Sala ríkiseigna

Miðvikudaginn 18. október 1995, kl. 15:05:11 (446)

1995-10-18 15:05:11# 120. lþ. 15.8 fundur 34. mál: #A sala ríkiseigna# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., Fyrirspyrjandi KÁ
[prenta uppsett í dálka]

Fyrirspyrjandi (Kristín Ástgeirsdóttir):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. fjmrh. fyrir þessi svör og allt er þetta mjög upplýsandi sem hér kemur fram. Það kom fram í svari hans að árið 1994 hafa eignir verið seldar fyrir 600 millj. og fyrir 318 millj. það sem af er þessu ári og enn væri gaman að vita hvernig þetta er í samanburði við fyrri ár. Ég held að þetta sé nokkuð svipað ár frá ári þó að einkavæðingaráformin komi misjafnlega inn í þetta eftir því hvernig hefur gengið á hverju ári.

Það er svo sem ekki miklu meira um þetta að segja. Þetta er athyglisvert og í rauninni finnst mér að við þingmenn ættum að fá yfirlit á hverju einasta ári hvað verður um þessar eignir og þær heimildir sem verið er að leita eftir í 6. gr. fjárlaga. Ég skil það mjög vel og veit það mjög vel að það er eðlilegt að þær ríkisstofnanir, B-stofnanir eða sem hafa sjálfstæðan rekstur eins og Póstur og sími, annist þetta sjálfar enda er hér fyrst og fremst verið að fiska eftir því sem fer næstum því beint í gegnum ríkissjóð. Ég ítreka þökk fyrir þessi svör.