Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 19. október 1995, kl. 11:41:24 (455)

1995-10-19 11:41:24# 120. lþ. 16.1 fundur 47#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), GHH
[prenta uppsett í dálka]

Geir H. Haarde:

Virðulegi forseti. Það vekur ævinlega nokkra athygli þegar nýr utanrrh. flytur fyrstu skýrslu sína á Alþingi. Ég þakka honum ágæta skýrslu þar sem er komið víða við um þennan mikilvæga og fjölbreytta málaflokk. Ég tel að skýrslan gefi góða mynd af stöðu mála að því er varðar helstu hagsmunamál Íslandinga og reyndar er þar vikið að ýmsum málum fleirum.

Það er rétt sem komið hefur fram í umræðunni að heimsmyndin hefur verið að breytast með ótrúlegum hraða undanfarin ár. Það hafa orðið gríðarlegar breytingar síðan við ræddum um utanríkismál á þinginu t.d. fyrir sex árum. Öll þekkjum við hverjar breytingarnar eru, hrun kommúnismans í Mið- og Austur-Evrópu, samrunaþróunin í Vestur-Evrópu en þar fyrir utan gríðarlegar breytingar í öðrum heimshlutum sem okkur hættir stundum til að fylgjast ekki með, leggja ekki áherslu á, gríðarlegur uppvöxtur í Asíulöndum en kannski síðast en ekki síst sigur lýðræðisins á ótrúlegustu stöðum víða um heim, sem áður máttu búa við einræði, herforingjastjórnir og annað þess háttar. Þetta eru allt saman gríðarlega mikilvægar breytingar. Allt hefur þetta áhrif á okkar eigin hagsmuni, áhrif á stöðu Íslands, hvert með sínum hætti. Það eru nýir átakafletir í heimsmálunum. Það eru ýmiss konar nýir straumar sem hafa áhrif sem gerðu það ekki með sama hætti áður. Ég vek athygli á auknum áhrifum islams og ég vek athygli á því að átök sem fara nú fram í heiminum eru í miklu ríkari mæli en áður innan ríkja eða innan ríkja sem áður voru ein heild frekar en milli ríkja. Í þessu sambandi kemur auðvitað fyrst í hug ástandið í fyrrum Júgóslavíu og það má nefna Tsétseníu og mörg fleiri atriði sem sumir ræðumanna hafa þegar komið hér að.

Ég hafði ekki hugsað mér að fjalla um þessi mál í þessari stuttu ræðu. Utanrrh. mun vafalaust gera ítarlegri grein fyrir þessu í sinni skriflegu skýrslu en mig langar að víkja að nokkrum atriðum sem fram koma í skýrslunni sem snerta einkum okkar eigin hagsmuni.

Stundum hefur verið sagt að hornsteinarnir í íslenskri utanríkisstefnu séu fjórir: Aðildin að Sameinuðu þjóðunum, hið norræna samstarf, aðildin að Atlantshafsbandalaginu og hin síðari ár hefur verið lögð áhersla á aðild Íslands að alls kyns fríverslunar- og alþjóðaviðskiptasamstarfi. Allt skiptir þetta miklu máli enn í dag þó að margt sé breytt að því er varðar forsendur fyrir þessum þáttum.

Mig langar að víkja örlítið að Sameinuðu þjóðunum eins og hæstv. utanrrh. gerði í upphafi sinnar skýrslu. Sameinuðu þjóðirnar eiga 50 ára afmæli um þessar mundir. Eigi að síður blasir við sú dapurlega staðreynd að aðildarþjóðir samtakanna skulda þeim á fjórða milljarð Bandaríkjadala í skuldbindingum sem þessar þjóðir hafa gengist undir en ekki staðið við. Þetta er auðvitað mjög dapurleg staðreynd. Ég tel að okkur beri skylda til þess hvar sem við höfum til þess áhrif að reyna að knýja á um það að aðildarríki Sameinuðu þjóðanna standi skil á þeim skuldbindingum sem þær hafa gengist undir í þessu sambandi. Ég held að talan sé 3,4 milljarðar dala í skuld. Ég held að 70 aðildarþjóðir eigi þar hlut að máli og ein aðildarþjóð, Bandaríkin, skuldar um það bil einn þriðja af þessari upphæð. Þetta eru dapurlegar staðreyndir. Okkur ber skylda til þess að vekja á þeim athygli og hvetja til þess að þjóðirnar geri upp skuldir sínar og standi skilvíslega skil á greiðslum sínum í framtíðinni vegna þess að þessi samtök skipta máli. Þau eru ekki bara upp á punt. Það er verið að fela þeim ný og ný verkefni í sambandi við friðargæslu og margs konar þjónustu við hina lakar settu í heiminum. Ef menn eru þeirrar skoðunar að það eigi ekki að fá það fjármagn sem þau þurfa til starfsemi sinnar eiga menn að segja það hreint út að þeir vilji ekki vera þar með eða þá leggja til að þau verði lögð niður.

