Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 19. október 1995, kl. 11:07:01 (453)

1995-10-19 11:07:01# 120. lþ. 16.1 fundur 47#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), SJS
[prenta uppsett í dálka]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Við höfum nú hlýtt á nýjan utanrrh. flytja sína fyrstu stefnuræðu. Eins og vænta mátti var þar lögð mikil áhersla á utanríkispólitísk málefni sem tengjast sjávarútvegi og hafinu og það er gott að hafa utanrrh. á Íslandi sem sýnir þeim málum sérstakan áhuga. Að öðru leyti var hér flutt tiltölulega hefðbundin stefnuræða utanrrh. eins og þær hafa verið undanfarin ár. Óþarflega hefðbundin að mínu mati. Það hefði verið ánægjulegt ef ferskari vindar hefðu leikið um þennan málaflokk með tilkomu nýs ráðherra úr nýjum flokki sem fer með utanríkismál. En því var ekki fyrir að fara að mínu mati, að slepptu þessu sem ég hef þegar nefnt, að í ræðunni var með myndarlegum hætti farið yfir ýmislegt sem varðar utanríkispólitíska hagsmuni sjávarútvegsins.

Á bls. 2 er í kafla um auðlinda-, umhverfis- og norðurslóðamál fjallað um deilur okkar við nágranna í norðri og austri um Barentshafið og ég mun koma betur að þeim þætti síðar. Þar segir utanrrh. réttilega að bræðraþjóðum eins og Íslendingum og Norðmönnum sé ekki sæmandi að standa í langvinnum deilum um sameiginleg hagsmunamál. Undir það get ég tekið. En það þarf tvo til að deila og það þarf líka tvo til að semja. Og það er nauðsynlegt að menn hafi í huga að þarna verða engir samningar fyrr en báðir aðilar átta sig á nauðsyn þess að svo verði.

Á þriðju blaðsíðu er fjallað um, í sama kafla og í kafla um Norðurlönd og Eystrasaltssvæðið, undirbúning að stofnun Norðurskautsráðsins og ég vil taka undir með hæstv. ráðherra og fagna framgangi þess máls. Ég tel mjög mikilvægt að Íslendingar undirbúi þátttöku sína í Norðurskautsráðinu og vil í því sambandi nefna að innan Vestnorræna þingmannaráðsins hefur verið rætt um mögulegt samstarf þeirra þjóða hvað varðar þátttöku í Norðurskautsráðinu og hugsanlegt að það samstarf snerist í vaxandi mæli um slíka samvinnu og sameiginlega þátttöku á komandi árum.

Þá vík ég að kaflanum um þróun öryggismála. Þar eru nefndar til sögunnar, meira og minna í einum hrærigraut, ýmsar ólíkar stofnanir, allt frá Stofnuninni um öryggi og samvinnu í Evrópu og Evrópuráðinu annars vegar og yfir í Atlantshafsbandalagið og skilgetin afkvæmi þess hernaðarbandalags hins vegar. Ég get að sjálfsögðu tekið undir það að við Íslendingar eigum að efla starfsemi okkar innan lýðræðislegra uppbyggðra stofnana sjálfstæðra og fullvalda þjóða, eins og Stofnunarinnar um öryggi og samvinnu í Evrópu, þátttöku í Evrópuráðinu o.s.frv. En ég er ekki sammála hæstv. ráðherra um þær áherslur sem hann leggur á hlut Atlantshafsbandalagsins eða NATO og satt best að segja er hér enn á ferðinni, eins og verið hefur í textum utanrrh. undanfarin ár, vandræðalegur kafli um það sem hér er nefnt aðlögun Atlantshafsbandalagsins, en hefur manna á meðal gengið undanfarin ár undir heitinu ,,leitin að nýjum verkefnum`` fyrir þetta hernaðarbandalag, sem meira og minna hefur verið að vandræðast með sjálft sig undanfarin ár.

