Fjárlög 1996

Þriðjudaginn 17. október 1995, kl. 21:00:32 (389)

1995-10-17 21:00:32# 120. lþ. 13.7 fundur 1. mál: #A fjárlög 1996# frv., BH
[prenta uppsett í dálka]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Herra forseti. Það er komið að því að við sjáum vísi að efndum stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Sjálfstfl. og Framsfl. Nú hefur ríkisstjórnin lagt fram frv. til fjárlaga og þar kennir margra grasa eins og fram hefur komið í umræðunni. Ég vil taka það fram, virðulegi forseti, að það mætti reyndar halda að hæstv. heilbrrh. væri til svara fyrir alla hina hæstv. ráðherrana. Ég er hreinlega alveg hætt að botna upp né niður í þessu. Þarna kemur hæstv. fjmrh. í salinn og ég fagna því. (Fjmrh.: Ég hef verið hérna í allt kvöld.) Það er ánægjulegt að heyra að hann hefur verið hér, ég ætlaði nú að biðja forseta um að kalla eftir fjmrh. en það er gott að heyra að hann hefur hér verið að hlusta.

Það getur verið fróðlegt í tengslum við þessa umræðu að líta aðeins yfir stjórnarsáttmála hv. ríkisstjórnar áður en farið er yfir sjálft fjárlagafrv. Ég vil biðja um leyfi forseta til að lesa upp úr stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar en þar segir m.a.:

,,Með myndun ríkisstjórnar Framsfl. og Sjálfstfl. hefst ný framfarasókn þjóðarinnar. Undirstöður velferðar verða treystar og sköpuð skilyrði fyrir bættri afkomu heimilanna í landinu.``

Og skömmu síðar, með leyfi forseta: ,,Framtak einstaklinganna verði virkjað í þágu aukinnar verðmætasköpunar. Á þann hátt verður stuðlað að hagsæld, félagslegum umbótum og afkomuöryggi. Vegur menntunar og rannsókna verður aukinn en það er forsenda nýsköpunar í atvinnulífinu.`` Enn er komið að menntun og gildi hennar síðar í stjórnarsáttmálanum þar sem segir, með leyfi forseta: ,,Nýsköpunarsjóður námsmanna verður studdur og þátttaka námsmanna í rannsóknarstarfi verður aukinn.`` Svo mörg voru þau orð um gildi menntunar og í þennan búning voru loforð stjórnarflokkanna fyrir kosningar klædd í stjórnarsáttmálanum. Einkum voru loforð framsóknarmanna fýsileg fyrir námsmenn og eflaust hafa margir þeirra greitt þeim flokki atkvæði sitt en þeir námsmenn sem það gerðu sitja nú líklega eftir með sárt ennið og sjá það svart á hvítu að flokkurinn ætlar sér ekki einu sinni að reyna að beita sér fyrir því að efna loforð sín. Það kveður því miður ekki við sama tón gagnvart námsmönnum í fjárlagafrv. og glumdi í eyrum þeirra fyrir kosningar. Þaðan af síður er fjarri lagi að þeir sem eiga rétt á greiðslum úr almannatryggingakerfinu og atvinnuleysisbótakerfinu upplifi sömu föðurlegu umhyggjuna og byggt var á fyrir kosningar og sem enn er ítrekuð í stjórnarsáttmálanum þegar þetta fólk með berum augum sá áformin um afnám allra sjálfvirkra tenginga í almannatryggingakerfinu og atvinnuleysisbótakerfinu. Þeir þolendur ofbeldis sem eiga lögum samkvæmt rétt á því að ríkið ábyrgist bótagreiðslur til þeirra eru líklega ekki fullir þakklætis í garð ríkisstjórnarinnar fyrir að ætla að hrifsa af þeim réttarbæturnar sem þeir hafa nýverið fengið. Réttaróvissan er alger hjá því fólki sem hefur farið út í kostnaðarsaman málarekstur í trausti þess að ríkið muni ábyrgjast bótagreiðslurnar þegar að þar að kemur. Hér er um ómetanlegt tjón að ræða fyrir þetta fólk en sparnaður ríkissjóðs er að mínu mati í hlutfalli við það tiltölulega lítill. Hér er um að ræða hóp sem að hefur orðið fyrir gífurlegum áföllum og hefur mikla þörf fyrir uppbyggingu og þær bætur sem því hafa verið dæmdar. Það er nefnilega þannig í raunveruleikanum að nú eru í gangi þó nokkur fjöldi dómsmála sem hafa beinlínis verið höfðuð á grundvelli þessara réttarbóta og við getum verið viss um það að í mörgum tilfellum er greiðslugeta brotamannsins mjög óviss og í mörgum tilvikum algerlega útilokuð. Hvað ætlar ríkisstjórnin að gera til að bæta þessu fólki það fjárhagslega tjón sem það verður fyrir sökum þessa hringlandaháttar í þeirra helgustu málum? Það væri gaman að heyra svör við því. Ég hef að minnsta kosti ekki heyrt þau enn.

