Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 19. október 1995, kl. 11:54:36 (456)

1995-10-19 11:54:36# 120. lþ. 16.1 fundur 47#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), JóhS
[prenta uppsett í dálka]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Þátttaka okkar í samfélagi þjóðanna hefur á umliðnum árum orðið æ mikilvægari og mun fara vaxandi á komandi árum. Þar hljótum við ávallt að standa vörð um sjálfstæði íslensku þjóðarinnar og taka þátt í samfélagi þjóðanna á jafnréttisgrundvelli.

Það er varla nokkrum vafa undirorpið að samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið og nýir GATT-samningar um viðskipta- og tollamál eru hvað mikilvægustu samningar sem Íslendingar hafa gert fyrir framtíð atvinnu- og efnahagsmála þjóðarinnar þar sem Íslendingar eru háðari utanríkisverslun en flestar aðrar þjóðir. Því veldur vonbrigðum að framkvæmdin á GATT-samningnum hér á landi mun illa skila sér til neytenda eins og að því máli hefur verið staðið en framkvæmdin hefur verið tómt klúður síðustu mánuðina.

Hæstv. utanrrh. benti réttilega á það í ræðu sinni að margir eru þeirrar skoðunar að sækja eigi um aðild að ESB en það sé ekki á stefnuskrá ríkisstjórnarinnar að fara þá leið. Ráðherrann hefur líka margt til síns máls þegar hann segir að engin vísbending hafi fengist um að Íslendingar gætu losnað undan ákvæðum Rómarsáttmálans um sameiginlega sjávarútvegsstefnu og vissulega er hægt að taka undir það að engin þjóð í Evrópu sé tilbúin að afhenda meginauðlind sína undir sameiginleg yfirráð. Við stöndum frammi fyrir því að væntanleg ríkjaráðstefna ESB á næsta ári mun geta haft afdrifaríka þýðingu fyrir þróun í Evrópu næstu árin. Áhrifin af hugsanlegri stækkun bandalagsins til austurs hefur þar veruleg áhrif og fyrir smáþjóð sem okkur verður líka athyglisvert að fylgjast með hvort dregið verði úr rétti aðildarríkja til að beita neitunarvaldi. Íslendingar verða því að fylgjast vel með þessari þróun og kanna vel kosti og galla hugsanlegrar aðildar að ESB en við þurfum að vera reiðubúnir að endurmeta stöðuna í ljósi breyttra aðstæðna hverju sinni.

Verkefni okkar er ekki hvað síst að kynna hagsmuni Íslendinga, ekki síst í sjávarútvegsmálum, og því var fundur utanrmn. með fiskveiðinefnd Evrópuþingsins nú í haust mjög mikilvægur og þyrfti að gera að föstum lið í starfi nefndarinnar. Þar var t.d. mjög mikilvæg yfirlýsing sem fram kom á þeim fundi að ESB mundi ekki ganga til tvíhliða samninga við Norðmenn um veiðar í Smugunni.

Á fundi fulltrúa utanrmn. með sendinefnd Evrópuþingsins sem annast tvíhliða samskipti við Ísland kom fram sú skoðun að ákaflega ólíklegt væri að Ísland fengi undanþágu frá sameiginlegri fiskveiðistefnu ef sótt væri um aðild að ESB. Einnig kom sú skoðun fram hjá þingmanni Evrópusambandsins þegar rætt var um hag Íslands af aðild að Íslendingar ættu ekki að ganga í ESB á meðan fiskveiðistefna þess væri óbreytt. Undir það er vissulega hægt að taka.

Varðandi ríkjaráðstefnu Evrópusambandsins á næsta ári er eitt af meginviðfangsefnum ráðstefnunnar stækkun bandalagsins til austurs. Það verður fróðlegt að fylgjast með hvernig það mál þróast og ljóst að ESB stendur frammi fyrir mörgum umsóknum um aðild frá ríkjum með mjög bágborinn efnahag og kjör hjá fólki. Þar við bætist að styrkjakerfi landbúnaðarins, sem verið hefur Evrópusambandinu mjög þungt fjárhagslega, að stór hluti vinnuaflsins í Mið- og Austur-Evrópu vinnur við landbúnað eða um 25% vinnuaflsins á móti 6% innan núverandi aðilarríkja ESB. Það verður fróðlegt að fylgjast með hvaða áhrif það hefur á fjárhag eða styrkjafargan Evrópusambandsins vegna landbúnaðarins. Meðal annars vegna þess velta menn því nú fyrir sér hvort niðurstaðan verði sú að aðild Mið- og Austur-Evrópuþjóða gerist í áföngum þannig að full aðild þeirra þurfi ákveðna aðlögun.

