Fjárlög 1996

Þriðjudaginn 17. október 1995, kl. 22:33:07 (399)

1995-10-17 22:33:07# 120. lþ. 13.7 fundur 1. mál: #A fjárlög 1996# frv., fjmrh.
[prenta uppsett í dálka]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson):

Virðulegi forseti. Mér skilst að farið sé að halla á þessa umræðu og mig langaði þá til þess að taka til máls og reyna að svara nokkrum fyrirspurnum sem til mín hafa verið beint og nefna örfá atriði. Það er nú svo að hér eru ekki allir í þingsalnum, sem hafa tekið þátt í umræðunni, enda stendur þannig á að umræðan fór fram á tveimur dögum og með alllöngu millibili því að það var fyrir 10 dögum eða svo sem fyrri hluti umræðnanna fór fram. Síðan hefur margt gerst sem hefur orðið til þess að ekki eru allir hér í dag þar á meðal heill landsfundur eins stjórnmálaflokks en fyrsta ræðan sem flutt var var flutt af nýkjörnum formanni Alþb. Það er aðeins eitt atriði, þar sem viðkomandi þingmaður er ekki viðstaddur, sem mig langar til þess að nefna úr ræðu hennar en það snertir þjónustusamninga. Ég er henni alveg sammála en hún lagði áherslu á gagnsemi slíkra samninga en saknaði þess að ekki væri mikið fyrir þeim að fara í þessu fjárlagafrv. Ég bendi á að þessu reynslustarfi verður haldið áfram, nokkur reynsluverkefni eru í gangi og næsta verkefni sem við ætlum að feta okkur áfram með er að koma upp svokölluðum verkefnavísum til að fá gleggra yfirlit yfir það sem stofnanir og fyrirtæki ríkisins eru að gera. Vissulega hefði verið spennandi að fjalla um nokkur önnur atriði sem komu fram í ræðu hv. þm. eins og stefnumörkun í umhverfismálum og þess háttar en það verður að bíða betri tíma.

Ég ræddi nokkuð á fyrri deginum um ræðu hv. þm. Gísla S. Einarssonar en minna um þá ræðu sem hv. þm. Kristín Halldórsdóttir flutti þó að af einu tilefni hafi ég staðið upp og gefið andsvar vegna þess að spurt var um það hvort fjárlagafrv. hafi verið kynnt öðrum en hv. þm. áður en það kom á borð þingmanna. Ég vona að því hafi verið svarað.

Hv. þm. ræddi síðan um landflóttann og skuldir heimilanna. Við skulum ekki ganga þess dulin að það hefur auðvitað gerst í þjóðfélagi okkar eins og sumum í öðrum nágrannalöndum, löndum sem við viljum bera okkur saman við, að það hafa verið efnahagslegir erfiðleikar. Við slíka erfiðleika reynir fólk auðvitað að bjarga sér og það gerist með þeim hætti að fólk leitar til þeirra starfa sem það kýs að vinna við og stundum kostar það að fólk þarf að flytja búferlum á milli byggðarlaga, jafnvel á milli landa. Í þessu sambandi bendi ég á að fólk, sem hefur við lakari kjör að búa, vill gjarnan koma hingað til lands. Þetta er afleiðingin af því sem hefur verið að gerast í heiminum að það er miklu meira streymi fólks milli landa. Við megum ekki alltaf halda að það sé eingöngu komið til af hinu illa. Stundum getur það verið gott, stundum er það slæmt. Ég held að því miður hafi það gerst í þessari umræðu allri að þetta hefur verið ýkt stórum. Það hefur verið talað um stórkostlegan landflótta en þegar nánar er litið í tölurnar kemur í ljós að í mörgum tilvikum er um eðlilegar breytingar að ræða. Ég get bent á það t.d. að ég aflaði mér upplýsinga hjá Lánasjóði ísl. námsmanna og þar er sá háttur hafður á og hefur verið núna um mörg ár og er breyting frá því sem var áður að menn flytja lögheimili sitt frá landinu þegar þeir fara til náms annars staðar á Norðurlöndunum. Þetta hefur breytt nokkuð búsetuskráningunni á undanförnum árum. Þarna er auðvitað um eðlilega búferlaflutninga að ræða, sem eru sem betur fer oftast tímabundnir. Og þannig er það nú ætíð að flestir sem flytjast héðan vilja gjarnan komast heim aftur en á móti kemur að ýmsir sem að hingað hafa flutt ílendast hér og verða í sumum tilvikum bestu Íslendingar. Það má ekki alltaf horfa á þetta með neikvæðu hugarfari.

