Málefni ferðaþjónustu

Miðvikudaginn 18. október 1995, kl. 13:46:14 (413)

1995-10-18 13:46:14# 120. lþ. 15.1 fundur 5. mál: #A málefni ferðaþjónustu# fsp. (til munnl.) frá samgrh., TIO
[prenta uppsett í dálka]

Tómas Ingi Olrich:

Virðulegi forseti. Hér hefur verið kvartað undan því að sú vinna að stefnumörkun sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon lét vinna í sínum ráðherradómi hafi ekki náð fram að ganga. Ég vil aðeins taka það skýrt fram að til þess að hægt sé að móta stefnu í ferðamálum, þá verða að sjálfsögðu forsendur stefnumörkunarinnar að vera fyrir hendi, en þessar forsendur voru ekki fyrir hendi á þeim tíma þegar hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon var við völd og hann gerði ekkert til að bæta úr þeim.

Hvernig halda menn t.d. að mönnum gengi að marka stefnu í sjávarútvegsmálum ef sjávarútvegurinn styddist ekki við neinar rannsóknarstofnanir á sviði sjávarútvegsmála? Ferðaþjónustan hefur ekki haft neinn stuðning af rannsóknarstarfseminni. Í þann tíð er hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon var yfirmaður ferðamála, þá var staðan þannig að á sviði Rannsóknarráðs ríkisins, sem stundar hagnýtar rannsóknir, voru engin verkefni unnin á sviði ferðamála. Og sú ágæta stofnun sinnti ekki þessum geira. Það hefur á ýmsum vettvangi verið unnið að því að bæta úr þessu einmitt í tíð núv. samgrh. og þau mál hafa þokast í rétta átt þó að þessir ágætu þingmenn, hv. þm. Hjörleifur Guttormsson og fyrrv. samgrh. hv. þm. Steingrímur Sigfússon, hafi ekki áttað sig á því.