Jafnréttisáform

Miðvikudaginn 18. október 1995, kl. 14:37:01 (436)

1995-10-18 14:37:01# 120. lþ. 15.6 fundur 27. mál: #A jafnréttisáform# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., fjmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson):

Virðulegi forseti. Fsp. er í tveimur liðum. Fyrst er spurt: Hvernig hyggst ráðherra taka jafnrétti karla og kvenna til sérstakrar skoðunar? Í annan stað er spurt: Hvert verður markmið slíkrar skoðunar?

Ég kýs að svara fyrirspurninni með þeim hætti að gera fyrst grein fyrir því markmiði sem ég tel að athugun á jafnréttismálum eigi að beinast að og síðan vil ég víkja að hvernig áformað er að standa að slíkri athugun.

Á undanförnum árum en þó einkum síðustu missirum hefur mikið verið rætt um stöðu jafnréttismála. Ég tel að þó að margt nýtilegt hafi komið fram, þá hafi a.m.k. ekki náðst full samstaða um það hvaða þættir það eru í jafnréttismálum sem sérstaklega þarfnast athugunar og aðgerða. Ég vil hins vegar láta það koma sérstaklega fram hér sem mína skoðun að kynbundinn launamunur, þ.e. launamunur sem ákvarðast af kynferði en ekki öðrum þáttum, getur aldrei átt rétt á sér í okkar þjóðfélagi. Markmiðið með skoðun ráðuneytisins á þessum málum hlýtur því að taka mið af því. Frá sjónarhóli mínum eru athugunarefni þríþætt:

1. Athugun á launum karla og kvenna sem vinna sambærileg störf. Í því sambandi er nauðsynlegt að líta til stéttarfélagahópa þar sem telja verður að karlar og konur vinni sambærileg störf. Þá þarf að kanna föst laun starfsmanna og önnur laun sem starfinu tengjast. Hluti þess er að meta hver sé munur á starfsframa, vinnutíma og starfsbundnum réttindum kynjanna. Þessi atriði þarf að skoða bæði með tilliti til talnalegra staðreynda og mati á aðstæðum.

2. Þá þarf að skoða hvort skilgreina og afmarka á þá þætti sem sannanlega valda mismunun milli karla og kvenna. Án þess að vilja fullyrða of mikið um það efni þá held ég t.d. að fæðingarorlof skipti verulegu máli í því sambandi. Því á athugunin m.a. að beinast að því hvaða lögum og reglum þurfi að breyta til þess að ryðja slíkum hindrunum úr vegi. Önnur áþekk atriði kunna að skipta hér máli einnig.

3. Loks þarf að kanna hvort almennt viðhorf til jafnréttismála er annað hjá hinu opinbera heldur en hjá einkaaðilum. Um þetta hefur reyndar nokkuð verið fjallað í skýrslu Jafnréttisráðs og Félagsvísindastofnunar og það voru nokkrar millj. kr. veittar í áframhald þess verkefnis eins og menn vita og kemur fram í fjárlögum.

Þegar efnisþáttunum sleppir þarf að gera grein fyrir því hvernig skuli staðið að þessari skoðun og um það vil ég segja eftirfarandi:

Í fyrsta lagi hef ég falið nefnd að fjalla um starfsmannamál ríkisins. Í erindisbréfi nefndarinnar er tilgreint að jafnréttismál skuli koma til sérstakrar skoðunar. Nefndinni er ætlað að skila niðurstöðum fyrir árslok 1996, en áfangaáliti eftir því sem starfinu vindur fram.

Í öðru lagi er nú til sérstakrar athugunar í fjmrn. hvernig hefur verið haldið á jafnréttismálum þar, þ.e. í ráðuneytinu og stofnun á vegum þess. Í því sambandi er m.a. litið til könnunar Félagsvísindastofnunar um jafnréttismál og borið saman hvort fjmrn. sker sig úr þar á einhvern veg. Þessi athugun mun liggja fyrir innan tíðar. Það er reyndar alþekkt fyrirbæri, ekki bara hér á landi heldur einnig í nágrannalöndunum, að fjármál og efnahagsmál eru talin ,,macho``-mál. Eins og allir vita þá kunna konur ekkert í stærðfræði og skilja ekki tölur. Þess vegna eru það karlmenn sem fara með tölur og spyrja síðan konurnar á eftir: Þið skiljið væntanlega hvað við eigum við? Og það má vel vera að leifar af þessu finnist enn þá í fjmrn. og skyldum stofnunum og það þarf auðvitað að athuga það. Vona ég að það sem ég sagði nú hafi ekki verið tekið hátíðlega eða í alvöru, en samt fylgir gamninu nokkur alvara.

Í þriðja lagi hef ég ákveðið að sérstök kynning fari fram meðal stofnana á jafnréttismálum að því er tekur til launa, starfskjara og fleiri þátta. Þetta eru verkefni sem unnið verður að á næsta ári.

Í fjórða lagi vil ég minna á að núgildandi jafnréttisáætlun rennur út í árslok 1996 og það er mikilvægt að hafinn verði undirbúningur sem fyrst vegna gerðar nýrrar áætlunar og fjmrn. mun að sjálfsögðu vera reiðbúið til samstarfs við félmrn. í því efni.

Mér þykir vænt um þessa fyrirspurn sérstaklega vegna þess að því hefur verið haldið fram í umræðunum að það hafi hvergi verið minnst á jafnréttismál í frv. nema til þess að minnka bætur til ekkna til þess að þær yrðu jafnslæmar og hjá ekklum, en vona ég nú að það hafi runnið upp fyrir fólki að það er fleira í frv. Ég hef þegar nefnt að þar sé einnig gert ráð fyrir því að styrkja áfram þá skoðun sem fór fram á sínum tíma á vegum Félagsvísindastofnunar og Jafnréttisráðs.