Vissulega eru hér á landi lægri laun en víðast annars staðar í nágrannalöndunum. Það er satt og menn spyrja stundum spurninga eins og þessara: Hvernig stendur á því að landsframleiðsla á Íslandi er svona mikil en launin svona lág? Þetta er spurning sem menn spyrja. En þegar að menn kanna hlutinn betur kemur hið augljósa auðvitað í ljós. Á Íslandi er landsframleiðslan mikil vegna þess að það vinna margir, atvinnuþátttaka fólks er mjög mikil á Íslandi og hver einstaklingur vinnur mun fleiri stundir en einstaklingar hjá nágrannalöndunum. Ástæðan þess hvað Íslendingar hafa haft miklar tekjur, framleiða mikið eins og það er mælt í landsframleiðslu er einfaldlega sú að þeir hafa lagt miklu meira á sig en aðrar þjóðir. Þetta má ekki gleymast og þess vegna er það ósanngjarnt og í raunar út í bláinn að menn fara síðan að bera saman einingar eins og laun á klukkustund. Það er meira að segja út í bláinn, virðulegi forseti, að bera saman laun þingmanna og þingmanna einhvers staðar annars staðar og allur þessi samanburður.

Þegar við erum að bera saman lífskjör er þetta einn mælikvarði en það eru auðvitað fjöldamargir aðrir hlutir sem koma til þegar við ræðum um lífskjör á Íslandi sem hafa þýðingu og það vita þeir sem hafa dvalist langtímum erlendis að þar kemur til fjöldi annarra þátta sem við kjósum í stað hærri launa. Þetta breytir hins vegar ekki því að það er skylda stjórnvalda, ekki einungis ríkisstjórna, heldur allra stjórnmálaflokka, launþegasamtaka, samtaka atvinnulífsins, að reyna að bæta lífskjörin því að það er það sem að menn telja vera eftirsóknarverðast að hafa meiri fjármuni handa á milli til að geta keypt sér það sem þeir vilja búa við í lífinu. Það er keppikefli þeirrar ríkisstjórnar, sem hér starfar, og ég tel að það sjáist merki í því fjárlagafrv. sem við erum að ræða hér á landi. En þegar rætt er um landflóttann er gjarnan spurt að því hvert efnahagsbatinn fór. Og jafnvel virðulegastu fjölmiðlar á Íslandi spyrja þessara spurninga rétt eins og hann hafi horfið út um gluggann. Þegar að þessu er spurt er kannski rétt að hafa nokkrar staðreyndir í huga.

Samkvæmt upplýsingum Þjóðhagsstofnunar rýrnaði kaupmáttur þjóðartekna, heildartekna þjóðarinnar, um 7,3% á árunum 1991--1993. Það var rýrnun kaupmáttar þjóðartekna. Kaupmáttur ráðstöfunartekna heimilanna rýrnaði um 6,7% eða heldur minna. Þetta var á árunum 1991, 1992 og 1993. Þannig hefur minnkandi kaupmáttur þjóðarbúsins ekki komið allur fram í lakari kaupmætti almennings. En til fróðleiks má nefna að árin á undan, árin 1989 til 1991, rýrnaði kaupmáttur heimilanna um 12% en þjóðartekjur lækkuðu einungis um 1%. Þegar maður segir þetta, af því að þetta vísar til ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar, verður maður þó að hafa í huga að við upphaf á þessu tímabili var gengi íslensku krónunnar kolvitlaust skráð. Það varð auðvitað að taka á því og það lenti fyrst og fremst á ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar að taka á því máli og það rýrði lífskjörin eða kaupmátt ráðstöfunartekna gífurlega mikið.

