Fjárlög 1996

Þriðjudaginn 17. október 1995, kl. 23:07:12 (401)

1995-10-17 23:07:12# 120. lþ. 13.7 fundur 1. mál: #A fjárlög 1996# frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt hjá hv. þm. að Svíar, sérstaklega Svíar, hafa lagt meira til velferðarmála heldur en við höfum gert á undanförnm árum. Svíþjóð er og hefur verið ein ríkasta þjóð í heimi. Sænskir jafnaðarmenn hafa farið þar með stjórn nánast óslitið um margra áratuga skeið og lagt mikla áherslu á þetta kerfi. Samt sem áður eru þeir að skera niður kerfið hjá sér. Þá segir hv. þm., því er ekki saman að jafna íslenska kerfinu og því sænska. Sannleikurinn er hins vegar sá sem kom reyndar fram í máli hv. þm. að við höfum leitað mjög mikið fyrirmynda í Svíþjóð og höfum sífellt apað eftir Norðurlöndunum. Og þess vegna hefur það gerst hér á landi að það er undirliggjandi mjög mikill vöxtur í íslenska velferðarkerfinu. Svíar eru eldri þjóð en Íslendingar í svona demógrafískum skilningi, þ.e. að meðalaldur Svía er talsvert hærri heldur en Íslendinga. Þetta kemur til með að breytast hér á landi á næstu áratugum. Þannig að eftir 20--30 ár stæðum við í sömu sporum og Svíar ef við látum ekki staðar numið einhvers staðar. Og það er dyggð að spara í þessum málum eins og alls staðar annars staðar. Þetta hafa meira að segja verkalýðsforingjar í Evrópu skilið og þetta hefur komið fram í þeirra yfirlýsingum og einnig á fundum OECD að það sé númer eitt, tvö og þrjú að ná jafnvægi í ríkisfjármálum því annars erum við að greiða velferð líðandi stundar þeirra einstaklinga sem eru samferðamenn okkur hér í dag með skuldum sem börnin og barnabörnin okkar þurfa að greiða sem skatta eftir nokkra áratugi. Ég segi við ykkur eins og ég hef margoft sagt: Mér finnst þá að það sé val á milli tveggja leiða, þ.e. að við borgum þessa skatta sjálf og stórhækkum þá eða spörum til þess að jafnvægi náist. Og ég held að síðari kosturinn sé mun betri.