Kaup á eignum

Miðvikudaginn 18. október 1995, kl. 15:07:00 (447)

1995-10-18 15:07:00# 120. lþ. 15.9 fundur 35. mál: #A kaup á eignum# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., Fyrirspyrjandi KÁ
[prenta uppsett í dálka]

Fyrirspyrjandi (Kristín Ástgeirsdóttir):

Hæstv. forseti. Hér er komið að síðustu fyrirspurninni og hefur fjmrh. lagt af mörkum miklar upplýsingar á þessum degi. Þessi fyrirspurn er í beinu framhaldi af hinni síðustu þar sem spurt var um sölu á eignum en hér er spurt um kaup á eignum ríkisins á árinu 1994 og það sem af er ársins 1995. Hér er sama sundurgreining. Það er spurt um húseignir, jarðir, fyrirtæki eða hluta úr fyrirtækjum, aðrar eignir og hversu miklu fé var varið til eignakaupa á árinu 1994 og það sem af er árinu 1995.

Ég veit að það er ýmislegt fram undan, m.a. hjá utanrrn., ekki eingöngu hér á landi heldur líka erlendis og menn eru ár eftir ár með ýmsar hugleiðingar, t.d. að selja sendiherrabústaðinn í New York og víðar er verið að velta fyrir sér slíkum málum. Það er reyndar vert að fylgjast með því hverju fram vindur en ég ætla að bíða svara hæstv. fjmrh. við þessum fyrirspurnum.