Fjárlög 1996

Þriðjudaginn 17. október 1995, kl. 20:43:17 (377)

1995-10-17 20:43:17# 120. lþ. 13.7 fundur 1. mál: #A fjárlög 1996# frv., RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. heilbrrh. fyrir svörin við spurningum mínum en minni á að þar var ein spurning breiðust og hún var hvernig framsóknarmenn afbæru að horfa hver framan í annan út af þeim miklu kosningaloforðum sem færð voru fram í vor og litlar efndir sjást á.

Vegna orða ráðherrans í upphafi um vextina og að vaxtalækkun sé mesta og besta lausnin fyrir heimili í landinu, þá vil ég endurtaka það að ég hef lýst stuðningi við það markmið að viðhalda stöðugleika og afstýra vaxtahækkun. Aftur á móti greinir okkur á um hvar sé í lagi að höggva og af því að það var bent á einhvern skuldahala sem væri verið að hengja á Alþfl. sem ég get í engu svarað um á þessari stundu, þá vil ég bara segja það, að Framsfl. er með forgang á fé og þá er ég að meina loðið fé. Ég vil veita fólki meiri forgang. Þetta er m.a. spurning um það hvernig maður nýtir fjármagn.

Út af fyrirspurnum mínum varðandi Kópavog og Keflavík og það er ekki oft sem ég hef borið upp beinar spurningar varðandi eitthvað í mínu kjördæmi, þá er það svo að það er viðhorf fleiri þingmanna í Reykjanesi en mitt að það sé þrengst um starfsemi heilsugæslunnar í Kópavogi og Keflavík. Og ég er út af fyrir sig ánægð að heyra það að ráðherrann gerir sér grein fyrir því að það er þröngt um víða í Reykjanesi og það er reyndar í mörgum málaflokkum vegna þess að staðreyndin er sú að þéttbýlið hefur mjög oft setið á hakanum gagnvart dreifbýlinu í mörgum tilfellum og mörgum málaflokkum og við erum að súpa seyðið af því núna.

Að lokum, virðulegi forseti, hvað varðar framkvæmdir til m.a. atvinnuuppbyggingar, þá eru margar framkvæmdir í heilbrigðisþjónustunni sem ekki kalla á nýjan rekstur.