Þetta er sagan og hana verðum við að hafa í huga vegna þess að það er erfitt þegar menn hafa tekið á sig slíka kjararýrnun að sætta sig við það að fá ekki uppsveiflu á nýjan leik. Það er í þjóðareðli okkar, þessi sveiflukenndi búskapur, að þegar við höfum átt slæmar stundir í atvinnu- og efnahagslífinu finnst okkur að þá hljóti sá tími að koma innan tíðar að við getum leyft okkur marga hluti. Því miður er það svo nú að efnahagsbatinn verður tiltölulega hægur, það er allt sem bendir til þess. Ástæðan er sú sem kom m.a. fram í ræðu hv. þm. og í ræðum margra annarra þingmanna að það er ekkert sem bendir til þess að við fáum gífurlega miklu meiri aflaverðmæti úr sjó en við höfum fengið á undanförnum árum. En sem betur fer er það þó nú að gerast að ekki er gert ráð fyrir frekari rýrnum á verðmætum úr sjó, þá er ég að tala um heimamiðin, heldur þvert á móti er talað um að við höfum náð botni og nú megi frekar búast við bjartari tíð þótt að hægt fari í þessu máli.

En þá kem ég að nútímanum, þ.e. frá árinu 1993, og ég er að tala um það hvert efnahagsbatinn fór því að þetta hefur grundvallarþýðingu. Það sem hefur gerst frá árinu 1993 er að þessi þróun sem ég lýsti áðan hefur snúist við og kaupmáttur í dag, kaupmáttur ráðstöfunartekna þegar búið er að taka tillit til skatta, hefur aftur farið að aukast. Þjóðartekjurnar hafa aukist og laun almennings hafa þess vegna hækkað. Á árunum 1994 og 1995 er talað um að kaupmáttur heimilanna aukist tæplega einu prósenti meira en þjóðartekjur eða um 4,6% samanborið við 3,8%. Á næsta ári er talið að þetta bil milli aukningar þjóðartekna og kaupmáttar heimilanna aukist enn og verði orðið um 2%. Þetta þýðir á mæltu máli að efnahagsbatanum hefur verið skilað til fólksins og gott betur. Það lýsir sér m.a. í því sem kom fram ágætlega hjá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni að það gengur nokkuð á viðskiptaafganginn. En það er óumdeilt að efnahagsbatanum hefur verið skilað með þessum hætti til fólksins. Hitt er svo annað mál að það hafa ekki allir fengið jafnmikið (Gripið fram í: Það er nefnilega það.) og það vita allir einfaldlega vegna þess að sumir hafa því miður verið atvinnulausir, aðrir hafa borið minna úr býtum í kjarasamningum en aðrir. Þetta skulum við viðurkenna. En það er samt sem áður enginn stórkostlegur munur frá því sem áður var. Þeir mælikvarðar sem ég nota eru mælikvarðar sem víðast hvar eru notaðir til þess að mæla hvort kjörin eru að batna eða hvort þau rýrna. Þetta vildi ég að kæmi mjög skýrt fram og kannski hef ég farið í of miklum smáatriðum ofan í þetta en ræða hv. þm. gaf tilefni til en það gaf mér að minnsta kosti tilefni til að segja þetta.

[22:45]

Síðan er minnst á það og það gerði hv. þm. líka og reyndar aðrir að sértekjurnar væru stórkostlega að hækka í þessu frv. Ef ég man rétt hækkar þær eitthvað um 500 millj. kr. Þær hækka um 7--7,5% á sama tíma og launin í frv. hækka yfir 8%. Mest af þessum sértekjum eru sértekjur sem byggjast á launum opinberra starfsmanna. Í raun og veru eru sértekjurnar að hækka minna heldur en efni stóðu til. Ég skal fyllilega viðurkenna að það hefði verið eðlilegt frá mínum sjónarhóli að hækka t.d. hlut þeirra sem eiga viðskipti við heilsugæsluna því ég held að það sé óhollt að taka stór stökk þar eins og víða annars staðar. Þar hefur nánast ekkert hækkað í fjögur ár, svo líða kannski fimm og upp í tíu ár og þá er hækkað næst með einhverju stóru stökki. Það er betra að hækka hægar hlutdeild þeirra sem að þurfa á þjónustunni að halda en að gera það í jafnstórum stökkum og við gerum. Því að valið stendur um það hvort við viljum borga einhvern hluta fyrir þjónustuna eða hvort við viljum ekki fá hana. Þetta er því miður það val sem við stöndum í mörgum tilvikum frammi fyrir, ekki einu sinni hér á landi, heldur líka í mörgum öðrum löndum þar sem svipað stendur á.