Hæstv. utanrrh. vék nokkuð í skýrslu sinni að hinu norræna samstarfi. Auðvitað er ástæðulaust að fjölyrða um það í þessum ræðusal hversu mikilvægt þetta samstarf er fyrir okkur Íslendinga. En þó er ástæða til þess að drepa á nokkur atriði í því sambandi vegna þess að þar eru núna á döfinni mjög miklar breytingar. Þær breytingar standa í samhengi við þá þróun sem orðið hefur í Evrópu og aðild Norðurlandanna þriggja að Evrópusamstarfinu.

Sumir hafa haft af því áhyggjur að með því að þrjú Norðurlandanna væru orðin aðilar að Evrópusambandinu værum við hin, Íslendingar og Norðmenn, Grænlendingar og Færeyingar, utan garðs í þessu samstarfi. Það er ekki raunin. Sú vinna sem nú er í gangi á þessum vettvangi beinist einmitt að því að tryggja að allar Norðurlandaþjóðirnar og sjálfstjórnarsvæðin hafi jafna möguleika á að nýta sér samstarfið, njóta þess sem þar er á boðstólum og fá þær upplýsingar og hvað eina annað sem kann að koma frá aðildarlöndum Evrópusambandsins inn í hið norræna samstarf. Það er fullur pólitískur vilji og ásetningur allra Norðurlandanna að viðhalda hinu norræna samstarfi. Ég veit ekki hvort allir gera sér grein fyrir mikilvægi þess fyrir okkur. Ég veit að menn gera það í þessum sal en það er dálítil lenska í þjóðfélaginu að gera lítið úr hinu norræna samstarfi. Ég skora á menn að hætta því. Ég skora á menn að gera sér grein fyrir mikilvægi þess samstarfs sem hefur í gegnum árin opnað okkur margvíslegar dyr og verið okkur mjög mikilvægur bakhjarl í samstarfi okkar við ýmsar aðrar þjóðir.

Ég nefni eitt atriði sérstaklega sem nú er á döfinni en ætla ekki að ræða þær skipulagsbreytingar sem eru yfirvofandi vegna þess að það gerum við í sérstakri umræðu um það mál. Í skýrslu ráðherrans er vikið að hinu svokallaða Norðurskautsráði sem er á döfinni að stofna með þátttöku Norðurlandanna, Rússlands, Kanada og Bandaríkjanna. Þar verður nýr vettvangur til þess að fjalla um sameiginleg hagsmunamál sem lúta að auðlindanýtingu, verndun umhverfisins og mörgum fleiri atriðum sem hafa því miður setið á hakanum á norðurslóðasvæðinu. Núna gefst vonandi sameiginlegur vettvangur til umfjöllunar um þau og ég fagna því sérstaklega að það virðist vera fullur vilji af hálfu Bandaríkjamanna til þess að taka þátt í þessu samstarfi.

Þriðji þátturinn og þriðji hornsteinninn í utanríkisstefnu Íslands í gegnum árin hefur verið aðildin að Atlantshafsbandalaginu. Um þann þátt hefur verið mikið deilt, bæði á Alþingi og í þjóðfélaginu. Ég legg ríka áherslu á það sem fram kemur í máli utanrrh. um þann þátt og lýsi auðvitað fullum stuðningi við sjónarmið hans í því máli. Þar eru á döfinni miklar breytingar og það vill þannig til að þau lönd sem áður hafa búið við ofríki kommúnismans og einræðisstjórnanna í austri vilja ganga inn í bandalagið. Þetta skapar auðvitað alveg nýjar forsendur. Þetta kallar á endurmat. Þetta kallar á nýtt hagsmunamat og þetta kallar á mat á því hvernig Rússar bregðist við þessu. Þessi mál eru öll í deiglunni. Hlutirnir gerast hratt á þessum vettvangi eins og víðar í Evrópu og full ástæða er til þess fyrir okkur að leggja lóð okkar á vogarskálarnar til þess að koma til móts við óskir þeirra landa sem þarna eiga hlut að máli en þó þannig eins og fram kemur í skýrslu ráðherrans að eigi sé hróflað við því jafnvægi sem nú þegar er fyrir hendi.

