Fjárlög 1996

Þriðjudaginn 17. október 1995, kl. 21:47:08 (393)

1995-10-17 21:47:08# 120. lþ. 13.7 fundur 1. mál: #A fjárlög 1996# frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Hv. 18. þm. Reykjavíkur, Ásta R. Jóhannesdóttir, fór víða í ræðu sinni og ætla ég rétt aðeins að koma nokkuð inn á fáein atriði.

Það er í fyrsta lagi varðandi það að auka skuldir eilítið. Hér er verið að tala um að auka skuldir ríkissjóðs á næsta ári um 4 milljarða, það eru 16 þús. kr. á hvern einasta Íslending, litlu börnin og gamla fólkið meðtalið. Það eru 32 þús. kr. á hvern vinnandi Íslending og mér finnst það ekkert eilítið. Skuldirnar núna, hinar opinberu skuldir ríkissjóðs, eru 137 milljarðar, sem ég geri ráð fyrir að enginn maður geti ímyndað sér hvað er, ekki geri ég það, en það eru hálf milljón á hvern einasta Íslending, hálf milljón sem hið opinbera skuldar. Þetta eru ógreiddir skattar barnanna okkar. Ég á sex börn. Það eru 3 millj. á börnin mín. Takk fyrir. Það gef ég þeim í arf. Skuldirnar eru 1 millj. á hvern vinnandi Íslending. Ég kalla þetta ekki lítið. Ég kalla þetta uggvænlegt. Erlendar skuldir þjóðarinnar, og við skulum vona að fiskurinn bregðist okkur ekki, eru milljón á hvert mannsbarn. Þær eru 2 millj. á hvern vinnandi mann. Þetta er heldur ekki eilítið. Það er orðið mjög brýnt að við tökum á þessum vanda. Við verðum að herða sultarólina einhvers staðar. Þetta gengur ekki svona til lengdar.

En það er fleira sem að hv. þm. kom inn á. Hann talaði um lága sjúkradagpeninga. Og hann kom með ótrúlegar upplýsingar um það að örorkulífeyrir ykist við það að sjúkradagpeningar væru lágir. Getur það virkilega verið að þeir sem úrskurða örorkulífeyri taki tillit til þess við úrskurðinn?