Jafnréttisáform

Miðvikudaginn 18. október 1995, kl. 14:44:27 (439)

1995-10-18 14:44:27# 120. lþ. 15.6 fundur 27. mál: #A jafnréttisáform# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., Fyrirspyrjandi KÁ
[prenta uppsett í dálka]

Fyrirspyrjandi (Kristín Ástgeirsdóttir):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. fjmrh. og þeim þingmönnum sem hafa tekið þátt í umræðum hér. Mér þótti margt athyglisvert koma fram í máli hæstv. fjmrh. þó að ég taki undir það að við konur í landinu bíðum mjög óþreyjufullar eftir aðgerðum, sérstaklega til þess að draga úr launamun kynjanna. Þar er margt sem hægt er að gera fljótt og vel. En það er samt til mikilla bóta að sjá það að ráðuneytin séu sjálf farin að taka annars vegar á sínum innri málum, og hefði nú fyrr mátt vera, og hins vegar það að fjmrn., sem náttúrlega hefur yfirsýn yfir allar launagreiðslur ríkisstarfsmanna og það hvernig fjármunum er varið, skoði þetta allt í samhengi og fylgi eftir þeirri skýrslu sem var unnin af Félagsvísindastofnun að beiðni Jafnréttisráðs og var hvað mest til umræðu í kosningabaráttunni sl. vor. Það er svo sannarlega kominn tími til að ráðuneytin fari að gera eitthvað í þessum málum og fylgja eftir þeirri jafnréttisáætlun sem hefur verið samþykkt á hinu háa Alþingi og er reyndar til endurskoðunar núna. Allt er þetta góðra gjalda vert sem kemur fram varðandi það sem ætlunin er að gera innan ráðuneytisins. Auðvitað hafa verið kallaðar fram margs konar upplýsingar um launamun og um greiðslur, sem renna sérstaklega til karla, og þá ekki síst í ráðuneytunum eins og fjmrn. þar sem margir eru hátt launaðir en þar eru reyndar margar mjög hæfar konur líka og eins það, sem mér þótti nokkuð athyglisvert, að gera könnun á því hvort viðhorfin eru önnur hjá hinu opinbera en hjá einkamarkaðnum. Ég átta mig ekki á því hvort svo er. Mér sýnist, hæstv. forseti, að einkamarkaðurinn þverbrjóti jafnréttislögin og það gerir ríkið líka þannig að hér þarf svo sannarlega að taka á og við munum fylgjast grannt með því hverju fram vindur hjá hæstv. fjmrh. og fjmrn.