Á bls. 5 er líka fjallað um þá miklu óvissutíma sem nú séu uppi og það er dálítið merkilegt að ég minnist þess ekki, hvort sem meira eða minna hefur gengið á, en að það sé ekki þannig í ræðum íslenskra utanrrh. að það séu alltaf miklir óvissutímar. Menn hafa jafnvel í gegnum tíðina þurft að fara svo langt sem austur til Kóreu til að finna óvissutíma til að réttlæta afstöðu sína í utanríkismálum heima á Íslandi. Hér er fjallað um óvissutíma einu sinn enn og ég vil leyfa mér, með leyfi forseta, aðeins að drepa niður í það. Þar segir:

,,Á þessum óvissutímum, þar sem jafnvel fámennir hópar öfgamanna geta valdið usla í rótgrónum samfélögum, er það lykilatriði fyrir hverja sjálfstæða lýðræðisþjóð að sýnilegar varnir séu til staðar``.

Ég hugsaði með mér: Þarna kemur það. Þarna er komið að hernum menntmrh. En það var nú reyndar ekki. Hér er ekki fjallað um nauðsyn þess að taka upp innlendan her, en röksemdafærslan er sú sama og hæstv. menntmrh. hafði fyrir því að nauðsynlegt væri að setja á stofn innlendan her, að fámennir öfgahópar gætu valdið miklum usla og jafnvel hertekið Seðlabankann. Þess vegna væri nauðsynlegt að hafa varnarsveit til að passa upp á hann. En af einhverjum ástæðum er ekki fjallað um þetta óvænta frumkvæði og þetta liðsinni sem hæstv. utanrrh. fékk við sinn málaflokk frá menntmrh. á dögunum. Það er ekki minnst hér einu orði á hugmyndir menntmrh. um að taka upp innlendan her og það væri fróðlegt að hæstv. utanrrh. kæmi inn á það í svörum síðar meir, hvernig það mál standi innan ríkisstjórnarinnar. Hefur hæstv. menntmrh. tekið það formlega upp og hver eru viðhorf hæstv. utanrrh.? Nei, þvert á móti er hér því miður um að ræða ósköp hefðbundna, klisjukennda framsetningu íslenskra utanrrh. á þessum kanti til þess að réttlæta óbreytta stöðu mála varðandi veru hersins í landinu og aðild okkar að hernaðarbandalagi.

Þá kem ég næst að kafla um afvopnunarmál, sem mér finnst því miður harla fátæklegur, herra forseti. Ræða ráðherra var ítarleg að ýmsu leyti og auðvitað er ekki hægt að koma þar öllu fyrir, en ég sakna þess að jafnsnautlegur kafli og lítill skuli vera í ræðunni um afvopnunarmál. Það eru fjórar línur á bls. 6 og sennilega tæpar 10 á bls. 7. Það er allt og sumt og þar eru ekki nefndir til sögunnar fjölmargir viðamiklir þættir sem ég hefði talið ástæðu til að koma inn á og ekki síst ástæðu til í umfjöllun um þessi mál hér á Íslandi á þjóðþingi vopnlausrar smáþjóðar. Ég hefði gjarnan viljað sjá hæstv. ráðherra fjalla meira um afvopnunarmál en minna um hernaðarbandalög. Ég nefni þar til að mynda þær viðræður eða þær umræður sem nú fara fram víða um nauðsyn þess að taka upp takmarkanir á vopnasölu og vopnaviðskiptum í heiminum.

Ég er þeirrar skoðunar að eitt allra mikilvægasta verkefnið til þess að reyna að tryggja friðsamlegri framtíð í heiminum sé að ná tökum á mesta siðleysi sem viðgengst í heimnum í dag og það er vopnasala iðnríkjanna og stórveldanna til þriðja heimsins. Það er sú gífurlega upphleðsla vopna og það siðleysi sem felst í því að hinar ríku og velmegandi þjóðir okra á vopnum í viðskiptum við þriðja heiminn. Þessi viðskipti eru eftirlitslaus og sáralitlar upplýsingar eru veittar um það hvað þar fer fram. Þarna hafa menn mikið rætt um nauðsyn þess að breyting verði á, að unnt sé í fyrsta lagi að veita gagnsæjar upplýsingar um vopnaviðskipti og í öðru lagi að takmarka þau þar sem efni standi til og það er víða.

