Fjárlög 1996

Þriðjudaginn 17. október 1995, kl. 23:13:11 (404)

1995-10-17 23:13:11# 120. lþ. 13.7 fundur 1. mál: #A fjárlög 1996# frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég held að við þurfum að halda þessari umræðu nokkuð lengur áfram því ég held að menn séu nú loksins farnir að ræða kjarna hlutanna hér undir lokin á þessari fjárlagaumræðu.

Ég kem hér aðallega upp til að lýsa mig ósammála því sem fólst í svari hæstv. fjmrh. við fsp. frá hv. 12. þm. Reykv., eins og ég skildi hana, eða umfjöllun um jaðarskatta og spurningu um tekjutengingu bótaliða, sérstaklega barnabóta. Það var spurt hvaða ástæða væri til þess að vera að borga velstæðu fólki yfir höfuð einhverjar barnabætur. Það lá í orðum beggja að mér skildist, hæstv. fjmrh. og hv. þm., að það væri engin ástæða til þess ef tekjur fólks væru yfir einhverju tilteknu marki. Ég er þessu í grundvallaratriðum ósammála. Ég tel að það eigi að gera skattalegan mun á barnafjölskyldum og öðrum fjölskyldum. Og það sé einmitt ósanngjarnt að stilla þessum fjölskyldum upp sem jöfnum eftir að komið er yfir ákveðið tekjubil. Ef menn fella niður með öllu eða eru sífellt að skerða ótekjutengda hluta barnabótanna þá endar það þannig að það er enginn skattalegur munur gerður á kannski 5--6 manna fjölskyldum og tveggja manna fjölskyldum sem engin börn hafa til að framfæra. Það er vitlaust, það er ranglátt. Þess vegna verður annað tveggja að vera fyrir hendi. Einhver umtalsverður ótekjutengdur barnabótahluti eða frádráttur sem barnafjölskyldur fá að nýta sér. Það verður að vera annað hvort. Mér finnst sérkennilegt að heyra hvernig nú er stundum fjallað um þetta í umræðum um skattamál eins og það eigi bara að strika þennan mun algerlega út ofan við einhver mörk. Því er ég ekki sammála. Á meðan ekki er þá farin sú leið að veita barnafjölskyldum að einhverju leyti frádrátt frá skattgreiðslum þá tel ég að það verði að leysa þetta með mismun sem felst í ótekjutengdum barnabótahluta.