Á fyrrnefndum fundi fulltrúa utanrmn. og sendinefndar Evrópuþingsins, sem annast tvíhliða skipti við Ísland, kom fram sú skoðun sem var athyglisverð að fyrst yrði gengið til samninga um aðild við Möltu og Kýpur, Pólland, Slóvakíu, Tékkland og Ungverjaland þrátt fyrir yfirlýsingar framkvæmdastjóra utanríkismála ESB um jafna stöðu allra ríkja sem sækja um aðild.

Þegar litið er til öryggis- og varnarmála er mótun sameiginlegrar varnarstefnu ESB auk fyrirhugaðrar stækkunar sambandsins eitt af þeim mikilvægu málum sem ríkjaráðstefnan mun fjalla um. Í þeim deilum sem þar eru, m.a. um hvort tryggja eigi áframhaldandi sjálfstæði Vestur-Evrópusambandsins eða fella starfsemi VES undir Evrópusambandið, er ljóst að hagsmunir okkar Íslendinga felast í sjálfstæði VES þannig að það ásamt veru okkar í Atantshafsbandalaginu verði áfram meginstoð okkar í varnar- og öryggismálum.

Virðulegi forseti. Á vorþinginu urðu nokkrar umræður um að bandarísk stjórnvöld afhentu dönskum stjórnvöldum formlega svör um kjarnorkuvopn á Grænlandi. Hér var um stefnubreytingu að ræða af hálfu Bandaríkjanna og því töldu ýmsir rétt að utanrrh. mundi knýja á um við bandarísk stjórnvöld að fá formleg svör um hvort í hernaðaráætlun Bandaríkjanna um kjarnorkuvopn væri eða hefði verið gert ráð fyrir kjarnorkuvopnum eða einstökum hlutum úr þeim sem væri flutt til Íslands og þá hvort leitað hefði verið eftir slíku hjá íslenskum stjórnvöldum. M.a. kom fram formleg tillaga frá hv. þm. Ólafi Ragnari Grímssyni um þetta efni í utanrmn. Ég vil því spyrja hæstv. utanrrh. og óska eftir svörum við því hvort eitthvað hafi verið gert af hálfu íslenskra stjórnvalda eða utanrrn. og ráðherra til að knýja á um og láta reyna á um formleg svör í þessu máli.

Ég vil fara nokkrum orðum um Sameinuðu þjóðirnar. Það hlýtur að vera hagur okkar að efla Sameinuðu þjóðirnar og gera stofnanir þeirra skilvirkari og ábyrgari og ætti það að vera hlutverk Íslands að vera í fararbroddi slíkrar umræðu. Forsenda þess er að við leggjum meira af mörkum til þróunaraðstoðar og til aðstoðar flóttamönnum og er það vissulega fagnaðarefni að við erum nú að bæta hlut okkar í aðstoð við flóttamenn með því að taka árlega við ákveðnum fjölda þeirra.

Virðulegi forseti. Ófriðurinn á Balkanskaga minnir okkur sífellt á, þrátt fyrir verulegan árangur í afvopnunarmálum og nýju umhverfi í þágu friðar í heiminum, hve langt er í land að tryggja frið til einhverrar framtíðar auk mannréttinda og betri heims. Hlutverk okkar sem málsvarar frelsis, lýðræðis og mannréttinda hvar sem er í heiminum er að vera öflugur málsvari fyrir þessum hornsteini sjálfstæðra þjóða hvarvetna á alþjóðavettvangi. Þótt við séum lítil þjóð getum við svo að eftir sé tekið látið rödd þjóðarinnar heyrast á þeim grundvallaratriðum sem frjáls þjóð byggir á. Þó að okkur deili á um ýmislegt eigum við þetta þó sameiginlegt og okkur ber að leggja þennan skerf til aukins friðar og mannréttinda í heiminum.

Virðulegi forseti. Þær hörmulegu afleiðingar sem viðskiptabann Sameinuðu þjóðanna á Írak hefur haft á írösku þjóðina, konur og börn, hefur leitt til þess að uppi eru alvarlegar vangaveltur um gildi efnahagsþvingana. Menn velta því fyrir sér hver ávinningurinn sé af slíkum aðgerðum sé hann yfirleitt nokkur. Nefnd hafa verið orð eins og þjóðarmorð þegar afleiðingar viðskiptabanns á Írak eru nefndar. Milljónir íraskra barna sem ekki er unnt að koma til aðstoðar deyja, matur, lækningatæki og lyf fást ekki flutt til landsins. Í apríl 1992 var fullgilt af Íslands hálfu viðskiptabann á Írak.