Það er mikilvægt eins og síðasti ræðumaður gat um, hæstv. fyrrv. utanrrh., að það varnarsamstarf, sem hefur verið í gildi og samið hefur verið um við Bandaríkin, haldi áfram óbreytt. Ég geri mér vonir um að í þeim samningum sem eru nú fram undan og þeim viðræðum sem nú fara fram við fulltrúa Bandaríkjastjórnar um samstarfið á Keflavíkurflugvelli náist samstaða um að framlengja því samkomulagi sem er í gildi og hefur verið undanfarin tæp tvö ár.

Það er merkilegt að þrátt fyrir miklar breytingar í heimsmálum og þrátt fyrir allt sem ég hef rakið í sambandi við breytta stöðu heimsmála er eitt sem hefur ekki breyst og það er útúrboruhátturinn í Alþb. Eitt af því sem kom fram á landsfundi þeirra nú fyrir skemmstu er það að Alþb. er enn að blása í þann gamla lúður að Ísland eigi að fara úr NATO og herinn burt. Ég verð að segja að mér kom þetta nokkuð á óvart miðað við afstöðu fráfarandi formanns flokksins í þessum málum. En það virðist vera eitt af því fáa sem hægt er að sameina flokksmenn í Alþb. um, það er þetta gamla úrelta slagorð og ég segi fyrir mig að þetta er ekki lengur hlægilegt, það er beinlínis raunalegt að Alþb. einn stjórnmálaflokka nánast í Vestur-Evrópu skuli tala með þessum hætti og dæma sig úr leik í alvarlegri umræðu um þessi mál. (Gripið fram í.) Mér finnst þetta dapurlegt. Ég veit að hæstv. fyrrv. utanrrh. er mér sammála, ég var búinn að nefna það, þú varst bara ekki inni. (Gripið fram í.) En það vill þannig til að afstaða Alþb. í þessum efnum skiptir ekki miklu máli, ekki hér á Íslandi og enn síður annars staðar, en þetta er hins vegar gott dæmi um það þegar stjórnmálaflokkur trénast upp og hættir að fylgjast með tímanum.

Virðulegi forseti. Ég hef ekki tíma til þess að víkja að mörgum fleiri þáttum í þessari stuttu ræðu. Ég vil þó að lokum víkja að því sem ýmsir hafa gert hér að umtalsefni og það eru samningarnir við Norðmenn sem nú eru á döfinni. Ég vil láta það koma fram af minni hálfu að ég er eindreginn stuðningsmaður þess að þessar viðræður fari nú fram og lýsi stuðningi við þau samningsmarkmið sem ég veit að hæstv. utanrrh. hefur lagt upp með í þessum viðræðum.

Í Moskvu eiga sér stað í dag og næstu daga mikilvægir fundir um þessi mál. Það er mikilvægt að menn hagi þannig orðum sínum í þessari umræðu að það verði ekki mönnum til trafala sem þar standa í forsvari fyrir íslenska hagsmuni. Ég tel að það sé eins og fram kemur í ræðu og skýrslu ráðherrans ekki sæmandi fyrir Norðmenn og Íslendinga að standa í deilu sem þessari til langframa.

Ég tek líka undir það sem hv. 4. þm. Norðurl. e. sagði að til þess að leysa slík mál þurfa auðvitað báðir nokkuð fram að reiða og leggja á sig. Ég treysti því að um þetta takist að semja. Á þessu máli eru hins vegar fleiri fletir eins og kom fram í máli þess ræðumanns sem ég nefndi og einnig í máli síðasta ræðumanns að því er varðar Svalbarðasáttmálann, túlkunina á honum og það svæði allt. Þar er ljóst að lögfræðin í því efni er mun flóknari en Norðmenn hafa iðulega gefið til kynna enda er það rétt að þeir eiga þar stuðningsmenn fáa á alþjóðlegum vettvangi en ég ætla að neita mér um að ræða þau mál frekar á þessu stigi.

Að endingu ítreka ég það sem ég sagði í upphafi að ég óska utanrrh. til hamingju með sína fyrstu skýrslu um utanríkismál sem ég tel að sé mjög gott og yfirgripsmikið skjal og vænti góðs samstarfs við hann um þessi mál á kjörtímabilinu.