Kaup á eignum

Miðvikudaginn 18. október 1995, kl. 15:08:13 (448)

1995-10-18 15:08:13# 120. lþ. 15.9 fundur 35. mál: #A kaup á eignum# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., fjmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson):

Virðulegi forseti. Þetta er eiginlega hin hliðin á síðustu fyrirspurn. Ég mun koma strax að svarinu. Á árinu 1994 voru samtals 32 fasteignir keyptar fyrir ríkið á vegum ráðuneytisins eða með samþykki þess. Kaupin skiptast þannig: 27 húseignir, kaupverð 532 millj. kr. Sex jarðir, kaupverð 32,9 millj. Það sem af er þessu ári hafa 13 fasteignir verið keyptar, þ.e. 12 húseignir, kaupverð 128,8 millj og ein lóð hefur verið keypt á eina milljón. Samtals 129,8 millj. kr. Til samanburðar má geta þess sem kom fram í síðasta svari að seldar voru eignir á sl. ári fyrir 600 millj., keyptar fyrir 565 millj. Það sem af er árinu voru keyptar eignir fyrir tæplega 130 millj. en seldar fyrir 318 millj. og munar þar mest um Lyfjaverslun Íslands eða 200 millj. Að einkavæðinguni frátalinni stendur þannig á a.m.k. þessum tölum fyrir þessi tvö tímabil að kaup og sala eru nokkurn veginn í jafnvægi. Það kann þó að vera alger hending og ég vil ekki fullyrða að það gerist þannig frá ári til árs.

Vegna þess sem kom fram hjá hv. þm. um upplýsingar af þessu tagi finnst mér vel koma til greina að það birtist heildaryfirlit yfir kaup og sölu t.d. í fjárlagafrv. og ég skal koma þeirri ósk til starfsmanna ráðuneytisins. Ég efast um að það þjóni tilgangi að birta nöfn kaupenda og seljenda og slíkt af því að sumar upplýsingarnar eru að sjálfsögðu viðkvæmar, ekki síst þegar um er að ræða kaup á eignum á uppboði.