Margir þingmenn hafa tekið í sama streng og hv. þm. Kristín Halldórsdóttir og þótt ég beini máli mínu fyrst og fremst til hennar þá er það vegna þess að ég hef valið þau atriði úr ræðu hennar sem aðrir þingmenn hafa jafnframt minnst á og full ástæða er til að komi fram við 1. umr. málsins. Það er minnst á það með réttu að sá skattalegi ávinningur launþega, sem kom fram þegar iðgjöld til lífeyrissjóða verða skattfrjáls, sé tekinn til baka. Þetta er alls kostar rétt. Enda stóð aldrei annað til. Við sögðum það blákalt við samningaviðræðurnar við aðila vinnumarkaðarins. Ég sat þar ásamt foringjum launþega og vinnuveitenda og sagði það blákalt og það var skráð niður og sagt: Við höfum fullan fyrirvara í þessu máli. Af því við teljum að ríkissjóður sé ekki aflögufær. En það sem við gerum hins vegar er það að við reynum að deila þessum sköttum í tvennt, annars vegar á atvinnureksturinn og hins vegar á þá sem borga tekjuskatt með þeirri frystingu sem þar mun eiga sér stað. Þannig er þessu skipt upp, annars vegar á fyrirtækin og hins vegar á launþegana. Ætla ég þó ekki að mótmæla því að skattar á fyrirtæki og skattar yfirleitt hljóta alltaf að lokum að lenda á einstaklingum þessarar þjóðar því að skattar á fyrirtæki hljóta að rýra möguleika fyrirtækjanna til þess að borga laun. Mér heyrist stundum að ýmsir hv. þm. geri sér ekki mikla grein fyrir því. Þetta er ekki sneið til hv. þm. Kristínar Halldórsdóttur, síður en svo.

Hv. þm. efaðist um að vaxtalækkun sem Seðlabankinn spáir og Þjóðhagsstofnun ásamt fjmrn. nægi til þess að við náum fram því sem að við erum að stefna að í frv. og einnig er efi í hennar huga um það að við munum ná tökum á því að fjölga störfum því að búast megi við því hér á landi að tæknivæðingin taki til sín nokkuð og það er auðvitað rétt. Það sem hefur verið að gerast í nágrannalöndum okkar er að miklu hægari bati hefur verið í atvinnuleysinu en menn áttu von á meðal annars vegna þess að fyrirtækin hafa verið að tæknivæðast. Og þá segja sumir, er þetta ekki alveg ómögulegt? Á ekki að leggja áherslu á að að útvega störf? En í Evrópu hafa menn sagt: Við viljum vel launuð störf. Og verkalýðshreyfingin í Evrópu hefur sagt: Við viljum ekki hvaða störf sem er. Við viljum vel launuð störf og þess vegna hefur verið lögð mikil áhersla á það í Evrópu að herða á tæknivæðingunni og láta frekar atvinnuleysið liggja til hliðar en halda uppi vel launuðum störfum. Gagnstætt því sem hefur gerst í Bandaríkjunum. Það eru tveir skólar í gangi í OECD, bandaríski skólinn annars vegar sem leysir þetta með hlutastörfum, leysir þetta með lágum launum o.s.frv. og síðan evrópski skólinn þar sem menn byggja kannski á betra bótakerfi og vilja frekar reyna að vera með hálaunað þjóðfélag. Þetta er munur á þessum tveimur stefnum sem svo eru stundum kallaðar.

Vissulega hefði verið fróðlegt að ræða ýmislegt fleira, það hefur fyrr í umræðunni verið minnst á jafnréttismálin og reyndar liggur fyrir fyrirspurn sem er til umræðu á morgun og ég held að ég geymi mér svarið til þess að vera ekki að þjófstarta í kvöld. Hv. þm. minntist á flóttamenn í máli sínu. Ég vil einungis nefna að það mál hefur verið tekið upp í ríkisstjórninni og það hefur verið ákveðið að nota fjármuni af svokölluðum ríkisstjórnarlið til að taka á móti flóttamönnum frá Júgóslavíu þegar á þessu ári og vona ég að það svari fyrirspurn hv. þm.