Svo er minnst á Júgóslavíu og það fært fram NATO til tekna að það hafi enginn ráðið þar neitt við neitt fyrr en NATO hafi komið til sögunnar og Bandaríkin með sitt frumkvæði. Ég veit ekki betur en þessir aðilar báðir, ásamt Evrópusambandinu og Sameinuðu þjóðunum, hafi horft grútmáttlausir á þá styrjöld sem þar hefur farið fram árum saman. Og er það lærdómurinn, er það niðurstaðan að það þurfi meiri vígbúnað og sterkari hernaðarbandalög til þess að stilla til friðar í heiminum? Er það boðskapurinn hér í ræðunni, hæstv. utanrrh.?

[11:00]

Ég tel að lærdómurinn af ástandinu í Júgóslavíu sé fyrst og fremst einn: Hann er sá að þar sem vopnin eru til staðar, þar sem þau hlaðast upp og að öðru leyti eru fyrir hendi stjórnmálalegar, trúarbragðalegar eða landfræðilegar aðstæður og hætta á að þau séu notuð, þá verði þau notuð þannig að lausnin sé ekki meiri vopn og ekki meiri vígbúnaður, heldur afvopnun og reglur um þá hluti. Mér finnst það í raun og veru að snúa hlutunum á haus að nefna ástandið á Balkanskaganum í sömu andrá og til réttlætingar framgöngu þessara aðila á þessu svæði.

Í ræðunni er ekki fjallað sérstaklega um ástand mála á einstökum svæðum. Ég geri ráð fyrir því að það verði viðfangsefni hinnar skriflegu skýrslu þegar hún kemur fyrir þingið eins og venja er seinna á þinginu og þá í ítarlegra máli og ég ætla þess vegna fyrst og fremst að nefna þar tvennt. Það er ástand mála í Írak, þá hungursneyð og þá neyð sem þar er í landinu vegna viðskiptabanns hins alþjóðlega samfélags á þjóðina sem fyrst og fremst bitnar á börnum og almenningi og skora ég á hæstv. utanrrh. að endurskoða afstöðu sína og Íslands til þess máls. Ég minni á þá tillögu sem liggur í utanrmn. um að Íslendingar beiti sér á alþjóðavettvangi fyrir því að viðskiptabannið á Írak verði tekið til endurskoðunar.

Í öðru lagi vil ég nefna málefni Kúrda og af því að mikið er verið að hrósa NATO í þessari ræðu, þá er okkur skylt að taka það mál upp þar sem lýðræðis- og bræðraþjóðin Tyrkir ber þar öllum öðrum fremur ábyrgð á þeim mannréttindabrotum, þeirri sláturtíð sem stendur yfir gagnvart Kúrdum í Tyrklandi og reyndar víðar þar sem sú þjóð eða þær þjóðir búa. Þingmenn Kúrda eru fangelsaðir, kúrdíski verkamannaflokkurinn er ofsóttur og farið með hernaði jafnvel inn í önnur lönd til þess að herja á þessa landlausu þjóð. Það væri Íslendingum nær að taka upp hanskann fyrir ástand mála þar og halda uppi einhverri vörn fyrir þeirra stöðu.

