnamerkt til fræðslu fyrir atvinnulausa. Það er erfitt að sjá hvernig þeim málum er skipað og þess vegna spyr ég fjmrh. núna: Eru eyrnamerktir fjármunir í Atvinnuleysistryggingasjóði til námskeiðahalds og verður framhald á því að sérstakt fjármagn verði veitt til aukinna fræðslunámskeiða eins og gert var út af samningi við aðila vinnumarkaðarins í upphafi þessa árs?

Þrátt fyrir að félmrh. hæstv. er ekki í þessum sal og ég hef ekki kallað eftir honum þá ætla ég að nefna örfá atriði sem lúta að Húsnæðisstofnun og endurtaka upplýsingar sem ég kom með í andsvari við formann Framsfl. í fyrri umræðu. Í fyrra var samanlagt fjármagn til útlána í húsbréfum og lánum Byggingarsjóðs ríkisins og Byggingarsjóðs verkamanna 17 milljarðar og 930 millj. Núna er samanlagt fjármagn til útlána í húsbréfum og lánum Byggingarsjóðs ríkisins og Byggingarsjóðs verkamanna 17 milljarðar og 387 millj. Það vantar á sjötta hundrað millj. upp á til að halda sömu fjárhæðum. Þrátt fyrir þetta á að hækka lánshlutfall til fyrstu kaupa upp í 70%, um 5%, og hefur það þegar verið gert. Þegar ég var að skoða þau mál var talið að það þyrfti 700--800 millj. aukalega vegna slíkrar aðgerðar. Ég tek það fram að þessa aðgerð studdi ég og styð. Það er líka talið og félmrh. hefur sagt að fólk sem að óbreyttu hefði sóst eftir íbúð í félagslega kerfinu fari nú yfir í húsbréfakerfið af því að það að fá 70% lán í húsbréfakerfinu verði nægjanlegt til að þeir sem hefðu þurft íbúð í félagslega kerfinu fari og kaupi sér íbúð á frjálsum markaði.

Samt sem áður er ekki aukið við fjármagnið í húsbréfunum þrátt fyrir að það eigi að draga stórlega úr fjármagni til félagslegra íbúða. Það á að breyta lánum til endurbóta, það á að lækka viðmiðin þannig að fleiri fái og þá þarf meira fé. Ég vona að hæstv. heilbrrh. taki þessar athugasemdir mínar niður fyrir fjmrh. hafi hann upplýsingar um þessi mál.

Með þeim þremur atriðum sem ég hef talið upp er greinilega gert ráð fyrir aukinni ásókn en samt er sett fram minna fjármagn. Hvergi sést fjármagnið sem koma átti til hjálpar nauðstöddum heimilinum. Endurreisnar- og leiðbeiningarstöðin fær 12,5 millj. og væntanlega þannig að hægt sé að ráða einhverja einstaklinga þar til starfa sem er líka gott mál. Með þeirri samvinnu, sem var búið að koma á laggirnar við aðila vinnumarkaðarins, alla þá sem eru í ráðgjafarhlutverki, hefði ég talið að það hefði verið hægt að hrinda þeirri samvinnu á einhvern frekari hátt í framkvæmd á vettvangi ráðgjafarstöðvar Húsnæðisstofnunar en þarna á að koma einhver ný stöð sem ég skil ekki alveg hvernig er. Ég kalla á Framsfl., hvernig þau geti horft hvert framan í annað meðan þau hafi ekki gert neitt í fjárlagafrv. aukalega til að stuðla að því að það verði til ný störf í landinu. Það hefur komið fram að það urðu til yfir 2.000 störf á sl. ári. Það hefur komið fram að það var í pípunum að það yrði með þeim hagvexti sem fram undan var og við höfum bent á það aftur og aftur en þeir töldu þjóðinni trú um að það ætti að búa til ný störf af því að enginn vill vera atvinnulaus. Og auðvitað styð ég markmið um hallalaus fjárlög og að safna ekki skuldum og verjast vaxtahækkun en ég kalla á Framsfl., hvernig horfast þau í augu hvert við annað? (Gripið fram í: Yfirleitt bara.) Yfirleitt, með þessi fjárlög. Við skulum þá bara athuga það að ég er að kalla eftir viðbrögðum Framsfl. vegna eigin loforða. Ég er ekki að segja að ég hefði viljað gera endilega það sem þau buðu. Ég fór ekki fram með þessi loforð sjálf í kosningabaráttunni. Ég er kalla eftir hvernig þau ætla að standa að þessu.

Virðulegi forseti. Ég ætla að láta mér nægja þessa yfirferð og þessar athugasemdir við fjárlögin. Það er of margt óljóst í framsetningunni og ég þekki það af reynslunni að það er margt sem að á eftir að breytast á milli 1. og 2. umr. og þess vegna mun ég kynna mér mjög vel hvernig útskýringar koma á ýmsum þeim þáttum sem ég hef gert athugasemdir við og koma því tvíefldari við 2. umr.