En skoðum frv. svolítið betur. Samkvæmt helstu markmiðum þess segir að á gjaldahliðinni sé megináherslan lögð á að halda aukningu útgjalda í skefjum. Í þessu skyni er dregið úr sjálfvirkni í vexti útgjalda einkum á sviði heilbrigðis- og tryggingamála. Hvað þýðir þetta nákvæmlega? Jú, á mannamáli heitir þetta það að sjálfvirkar tengingar í almannatryggingakerfinu og atvinnuleysisbótakerfinu við almenna kjarasamninga í landinu eru afnumdar. Í gildandi lögum um almannatryggingar segir að hækka skuli tryggingabætur í samræmi við kjarasamninga verkafólks og í lögum um Atvinnuleysistryggingasjóð er tenging við kjarasamninga fiskverkafólks. Um leið og þessir þættir eru aftengdir á að falla frá þeirri hækkun sem yrði með almennum launahækkunum um næstu áramót en samkvæmt henni ætti að hækka að því að mér skilst bætur almannatrygginga um 3,5% og atvinnuleysisbætur um 5,4%. Bæði almanna- og atvinnuleysistryggingar eru komnar til fyrir baráttu verkalýðshreyfingarinnar í landinu og þær síðarnefndu voru beinlínis tilkomnar sem ákvæði í kjarasamningi við lausn á sex vikna verkfalli árið 1955. Beintenging við kjarasamninga var alltaf talin eðlileg enda hafa samtök launafólks beinlínis litið svo á að þau væru líka að semja fyrir þetta fólk. Til marks um það má sjá fjölda úrbóta í almannatrygginga- og félagslega kerfinu almennt sem hafa beinlínis komið inn í gegnum kjarasamninga. Það er með öllu óviðunandi að þeir sem minna mega sín í þessu þjóðfélagi þurfi að vera upp á náð og miskunn stjórnvalda komnir með það hvort þeir fái leiðréttingar á kjörum sínum. Í fjárlagafrv. segir að þarna sé verið að gera breytingar að sjálfstæðri ákvörðun stjórnvalda hverju sinni líkt og tíðkast annars staðar. Nú hef ég ekki kynnt mér það hvernig það er annars staðar í þessum efnum en það virðist ljóst að ríkisstjórnin ætlar sér að minnsta kosti ekki að hækka bæturnar heldur ætlar hún að spara með þessum aðgerðum. Og hún ætlar að spara á kostnað þeirra sem síst mega við því.

Þá er það menntunin og öll lofsyrðin sem um hana voru sögð fyrir kosningar. Ég hóf mál mitt á því áðan að rifja upp loforðin til handa námsmönnum fyrir kosningar. Nú er staðan sú fyrir framtíð Íslands að ungt fólk þarf að velja á milli þess að ganga menntaveginn og kaupa húsnæði. Það eru nokkuð söguleg tíðindi að sú kynslóð sem nú er að koma út á vinnumarkað er sú fyrsta í langan tíma sem þarf að búa við slíka afarkosti á meðan fyrri kynslóðir hafa í samanburði við hana lifað í allsnægtum. Ungt fólk í dag þarf að borga fyrir óreiðu fyrri ára og því er ætlað að borga allan tollinn. Hvers konar þjóðfélag ætlar stjórnvöld að bjóða þessu fólki? Ekki nóg með þetta heldur er í leiðinni verið að tala um mannauðinn sem fólginn er í menntun í öðru hverju orði. Í athugun sem Stúdentaráð Háskóla Íslands lét gera nýverið á möguleikum námsmanna til húsnæðiskaupa kom skýrt fram að fólk sem er að greiða námslán þarf að hafa svimandi háar tekjur til að geta keypt húsnæði. Gerður var samanburður á því hverjar heimilistekjur fólks þurfi að vera til að standast greiðslumat miðað við endurgreiðslukröfur Lánasjóðs ísl. námsmanna fyrir og eftir breytingar á lögum um sjóðinn árið 1992. Meginniðurstaða samanburðararins er sú að þeir sem greiða hámarksendurgreiðslu samkvæmt nýju lögunum þurfa að hafa að minnsta kosti 30% hærri tekjur, heimilistekjur, en þeir sem endurgreiða eldri lán til þess að standa undir kaupum á sömu eða jafndýrri íbúð. Hver eru viðbrögð fulltrúa ríkisstjórnarinnar í stjórn Lánasjóðs ísl. námsmanna við þessum tíðindum? Formaður stjórnarinnar lét hafa eftir sér í blaðviðtali eitthvað á þá leið að það væri eðlilegt að fólk þyrfti að velja og hafna í þessu lífi. Fulltrúi ríkisstjórnarinnar í stjórninni lagði fram bókun á fundi stjórnarinnar þar sem hann lagði til að stjórnin beindi þeirri ósk til menntmrh. að hann hlutist til um breytingu á vinnureglum Húsnæðisstofnunar. Ég endurtek vinnureglum Húsnæðisstofnunar, við mat á greiðslugetu skuldara fasteignaverðbréfa. Fulltrúar námsmanna í stjórninni mótmæltu þessari fáheyrðu tillögu enda ekki hlutverk sjóðstjórnar LÍN að skora á menntmrh. að hlutast til um að reglum Húsnæðisstofnunar verði breytt. Halda menn virkilega að orsaka vandans sé að leita í vitlausum greiðslumatsreikningum? Nei, hans er að leita í því að greiðslubyrðin er allt of há. Þótt húsnæðiskerfið sé gallað í marga staði tel ég þetta nú full langt gengið. Framkvæmdastjóri lánasjóðsins segir um athugun námsmanna að það virðist svo vera að kerfið sé nægilega aðlaðandi til að fólk hugsi sig tvisvar um áður en það tekur námslán.