Hv. þm. Ágúst Einarsson er ekki hér í kvöld og situr reyndar ekki á þingi eins og er þannig að það er eðlilegt að hann sé ekki meðal okkar hérna en hans ræða var að mörgu leyti athygli verð ekki síst fyrir það að áherslur í henni voru að nokkru aðrar en hjá ýmsum öðrum stjórnarandstæðingum sem hafa talað bæði í dag og eins á föstudaginn fyrir rúmri viku.

Ég ætla fyrst og fremst að nefna það atriði þegar hann talaði um lífeyrissjóð opinberra starfsmanna og taka undir það með honum að ég tel að það þurfi að velta því fyrir sér hvort ekki eigi að huga að breytingum á lífeyri gagnvart nýjum opinberum starfsmannaréttindum. Þetta er ekkert einfalt mál. Þetta er ekki mál sem ríkisstjórnin gerir með handafli og látum. Þetta verður auðvitað að ræða við starfsmenn ríkisins og þegar er farin af stað nefnd til þess að kanna það hvernig við getum komið á sambærilegum réttindum á þessu sviði í þjóðfélaginu sem ég held að það sé mikilvæg forsenda fyrir því að við komumst út úr þessu ati á milli opinberra starfsmanna og annarra starfsmanna því í raun ætti ekki að þurfa að vera nema einn vinnumarkaður hér á landi. Þetta er úrelt og lögin sem lýsa réttindum og skyldum opinberra starfsmanna eru frá 1954, nr. 38 frá 1954, og miðuðust við að það væri enginn verkfallsréttur og enginn samningsréttur opinberra starfsmanna. Við búum enn þá við þessa löggjöf og það sér náttúrulega hvert mannsbarn að það hlýtur að vera kominn tími til þess að endurskoða þessi lög og það er nú í undirbúningi.

Hv. þm. nálgaðist jaðarskattaumræðuna nokkuð með öðrum hætti en aðrir hv. ræðumenn með því að gera mikinn mun á bótum og sköttum. Það er vissulega rétt hjá honum að það er auðvitað munur á því hvort við tekjutengjum bætur eða tekjutengjum skatta. Bætur eru ekki verðlaun fyrir vinnu heldur eru bætur eitthvað sem þjóðfélagið hefur komið sér saman um að láta þá hafa sem minnst mega sín, oftast til þess að það sama fólk geti aflað sér viðurværis og notið þess sjálfstæðis sem hver einstaklingur vill í þjóðfélaginu. En Ágúst Einarsson gerði mun á þessu tvennu og út af fyrir sig er hægt að taka undir það með honum þótt algengast sé þegar menn tala um jaðaráhrif í skatta- og bótakerfinu að menn leggi saman áhrifin sem koma fram í hærri sköttum og lægri bótum. Þannig finna menn t.d. út að jaðaráhrifin séu 70--90% og jafnvel 100% hjá ýmsum örorkubótaþegum. Það er vegna þess að það koma saman tekjur og skattar sem verða til þegar tekjur hækka og hins vegar að menn missa af bótum þegar tekjur hækka sömuleiðis og kemur þess vegna fram með tvöföldum þunga.

Hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir ræddi um nokkur atriði sem mér finnst ástæða til þess að taka upp. Í fyrsta lagi ræddi hún um svokallaða sjálfvirkni eins og reyndar margir aðrir þingmenn, síðast hv. þm. Ögmundur Jónasson og a.m.k. fjórir aðrir þingmenn og réðust að þeirri hugmynd sem kemur fram í fjárlagafrv. að menn ætli að hætta við sjálfvirknina og taka upp sjálfstæðar ákvarðanir þegar ákveðnar eru vissar upphæðir í lögum og jafnvel utan laga. Við skulum aðeins líta betur á hvað þetta snýst um. Í raun snýst þetta um það að við erum að hverfa frá þeim lögum og því kerfi sem var sett upp í miklu verðbólguþjóðfélagi þar sem verðbólgan fór jafnvel upp í 100% en þá varð að verja allt efnahagslega umhverfið með þessum vísitölubindingum. Nú er verðbólgan mjög lítil hér á landi og jafnvel minni en víða annars staðar. Þá er eðlilegt að menn endurskoði þetta, bæði í skattkerfinu, þegar ákvarðaðar eru bótafjárhæðir í lífeyristryggingunum, þegar ákveðin eru daggjöld, þegar nefskattur er ákveðinn en nefskattur sem leggst á fólk er líka vísitölutengdur. Það þarf að hverfa frá því þegar gjaldskrár eru tengdar vísitölu og í raun og veru höfum við verið að hverfa frá vísitölutengingu á lánsfjármarkaðnum líka. Allt þetta er ekki gert af einhverjum skepnuskap heldur er þetta gert vegna þess að við teljum að það sé eðlilegra að hverfa frá þessum bindingum nú þegar ljóst er að verðbólgan hefur horfið en er undirliggjandi eins og vírus því að með því að hverfa frá vísitölubindingunum er líklegra að við viljum sjálf bera ábyrgð á því að koma verðbólgunni ekki af stað áfram.

