Stimpilgjöld

Miðvikudaginn 18. október 1995, kl. 14:51:35 (442)

1995-10-18 14:51:35# 120. lþ. 15.7 fundur 33. mál: #A stimpilgjöld# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., fjmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson):

Virðulegi forseti. Sem svar við fyrstu fyrirspurninni: Hversu miklar eru tekjur ríkissjóðs af stimpilgjöldunum það sem af er árinu 1995? er því til að svara að til septemberloka voru tekjur af stimpilgjöldum 1 milljarður 622 millj. 999 þús. 896 kr. eða rúmlega 1,6 milljarðar. Stimpilsektir, þ.e. sem mér skilst að framkallist þegar of seint er komið með skjöl, voru á sama tíma 4 millj. 650 þús. 639 kr.

Í öðru lagi er spurt: Hversu mikið hefur fjmrn. fellt niður af stimpilgjöldum það sem af ársins? Því er til að svara að í 6. gr. fjárlaga fyrir árið 1995 eru tvær heimildir til niðurfellingar stimpilgjalda sem hafa verið nýttar. Annars vegar hefur stimpilgjald að fjárhæð 771.909 kr., þ.e. um það bil 772 þús. af skuldabréfi sem Spölur hf. hefur gefið út í tengslum við fjármögnun jarðganga. Það er í lið 2.5 í 6. gr. Hins vegar hefur stimpilgjald að fjárhæð 29,5 millj. verið fellt niður vegna veðskulda sem hvíla á B-737 400 flugvél sem Flugleiðir hf. hafa gert leigusamning um, sbr. 6. gr., lið 2.8. Þetta eru samtals 30,3 millj.

Þegar spurt er um áfram að fella niður stimpilgjöld þá er því til að svara að nefnd sem hefur starfað á vegum fjmrn. hefur reyndar útbúið drög að lagafrv. til breytinga á stimpilgjöldum. Stimpilgjöldin eru óneitanlega tekjustofn sem munar talsvert um og ég sé ekki í fljótu bragði að okkur takist að fella þau niður en það má hins vegar gera ýmsar breytingar á stimpilgjöldunum sem ég held að hafi þýðingu. Það sem hefur komið fram í nefndarstarfinu og ég vil nefna hér og geri það að sjálfsögðu alveg án ábyrgðar á því hvort það verður endanlega niðurstaðan er að í fyrsta lagi þarf nauðsynlega að tengja stimpilgjöldin lánstímanum. Það er mjög óeðlilegt að menn borgi aðeins hlutfall af upphæðinni hvort sem skjalið er til eins mánaðar eða til margra ára. Það sjá allir í hendi sér.

Í öðru lagi má kannski breikka stofninn með því að taka stimpilgjald sem er vissulega skattur af eignaleigusamningum og kaupsamningum um lausafé en í þriðja lagi er ástæða til þess að undanþiggja markaðsverðbréf stimpilgjaldi þó þegar af þeirri ástæðu að slík viðskipti geta farið fram annars staðar en á Íslandi. Enginn vandi er að færa þessi viðskipti til.

Þá hefur verið bent á að í vátryggingarsamningum þurfi ávallt að miða stimpilgjaldið við iðgjald og loks þarf að kanna hvort ekki sé ástæða til að stimpilgjald sé ávallt tekið af sölu- og leigusamningum, t.d. með aflaheimildum sem er sívaxandi grein og í raun og veru ekkert öðruvísi en önnur viðskipti.

Þetta er það sem nefnt hefur verið þannig að svarið við fjórðu spurningunni er að það er ekki áformað að fella í heilu lagi niður stimplgjöld sem gjaldstofn eða skattstofn til ríkisins en fyrirhugað er að breyta stimpilgjöldunum og verða þá væntanlega þau viðhorf sem ég hef nefnt höfð til viðmiðunar.

Ég sé ekki ástæðu til þess, virðulegi forseti, að fara nánar ofan í þessar undanþáguheimildir en það hefur lengi verið svo að það hafa verið inni heimildir í fjárlögum. Sumar þeirra eru úreltar að ég tel eins og heimildir vegna skipasmíða þegar um er að ræða erlend lán sem tekin eru með samþykki Fiskveiðasjóðs en það hefur frá ómunatíð tíðkast að skjöl vegna flugvélakaupa hafa farið inn á 6. gr. Ef ég man rétt er einkum munur í lögum á því hvort menn eru að kaupa flugvélar annars vegar eða skip hins vegar. Ég kann það ekki nægilega vel til þess að fara frekar út í það en vænti þess að þetta hafi svarað fyrirspurnum hv. þm.