Fjárlög 1996

Þriðjudaginn 17. október 1995, kl. 22:28:16 (397)

1995-10-17 22:28:16# 120. lþ. 13.7 fundur 1. mál: #A fjárlög 1996# frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel réttara að ég komi hér í andsvari til að ræða sérstaklega eitt mál við hv. þm. af því að hann nefndi mig til sögunnar og það varðar annars vegar fjármagnstekjuskatt og hins vegar fjármagnstekjutengingar í bótakerfinu. Hv. þm. sagði að við hefðum verið sammála um það hvernig farið yrði að, þ.e. ekki yrðu teknar upp slíkar tengingar nema fjármagnstekjuskattur yrði fyrst kominn á. Þetta er að sjálfsögðu alrangt því eins og hv. þm. veit þá var ég alla tíð þeirrar skoðunar að þetta væru tvö aðskilin mál. En niðurstaðan varð hins vegar önnur vegna þess að heilbrrh. hlaut að ráða, þetta voru tillögur frá honum og fjmrh. gerir fyrst og fremst sparnaðarkröfur.

Ég skal skýra af hverju þetta voru tvö aðskilin mál. Það var einfaldlega vegna þess að ef við ætluðum að tengja málin saman þá kæmi þetta fram með tvöföldum þunga á gamla fólkinu. Vegna þess að þá væri það bæði látið borga skattinn og missti líka bæturnar. Þannig sjá menn að þetta eru tvö aðskilin mál. Í öðru lagi sagði hv. þm., sem fer stundum frjálslega með, að það væru ég man ekki hve margir milljarðar sem hefðu farið í markaðssetningu á dilkakjöti. Þar á hann að sjálfsögðu við heildarútflutningsbæturnar.

Að síðustu ætla ég að rifja upp þá sögu þegar minn ágæti vinur var að spara fyrir nokkrum árum í heilbrrn. og kom með sparnaðartillögu upp á 200 eða 250 milljónir, en niðurstaðan varð 200 millj. kr. útgjöld fyrir ríkissjóð en ekki sparnaður. Þegar ég byrsti mig og varð heldur leiður yfir þessu þá yppti hann öxlum og sagði: ,,Þú keyptir þetta.`` Þótt viljinn hafi verið mikill og gangurinn góður þá er það ekki svo að niðurstaðan hafi alltaf verið í samræmi við þær tillögur sem hv. fyrrv. ráðherra og núv. þm. reyndi þegar hann var heilbrrh. og skorti þó ekki viljann til skera niður og spara.