Þá ræddi hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir um sparnað í rekstri sem hún sagði að hefði runnið út í sandinn. Hv. þm. er ekki við en ég gæti bent á og talið upp hvernig við höfum að minnsta kosti náð þeim árangri að 10--12 milljarðar hafa sparast árlega vegna breytinga sem hafa orðið á undanförnum árum. Síðan sagði hv. þm. eins og svo oft kom fram í umræðunum bæði í dag og á föstudaginn fyrir 10 dögum: Það er verið að ráðast á sjúklinga --- reyndar sagði hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir það ekki en aðrir bættu því við --- það er verið að ráðast á landsbyggðina, það er verið að ráðast á þá sem aumastir eru o.s.frv. Við skulum aðeins líta betur á þessar staðhæfingar. Það er nefnilega þannig að í fjárlögunum eru þrír meginkaflar. Það er rekstur sem er að langmestu leyti laun ríkisstarfsmanna. Það eru tilfærslur sem eru fyrst og fremst tilfærslur til þeirra sem fá bætur úr bótakerfinu og reyndar síðan landbúnaðurinn. Í þriðja lagi er það stofnkostnaður nýs rekstrar en það mætti líka líta á hann sem u.þ.b. 50% laun til þeirra sem vinna við að byggja upp vegi, samgöngumannvirki og byggingar alls konar.

Það sem ég er að reyna að segja er að það er nánast alveg sama ef við reynum að takast á við einhverja stóra liði í fjárlagafrv. Það hlýtur að bitna á einhverjum. Landbúnaðurinn snýst ekki bara um sauðfé eins og hér var sagt áðan. Það er fólk sem framleiðir þetta kjöt og það eru byggðir sem lifa af því að það sé framleitt kindakjöt á ákveðnum stöðum á landinu. Það er fólk á bak við þetta. Það verður því að taka tillit til þess og menn hafa sjálfsagt gert það í þúsund ár og menn breyta þessu ekki allt í einu. Á einum áratug kemur stuðningur við sauðfjárbændur til með að minnka úr 4,5 milljörðum í 2 milljarða. Það er árangur eða menn verða að líta á það sem árangur og þetta hefur bitnað á þessu fólki og getur ekki annað en bitnað á þessu fólki. Með sama hætti er alveg sama hvar við berum niður, þetta er enginn skepnuskapur og það skiptir engu máli hvað ríkisstjórnin heitir. Í Svíþjóð er jafnaðarmannastjórn. Í Noregi er jafnaðarmannastjórn. Í Finnlandi stjórna jafnaðarmenn ásamt öðrum flokkum. Í öllum þessum löndum eru menn að skera niður velferðarkerfið. (Gripið fram í: Það er ekki sama hvernig.) Halda menn, hv. þm. --- ég skal endurtaka þetta því ég þekki þetta mjög vel. Í þessum löndum er verið að skera niður velferðarkerfið. Það getur vel verið að þar sé af meiru að taka. Það kann vel að vera. En það er verið að skera niður velferðarkerfið og af hverju halda menn að þetta sé gert? Haldið þið að jafnaðarmenn á Norðurlöndum séu að gera þetta að gamni sínu? Haldið þið að jafnaðarðmenn á Norðurlöndunum séu að gera þetta af því að þeim þyki skemmtilegt að taka af sjúklingum? Taka af fæðingarorlofinu, taka af húsaleigubótunum. Nei, það er gert vegna þess að það sjá það alltaf fleiri og fleiri, jafnvel vinstri menn, jafnvel félagshyggjumenn, að það er nauðsynlegt að draga úr útgjöldum ríkisins, ná jafnvægi, hætta að skuldsetja þjóðina því það er frumforsenda þess að við getum bætt lífskjörin til lengri tíma. Það er líka forsenda þess að fólkið, sem þarf að borga þær skuldir sem við höfum verið að setja þjóðina í, hafi nauðsynlegt rými og lífskjör til að geta borgað þessar skuldir með sköttum sem þarf til að borga þær.