Við Íslendingar eigum ekki og getum ekki setið aðgerðalausir hjá þegar aðgerðir sem við eigum aðild að leiða til slíkra hörmunga óbreyttra borgara og að stórum hluta barna. Á Alþingi er nú til umfjöllunar þáltill. undir forustu Steingríms J. Sigfússonar um að ríkisstjórnin beiti sér fyrir því á alþjóðavettvangi að viðskiptabannið á Írak verði tafarlaust tekið til endurskoðunar. Hæstv. utanrrh. verður fyrir Íslands hönd að beita sér fyrir afnámi viðskiptabannsins og væri fróðlegt að fá fram afstöðu hæstv. utanrrh. í þessu efni nú við þessa umræðu.

Annað mál sem við eigum að láta til okkar taka með afgerandi hætti eru mótmæli vegna kjarnorkutilrauna Frakka í Suður-Kyrrahafi og kjarnorkutilraunir Kínverja. Franska ríkisstjórnin hefur hafið að nýju tilraunir með kjarnorkusprengingar neðan jarðar í Kyrrahafinu þrátt fyrir kröftugleg mótmæli þjóða um allan heim. Erfitt er að meta hvaða áhrif þær munu hafa í framtíðinni en vísindamenn eru uggandi um mögulegar afleiðingar þeirra. Sama gildir um kjarnorkusprengingar Kínverja sem eru í trássi við vilja samfélags þjóða. Með tilliti til þess að á alþjóðavettvangi hafa verið samningaviðræður um bann við tilraunum með kjarnorkuvopn og einnig um bann við frekari útbreiðslu þeirra er enn ríkari ástæða til að mótmæla þessum áformum Frakka.

Virðulegi forseti. Ég vil í lokin fara nokkrum orðum um sjávarútvegsmál í tengslum við þátttöku okkar í alþjóðlegu samstarfi. Ástæða er til að fagna úthafsveiðisamningnum sem samþykktur var nýlega á ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna sem er mjög mikilvæg réttarbót fyrir okkur Íslendinga. Mikilvægt er að lögfesta hann sem fyrst og fara að vinna eftir honum. Samkvæmt honum getum við náð stjórn á veiðum á Reykjaneshrygg. Það er vissulega nauðsynlegt því að Spánverjar eru komnir á þessi mið og ætla að koma með enn fleiri skip á næsta ári. Karfastofnar ganga þarna að nokkru leyti inn og út úr lögsögu okkar og einnig eru veiðar okkar á úthafskarfa mjög mikilvægar. Þarna þarf að nást sem fyrst stjórnun á veiðum.

Mikilvægt er í þessari lotu sem fram undan er að semja um veiðar í Smugunni. Að vísu vinnur tíminn með okkur meðan vel fiskast en ekki til lengdar en þar sem annars staðar verðum við að leggja okkar af mörkum til að tryggja hagkvæma og skynsamlega nýtingu fiskstofnanna. Þarna eru verulegir hagsmunir í húfi en við verðum að horfast í augu við það að úthafsveiðisáttmálinn styrkir frekar stöðu Norðmanna og Rússa í þessu máli. En við eigum tvímælalaust okkar rétt og hljótum að gera kröfu til að fá kvóta í samræmi við veiðireynslu okkar í Smugunni og Barentshafi sem er 30--40 þús. tonn.

Við í Þjóðvaka leggjumst alfarið gegn þeirri hugmynd að inn í þessa samninga blandist veiðar á Íslandsmiðum. Lán í þorskveiðikvóta hjá öðrum, sem á að greiðast með þorskveiðikvóta í landhelgi okkar þegar betur árar, eru jafnvel lakari kostur en erlend lántaka. Hugmyndin um að við veiðum þarna þegar stofninn hjá okkur er í lágmarki og Norðmenn komi hingað þegar þeirra stofn er í lágmarki er vægast sagt mjög vafasamur og gæti hæglega leitt til aukins þrýstings frá ESB um veiðar. Það er engin ástæða til þess að fara þessa leið. Við erum í rólegri uppbyggingu á þorskstofni okkar og eftirlitskerfi okkar er nógu erfitt í framkvæmd þó að við förum ekki að fá fleiri þjóðir til að veiða á Íslandsmiðum. Mikilvægt verkefni er líka að knýja á um samninga um norsk-íslenska síldarstofninn sem allra fyrst. Síldin er að koma aftur eftir langt hlé og þá verður góð umgjörð og skipulag um veiðarnar að vera til staðar. Úthafsveiðisáttmálinn gefur okkur tækifæri til þess að semja um þessa þætti.