Frv. gerir ráð fyrir niðurskurði á styrkjum til innlendra rannsókna og menntunar. Því hefur gjarnan verið svarað til af hálfu ríkisstjórnarinnar að framlögin í heild séu aukin og er í þeim efnum vísað til evrópsks rannsóknarsamstarfs. Hér er vissulega um mjög mikilvægt starf að ræða og það er mjög jákvætt að ríkisstjórnin skuli veita fé til rannsókna á þessum vettvangi. Ég geri hins vegar ráð fyrir að það hafi ekki verið ætlunin að styrkja evrópskt rannsóknarstarf á kostnað þess innlenda enda stöndum við okkur ekki vel í alþjóðlegu rannsóknarstarfi nema að garðurinn sé líka ræktaður heima. Þessu starfi var ekki ætlað að stórveikja innlenda rannsóknarstarfsemi og ef að það er stefna ríkisstjórnarinnar væri fróðlegt að fá að heyra það hreint út sagt. Við getum tekið sem dæmi rannsóknarnámssjóð sem veitir styrki til námsmanna í framhaldsnámi en þar er niðurskurður upp á 5 millj. og í vísindasjóð Rannsóknarráðs er niðurskurður á ríkisframlaginu upp á 10 millj. Og kosningaloforðið sjálft, nýsköpunarsjóður námsmanna, þar er ríkisframlagið skorið niður úr 15 millj. í 10 millj.

Hverju svarar ríkisstjórnin námsmönnum núna? Hverju svarar Framsfl. sem lofaði afnámi eftirágreiðslna námlána og lægri endurgreiðslubyrði námslána? Reyndar voru allir flokkar sammála um það að fyrir kosningar að lækka skyldi endurgreiðslubyrðina en núna er málið í nefnd og guð má vita hversu langan tíma hún tekur sér til að skoða málin. Gaman verður að fylgjast með framgöngu framsóknarmanna sem lofuðu samtímagreiðslu námslána, fyrir þessu baráttumáli í ríkisstjórninni.

Nei, krakkar mínir, við ætlum að reita af ykkur milljónir hér og þar. En við ætlum að nota peningana í búvörusamninginn og fleiri forgangsmál. Ég er hrædd um að mörgum námsmanninum svíði þessi meðferð.

Ég vil í lokin, herra forseti, spyrja hæstv. fjmrh. út í eitt atriði í frv. en það snýst um 7 millj. kr. aukningu til yfirstjórnar fangelsismála. Í skýringum er talað um að það fé eigi að ganga m.a. til sálfræðiþjónustu fanga ef ég skil rétt. Ég er hreinlega forvitin að vita hvort ætlunin sé að bæta við stöðugildum sálfræðinga hjá Fangelsismálastofnun en að því er ég best veit þá er þar aðeins starfandi einn sálfræðingur og væri vel ef ætlunin væri að bæta úr þörfinni á þeim bæ.

Virðulegi forseti. Það sem að kannski er alvarlegast af öllu í þessu frv. er sú staðreynd að þar er ekki að finna neinar lausnir á höfuðvanda þjóðfélagsins í dag sem er atvinnuleysið. Framkvæmdir á vegum ríkisins eru þvert á móti skornar niður og þess í stað er búið að hefja herferð gegn atvinnulausum, þeir skuli í vinnu hvað sem það kostar og eftirlit með misnotkun er stórhert. Þetta er svo sem gott og blessað út af fyrir sig en það gleymist bara að vinnan er ekki til handa þessu fólki og það hlýtur að skrifast á ábyrgð stjórnvalda.