Græn símanúmer

Miðvikudaginn 18. október 1995, kl. 13:56:35 (418)

1995-10-18 13:56:35# 120. lþ. 15.2 fundur 6. mál: #A græn símanúmer# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh.
[prenta uppsett í dálka]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Samgrn. hefur látið athuga hvaða ráðuneyti og ríkisstofnanir hafa komið sér upp grænum línum, hver notkun þeirra er og hversu mikill kostnaður felst í því að bjóða upp á slíka þjónustu. 19. sept. á síðasta ári voru 17 ríkisstofnanir og þrjú ráðuneyti með svokallaðar grænar línur. Við athugun sem gerð var af ráðuneytinu nú í október kom í ljós að stofnununum hefur fjölgað um tvær á þessu ári sem bjóða upp á slíka þjónustu.

Í athugun þessari kom það enn fremur fram að notkun viðskiptavina á grænum línum er mjög lítil, bæði hjá ráðuneytum og ríkisstofnunum. Kostnaðurinn fyrir ráðuneyti eða stofnun við að koma sér upp þessari þjónustu er hins vegar umtalsverður. Segja má að allar helstu stofnanir ríkisins séu þegar búnar að koma sér upp grænum númerum. Má þar nefna Vegagerðina, Húsnæðisstofnun, ríkisskattstjóra, Skipulag ríkisins, Póst og síma, Tryggingastofnun, Byggðastofnun, Brunamálastofnun, Landmælingar, Þjóðleikhúsið, Bifreiðaskoðun, umboðsmann Alþingis, þjónustumiðstöð ríkisverðbréfa og Lánasjóð ísl. námsmanna, Löggildingarstofuna og Landgræðsluna.

Nokkur ráðuneyti hafa komið sér upp slíkri þjónustu: Samgrn., umhvrn. og landbrn., en önnur eiga það eftir. Á ráðuneytisstjórafundum hafa þessi mál verið til umfjöllunar og samþykkt að samgrn. skuli hafa forustu um þessi mál og mun það á næstu vikum setja sig í samband við önnur ráðuneyti og vinna að því að þau hafi komið sér upp grænum símanúmerum nú fyrir áramót.