Samningsstjórnun

Miðvikudaginn 18. október 1995, kl. 14:29:31 (433)

1995-10-18 14:29:31# 120. lþ. 15.5 fundur 26. mál: #A samningsstjórnun# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., Fyrirspyrjandi KÁ
[prenta uppsett í dálka]

Fyrirspyrjandi (Kristín Ástgeirsdóttir):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. fjmrh. fyrir þessi svör. Mér þótti þetta afar athyglisvert sem hann var hér að lýsa. Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar og við kvennalistakonur að það ætti að auka sjálfstæði ríkisstofnana og gera þær ábyrgari fyrir því hvernig peningar skattborgaranna eru nýttir, ábyrgari en þeir hafa verið hingað til. Þess vegna finnst mér þetta mjög athyglisverð tilraun sem þarna hefur átt sér stað og er verið að gera og er fram undan.

Þá lá ekki í mínum spurningum að það þyrfti að vera um einhvern niðurskurð að ræða eða það væri verið að draga saman fjárveitingar til viðkomandi stofnana heldur kannski fyrst og fremst það að í þessum hugmyndum felst það að nýta peningana betur og kannski öðruvísi og gefa stofnununum tækifæri til þess að nýta sjálfar peningana betur í stað þess hvernig allt hefur verið rígneglt niður í ákveðnum fjárveitingum til ákveðinna hluta. Við vitum hvernig það er að þeir sem starfa sjálfir við framkvæmd geta haft ýmsar hugmyndir um breytingar sem kannski tekur langan tíma að koma í gegnum stjórnkerfið en þegar ákveðið frelsi er veitt, þá leiðir það kannski af sér ákveðnar nýjungar og nýskipan. Það kemur mér ekki á óvart að Kvennaskólinn í Reykjavík skuli skila af sér skýrslu og að þar sé mönnum annt um að vinna þetta verkefni vel, ég þekki þar til innan dyra. En það verður mjög spennandi að fylgjast með framkvæmd þessara mála og frekari samningum og ekki síst því hvernig sveitarfélögin nýta sér þetta form. Ég vona bara að hæstv. fjmrh. leyfi okkur að fylgjast með þessari nýskipan sem er hin merkasta.