Jafnréttisáform

Miðvikudaginn 18. október 1995, kl. 14:42:22 (437)

1995-10-18 14:42:22# 120. lþ. 15.6 fundur 27. mál: #A jafnréttisáform# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., SF
[prenta uppsett í dálka]

Siv Friðleifsdóttir:

Herra forseti. Mig langar sérstaklega að koma upp til að fagna mjög hve skýrt ráðherrann tók til orða áðan um að launamisréttið væri eitt alvarlegasta jafnréttisbrotið. En ég vil líka minna á að í gangi er vinna á vegum félmrn. um starfsmat sem tæki til þess að minnka launamun kynjanna. Sú vinna mun skila sér í skýrslu sem er væntanleg bráðlega og við munum einnig koma með tillögur um næstu skref.

Ég hef borið örlítinn ugg í brjósti gagnvart fjmrn., að það væri kannski ekki mjög opið fyrir þeim hugmyndum sem við erum að ræða í þessari starfsmatsnefnd, en eftir að hafa hlustað á málflutning hæstv. fjmrh. þá sé ég að sá uggur í mínu brjósti á væntanlega ekki rétt á sér þannig að ég fagna mjög því sem ég er að heyra úr ræðustóli.