Málefni ferðaþjónustu

Miðvikudaginn 18. október 1995, kl. 13:48:56 (415)

1995-10-18 13:48:56# 120. lþ. 15.1 fundur 5. mál: #A málefni ferðaþjónustu# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi SJS
[prenta uppsett í dálka]

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Það eru útúrsnúningar að ég hafi í fsp. sérstaklega kvartað undan því að stefnumótun sem ég vann að hafi ekki náð fram að ganga. Ég kvartaði eingöngu undan einu og það var að það hefði ekkert verið gert í þessum efnum í fjögur ár. Það þola sjálfstæðismenn ekki að heyra, en það er sannleikurinn. Og þegar talsmenn Sjálfstfl. eru svo að reyna að skella skuldinni á það að þessum málum hafi ekki verið sinnt á þeim skamma tíma, eða í tvö og hálft ár sem ég var samgrh., þá spyr ég á móti hverjir hafi farið með málin næstu 5--6 árin þar á undan. Eru þeir ekki að vega dálítið ómaklega að flokksbræðrum sínum sem höfðu haldið utan um samgöngumál og ferðamál um langt tímabil þar á undan?

Staðreyndin er sú að þessi mál voru tekin á dagskrá og lögð í þau mikil vinna í tíð þessarar ríkisstjórnar sem hér hefur verið rætt um. Um það vitna skýrslur og þau störf sem þar voru unnin. Það er heldur dapurlegt að heyra hv. þm. fjalla með þessum hætti m.a. um framlag flokksbróður síns, fyrrv. hv. þm. Friðjóns Þórðarsonar, sem var fulltrúi þingflokks Sjálfstfl. í þessu nefndarstarfi, skrifaði undir álit nefndarinnar án athugasemda og fyrirvara og stóð að því að bera það hér inn í þingið sem fulltrúi síns flokks. Það er heldur löðurmannlegt, satt best að segja, að fjalla um hlutina með þessum hætti sem hér er gert, en kannski er ekki annars að vænta úr þeirri aumingjalegu stöðu sem sjálfstæðismenn neyðast til að fjalla um þessi mál hér.

Ég mótmæli því, ég átel það, sem hæstv. samgrh. upplýsti, að hann hefur skipað nefnd til þess að vinna að þessum málum á þann vanalega hátt Sjálfstfl. eða núv. ríkisstjórnar að í henni sitji eingöngu þingmenn og fulltrúar stjórnarflokkanna. Það er dapurlegt að horfa upp á það að með þessu er í hverju tilvikinu á fætur öðru hafnað þverpólitísku samstarfi um svona mikilvæg hagsmunamál í samfélaginu. Og það er lýsandi fyrir muninn á þeirri nálgun sem var í þessum efnum í tíð fyrri ríkisstjórnar að þá sátu fulltrúar allra stjórnmálaflokka í nefndarstörfum að þessu leyti. Þetta er dæmigert fyrir það hvernig Sjálfstfl. vill vinna að þessum málum, loka þau af í þröngum flokkspólitískum skúffum í náðarfaðmlagi við kolkrabbann. Það er þeirra vinnulag í þessum málum.