Málefni ferðaþjónustu

Miðvikudaginn 18. október 1995, kl. 13:36:49 (409)

1995-10-18 13:36:49# 120. lþ. 15.1 fundur 5. mál: #A málefni ferðaþjónustu# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi SJS
[prenta uppsett í dálka]

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég hef lagt fram fyrirspurn til hæstv. samgrh. varðandi stefnumótun og heildarendurskoðun lagaákvæða um málefni ferðaþjónustunnar. Sú er forsaga þessa máls að á næstsíðasta kjörtímabili var unnið mikið starf að þessum málum. Þá starfaði stjórnskipuð nefnd skipuð fulltrúum allra stjórnmálaflokka og helstu hagsmunaaðila og sú nefnd náði sameiginlegri niðurstöðu og skilaði áliti í formi annars vegar þáltill. um stefnumótun í ferðaþjónustu og hins vegar frumvarpsformi þar sem á ferðinni var heildarendurskoðun lagaákvæða sem varða málefni ferðaþjónustunnar sameinuð í einn lagaramma fyrir þessa starfsgrein.

Framgangur málsins varð sá á þingi veturinn 1991 að málið fór í gegnum neðri deild sálugu sem fundaði í þessum húsakynnum í þá tíð og var til 2. umr. í efri deild, seinni deild, þegar kom að þinglokum en þá brá svo við að upp reis þáv. hv. þm. og núv. hæstv. samgrh., Halldór Blöndal, og beitti sér af mikilli hörku gegn málinu og náði það ekki fram að ganga sökum tímaskorts í efri deild þessa ágætu marsdaga 1991. Hv. þáv. þm., núv. hæstv. ráðherra, færði m.a. fram til andstöðu við málið að ekki væri nóg að gert í þeim þingskjölum sem þar voru á ferðinn, þáltill. og lagafrv., til að bæta starfsskilyrði ferðaþjónustunnar sem hv. þm. á þeim tíma taldi óviðunandi. Málið náði þar af leiðandi ekki fram að ganga en svo vildi til að skömmu síðar varð sami hv. þm. hæstv. samgrh. og er enn og fer með ferðamál.

Á hans kjörtímabili hinu fyrsta gerðist hins vegar ekkert í málefnum ferðaþjónustunnar að þessu leyti. Engin heildstæð stefnumörkun leit dagsins ljós og engin heildarendurskoðun var gerð, þó löngu tímabær væri, á lagaákvæðum um málefni ferðaþjónustunnar.

Það sem enn verra er að það sem helst hann varast vann varð þó að koma yfir hann því að hæstv. ráðherra neyddist til að kyngja því að á kjörtímabilinu voru starfsskilyrði ferðaþjónustunnar gerð lakari en ekki betri í formi upptöku virðisaukaskatts á greinina og fleiri íþyngjandi aðgerða. Þetta er afar dapurleg saga, herra forseti, sem nauðsynlegt er að rifja hér upp. Og nú er mál að linni og eitthvað komist af stað í þessum efnum og þess vegna hef ég lagt spurningar fyrir hæstv. ráðherra í byrjun nýs kjörtímabils.

1. Er þess að vænta að mótuð verði stefna í málefnum ferðaþjónustunnar á þessu kjörtímabili? Ef svo er, hvernig hyggst ríkisstjórnin þá standa að slíkri vinnu?

2. Er fyrirhuguð heildarendurskoðun lagaákvæða sem snerta ferðaþjónustuna á þessu kjörtímabili?

Það er óþarft að rökstyðja frekar efni þessara spurninga. Ég vil þó sérstaklega leggja áherslu á það að í gildi eru löngu úr sér gengin lagaákvæði í mörgum lagabálkum um málefni ferðaþjónustunnar sem mjög brýnt er að tekin verði til endurskoðunar. Ég bíð spenntur eftir því að heyra svör hæstv. ráðherra.