Málefni Menntaskólans í Reykjavík

Miðvikudaginn 18. október 1995, kl. 14:01:23 (421)

1995-10-18 14:01:23# 120. lþ. 15.3 fundur 23. mál: #A málefni Menntaskólans í Reykjavík# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi KÁ
[prenta uppsett í dálka]

Fyrirspyrjandi (Kristín Ástgeirsdóttir):

Hæstv. forseti. Á næsta ári verða 150 ár liðin frá því að eini framhaldsskóli landsins sem þá var var fluttur frá Bessastöðum í nýtt húsnæði í Reykjavík. Það húsnæði var reyndar einnig notað til þess að setja fyrsta fund Alþingis 1845 eftir að Alþingi var endurreist.

Nú er það ljóst að Menntaskólinn í Reykjavík, eins og hann heitir nú, er yfirfullur af nemendum og býr við gríðarleg þrengsli eins og reyndar flestir framhaldsskólar á höfuðborgarsvæðinu og mun vart úr rætast fyrr en hér kemur til nýr skóli sem þegar er hafin bygging á, þ.e. skólinn í Borgarholti. En vegna þessa afmælis og vegna þessa merka húss og þessarar merku menntastofnunar langar mig að spyrja hæstv. menntmrh. eftirfarandi spurninga:

,,1. Hvernig hyggjast stjórnvöld minnast þess að á næsta ári verða liðin 150 ár frá því að Latínuskólinn (MR) var fluttur frá Bessastöðum til Reykjavíkur?

2. Hvaða áform eru uppi varðandi varðveislu og endurbætur á gömlu skólahúsunum?

3. Hvernig er áformað að draga úr álagi á gömlu húsin og leysa húsnæðisvanda Menntaskólans í Reykjavík til frambúðar?``

Því er við að bæta, eins og hér kemur fram, að gömlu húsin sem tilheyra Menntaskólanum í Reykjavík eru með allra merkustu húsum hér í borginni og það er spurning hversu mikið álag svona gömul hús þola, en ég held að það hljóti að vera ósk flestra að þarna verði áfram skólastarfsemi, en það verður auðvitað að vera eitthvert hóf á. Jafnframt því að þarna er merkur áfangi fram undan er vert að velta fyrir sér þessum spurningum.