[23:00]

Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon flutti hér langa og að mörgu leyti skemmtilega ræðu, svo ég felli nú svona dóma sem maður ætti kannski ekki að gera. (Gripið fram í: Hvað fær hann margar stjörnur?) Hann er alltaf í mínum stjörnuflokki en það er verst að hans eigin flokksmenn dæma hann ekki eins vel og ég geri því mér finnst hann að mörgu leyti ágætur. Þetta var ekki sagt í gamni. Þetta var sagt í fúlustu alvöru. Hann ræddi um skattahækkanir og ég hef nú svarað því. Olíugjaldið kom fram í framsöguræðu minni þannig að ég ætla nú ekki að lesa hana upp aftur. Og varðandi jaðarskattana þá lýsti ég því einnig í framsöguræðu minni að það má gera ráð fyrir því, ef þau áform ná fram að ganga sem nú er verið að tala um, að skattur á fjölskyldu með þrjú börn lækki um 10 þús. kr. Þar er miðað við að foreldrarnir hafi 200 þús. kr. á mánuði. Þetta eru hugmyndirnar þótt þær séu ekki komnar í frv. Margir þingmenn hafa einmitt rætt um þennan hóp af skiljanlegum ástæðum. Þetta er millitekjufólk með börn, fólk á aldrinum 25--40 ára sem skuldar námslán og á erfitt með að ná endum saman af því að það finnur fyrir því ef það bætir við tekjurnar þá fær það mjög lítið brot af þeim tekjum í eigin vasa. Ætlunin er einmitt að líta fyrst og fremst til þessa fólks. Í stjórnarsáttmálanum er gert ráð fyrir að tekið sé á jaðarskattsmálum og við höfum sæmilegt rými ef t.d. settur verður á fjármagnstekjuskattur. Þá gætum við t.d. hugsað okkur, þótt ég tali þar ekki á grundvelli stjórnarsamþykktar, að það mætti nota eitthvað af þeim peningum til að draga úr jaðaráhrifum tekjuskattskerfisins og hjálpa þessu fólki sérstaklega. Það væri hægt

Þetta nefni ég hér vegna þess að menn geta ekki talað eins og það sé verið að ráðast á þetta fólk. Það sem hefur gerst að undanförnu er að við höfum í nafni félagslegs réttlætis sífellt verið að tekjutengja og meira að segja síðast hér í dag sagði einn ágætur hv. ræðumaður, stjórnarandstæðingur: ,,Ja, ég skil ekki af hverju fólk er að fá til sín barnabætur 1.500 kr. tvisvar á ári.`` Ég er algjörlega sammála. En ef við hugsuðum okkur að við felldum þetta brott, þessar barnabætur, þá sætum við eingöngu með tekjutengdan barnabótaauka eftir sem bitnaði fyrst og fremst á þeim fjölskyldum sem eru með þær meðaltekjur sem við vorum að tala um áðan. Þannig að það þarf auðvitað að stokka þetta upp og skoða þetta allt í heilu lagi og viðurkenna það að við höfum stundum verið svo trúuð á að það væri hægt að stýra í gegnum tekjuskattskerfið til þeirra sem ættu bágast að við höfum alltaf verið að setja tekjutengingar hér og tekjutengingar þar. Þegar skattkerfið er orðið þannig að það er einungis þriðjungur sem greiðir skatta og skatthlutfallið jafnhátt og það er og þegar það gerist jafnframt að persónufrádrátturinn er eins hár og hann er hér á landi þá hljótum við að framkalla einmitt þá ókosti sem ég hef lýst hér.

Virðulegi forseti. Það er reyndar margt fleira sem ég hefði kosið að nefna hér eftir allar umræðurnar, það hefur liðið nokkur tími á milli þeirra. En ég sé að ég kemst ekki yfir fleira. Ég held að að langmestu leyti hafi mér tekist að svara því sem ég taldi ástæðu til að svara og lýk hér máli mínu.