Að síðustu, herra forseti, ætla ég svo aftur að víkja að því sem ég nefndi í upphafi, það er ástand mála í Barentshafinu og samningaviðræður sem nú standa vonandi yfir við Rússa og Norðmenn um þau mál. Ég held að það sé fagnaðarefni að þar virðast loksins vera komnar í gang, að segja má í fyrsta sinn, alvarlegar viðræður og vonandi er það svo að samningsniðurstaða geti orðið þar í sjónmáli innan skamms. Ég segi af tveimur ástæðum vonandi. Auðvitað er það í fyrsta lagi þannig að við höfum enga ánægju af því að standa í slíkum deilum og það er ekki til lengri tíma litið neinum til góðs að slík mál séu óútkljáð. Að hinu leytinu er ljóst að nú eru betri forsendur að mörgu leyti til þess að ganga frá málinu í ljósi þess að niðurstaða hefur náðst í viðræðum í New York um úthafsveiðimál og samningur um úthafsveiðar liggur fyrir. En ég tel ljóst að það verði enginn samningur sem við Íslendingar getum skrifað undir eða staðið að nema réttur okkar sé þar varanlega og vel tryggður og það er kannski sú þróun sem ánægjuleg er þrátt fyrir allt í málinu að viðræðurnar nú eru til marks um það að Norðmönnum og Rússum er loksins orðið ljóst að þeir munu ekki leysa þessa deilu nema semja við Íslendinga um varanlegar veiðiheimildir á þessum slóðum. Og ætli það sé þá ekki þannig að lokum að eitthvað sé að hafast upp úr krafsinu. Þeim mönnum sem lögðust gegn því í byrjun að við færum til þessara veiða væri hollt að hugsa um það. Staðreyndin er sú að hvort heldur sem litið er til aðstæðna sem áður ríktu á þessu hafsvæði eða til úthafsveiðisamnings Sameinuðu þjóðanna, þá eru engar forsendur til annars en að Norðmenn og Rússar viðurkenni veiðimöguleikana á þessu svæði. Það hefur verið sýnt fram á veiðanleika þarna svo að nemur tugum þúsunda tonna af þorski ár eftir ár af íslenskum skipum á þessu alþjóðlega hafsvæði. Norðmenn og Rússar hafa hingað til ekki fallist á að taka þennan veiðimöguleika með í reikninginn þegar útdeilt er veiðiheimildum en það verða þeir að gera og á því á samningurinn að grundvallast. Ég ætla ekki að nefna hér tölur eða fara að öðru leyti inn í einstaka efnisþætti, með tilliti til viðkvæmra aðstæðna í málinu, þar sem þannig háttar nú einmitt til að samningafundur stendur yfir í Moskvu. En ég vil segja um annan þátt þessa máls hvað varðar tengsl samningsniðurstöðu í Barentshafssmugunni við réttarstöðuna á Svalbarðasvæðinu að það er mín skoðun að það komi ekki til greina, þrátt fyrir einlægan vilja okkar til þess að ná þar samningi, að við afsölum okkur með varanlegum hætti nokkrum réttindum á Svalbarðasvæðinu sem leitt gætu af þeirri réttaróvissu sem þar ríkir. Íslendingar eiga með öðrum orðum að mínu mati að halda áfram til haga þeim fyrirvara sem við gerðum við sjálftöku Norðmanna á þessu svæði þegar við gerðumst aðilar að Svalbarðasvæðinu. Þetta tvennt verður að hafa aðskilið. Eitt er það að við gerum samning við Norðmenn sem taka til nýtingar fiskstofna á þessu hafsvæði og stjórnunar í því sambandi, en hitt er hin varanlega og lagalega réttarstaða á svæðinu og þar getur að mínu mati ekki komið til álita að semja af okkur möguleg réttindi. Ég segi: Það er nóg að hafa einn Jan Mayen-samning. Það er meira en nóg.

Að lokum vil ég svo leggja áherslu á að það er víðar verk að vinna, herra forseti, heldur en að leysa þessa deilu sem snýr að Barentshafinu. Það er afar mikilvægt að ná samningum um norsk-íslensku síldina og stjórnun mála í síldarsmugunni svonefndu til aðgreiningar frá hinni. Það er mikilvægt að við náum árangri í samskiptum við okkar næstu granna. Við þurfum að ná tvíhliða samningum við Grænlendinga um ýmsa stofna eins og rækju, grálúðu og karfa. Við þurfum að ná samstarfi við bæði Grænlendinga og Færeyinga um viss mál sem tengjast hafsvæðunum hér suður undan landinu. Við þurfum að undirbúa hvernig við stöndum að fullnustu og framkvæmd úthafsveiðisamningsins varðandi Reykjaneshrygg og fleiri slík svæði. Það er með öðrum orðum mikið verk að vinna í þessu efni, herra forseti, og mikil þörf á því að íslensk stjórnvöld leggi í þetta tíma og orku. Um þá stefnumótun sem þarna þarf að eiga sér stað þarf eðli málsins samkvæmt að eiga sér stað gott, pólitískt samráð.