Stimpilgjöld

Miðvikudaginn 18. október 1995, kl. 14:49:25 (441)

1995-10-18 14:49:25# 120. lþ. 15.7 fundur 33. mál: #A stimpilgjöld# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., Fyrirspyrjandi KÁ
[prenta uppsett í dálka]

Fyrirspyrjandi (Kristín Ástgeirsdóttir):

Hæstv. forseti. Síðasta sumar átti sér stað nokkur umræða um stimpilgjöld í blaði allra landsmanna, Morgunblaðinu, þar sem m.a. var spurt hvort gjöld af því tagi séu ekki gamaldags og úreltur skattur. Hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson sagði mér fyrr í dag að vinnuveitendur hefðu um árabil reynt að fá ríkisvaldið til þess að afnema stimpilgjöld en án árangurs. Við vitum að stimpilgjöld snerta mjög marga landsmenn sem eiga í ýmiss konar viðskiptum en ég hygg að gjöld af þessu tagi eigi rætur að rekja til danska konungsveldisins og séu býsna gömul. Þjónustugjöld eru oftast eðlileg og fólk borgar fyrir veitta þjónustu en mér virðist sem á stundum geti stimpilgjöld verið mjög íþyngjandi fyrir þá aðila sem þurfa að greiða þau. Í frv. til fjárlaga fyrir árið 1996 kemur fram í 6. gr. að þar eru sex liðir sem hæstv. fjmrh. leitar eftir heimild til þess að fella niður stimpilgjöld og það vekur upp þær spurningar hversu íþyngjandi þau eru.

Mér lék forvitni á að vita hversu miklar tekjur ríkið hefur af stimpilgjöldum og hversu mikið er um það að þau séu felld niður. Er það t.d. í meira mæli en þessar beiðnir fela í sér og eru uppi áform í ráðuneytinu um að fella niður stimpilgjöld? Þetta eru þær spurningar sem eru á þskj. 33. Ég ætla ekki að lesa þær nákvæmlega en bíð spennt eftir svörum hæstv. fjmrh.