Ég vil einnig nefna út af þeim samningum sem fram undan eru um Smuguna og Barentshafið að því ber ekki að leyna að ástæða er til að hafa áhyggjur af því hvaða áhrif það muni hafa á veiðar okkar á þessu svæði ef Norðmenn og Rússar setja reglur um notkun veiðarfæra sem hugsanlega banna t.d. notkun á flottrolli. Það gæti verið það sama og að loka fyrir veiðar okkar á þessu svæði eða draga verulega úr þeim. Þingmenn Þjóðvaka telja rétt að mótmæla niðurstöðu um veiðarnar á Flæmingjagrunni í samræmi við óskir útgerðarmanna sem þekkja þar best til. Veiðar hafa staðið þar stutt yfir og því er e.t.v. hægt að álykta að niðurstaða vísindanefndarinnar sé ekki sérlega traust. Einnig má benda á að miðað við forsögu NAFO hefði átt að geta fengist frestur á svona ákvörðun sem var algerlega ókynnt. Við teljum því rétt að mótmæla niðurstöðunni um veiðarnar á Flæmingjagrunni en við höfum svigrúm til þess til loka nóvember. Það styrkir vissulega íslenska hagsmuni í þessu efni.

Herra forseti. Það er átakanlegt í utanríkisstefnu okkar hversu litlu fjármagni hefur verið varið til þróunarmála. Þau framlög eru enn skorin niður í fjárlagafrv. Framgangan á þessu sviði er Íslendingum til vansa. Flestar vestrænar þjóðir leggja mun meira til þróunarmála en við, bæði er þróunaraðstoð í víðum skilningi sjálfsögð samhjálp í þjáðum heimi og þannig merki um góða jafnaðarstefnu en einnig er hér um mikilvæg viðskiptasambönd framtíðarinnar að ræða.

Herra forseti. Segja má að utanríkismálin séu í nokkru uppnámi í vestrænum heimi, ekki hvað síst fyrir litlar þjóðir sem eru að fóta sig eftir hrun kommúnismans. Það hefur ekki farið fram alvarleg umræða út frá breyttum forsendum hérlendis. Menn eru oft enn fastir í gömlum hugsunarhætti kalda stríðsins og hafa ekki áttað sig á hinum gerbreyttu aðstæðum. Sérhver þjóð verður að skilgreina hagsmuni sína sjálf. Við eigum þar eftir mikla heimavinnu og segja má að við séum langt frá því að vinna markvisst að því. Í þeirri umræðu væri ekki úr vegi að nýta þekkingu og reynslu manna eins og Ólafs Ragnars Grímssonar og Jóns Baldvins Hannibalssonar, fyrrv. utanrrh.

Herra forseti. Ástæða er til að þakka hæstv. utanrrh. fyrir þær áherslur sem hann leggur á kröftugt markaðs- og kynningarstarf erlendis á íslenskum vörum og þjónustu og að lögð verði sérstök áhersla á að auka þjónustu og tengsl utanrrn. við fyrirtæki í útflutningi og gefa útflutningsviðskiptamálum okkar aukið vægi. Í þessu sambandi er full ástæða til að árétta hvað forseti íslensku þjóðarinnar, frú Vigdís Finnbogadóttir, hefur í forsetatíð sinni unnið mikið kynningarstarf á erlendum vettvangi fyrir íslenska framleiðslu. Skemmst er að minnast ferða forsetans til Kína þar sem grunnur var lagður að mikilvægum viðskiptasamböndum og markaðsstarfi.

Hlutverk markvissrar utanríkisstefnu er vissulega að styðja við íslensk fyrirtæki erlendis. Það getur gerst með ýmsum hætti en það er best gert með meiri fjárveitingum til menntamála. Utanríkisverslun mun aukast verulega á næstu árum og við þurfum sérhæfða menntun á þessu sviði eins og víða annars staðar. Hluti af góðri stefnumörkun eru áform um að fá Háskóla Sameinuðu þjóðanna í sjávarútvegsfræðum til Íslands. Flestar þjóðir tengja utanríkisstefnuna viðskiptum og við höfum ekki gert nóg af því á undanförnum áratugum. Búast má við að Íslendingar muni í vaxandi mæli vinna erlendis og þá er mikilvægt að það sé fyrir íslensk fyrirtæki þannig að verðmætasköpunin muni skila sér til íslensku þjóðarinnar.

Nýlegur samningur Íslenskra sjávarafurða í Rússlandi eru mjög gott dæmi um þetta. Þar er vel að verki staðið. Þetta er verkefni framtíðarinnar og tengir saman skynsamlega efnahagsstefnu og jákvæða utanríkispólitík.

Að lokum þetta virðulegi forseti. Við höfum upplifað mjög örar breytingar á alþjóðavettvangi og margar hverjar mjög jákvæðar. Samstarf okkar og samvinna við aðrar þjóðir verður því að vera í sífelldri mótun og endurmati til að tryggja sem best hagsmuni íslensku þjóðarinnar. Það er mikilvægur hluti af sýn 21. aldarinnar. Samstarf við aðrar þjóðir fer sífellt vaxandi, ekki bara á sviði efnahags- eða atvinnumála heldur á einnig á sviði mennta-, menningar- og félagsmála. Það er mikilvægt vegarnesti inn í 21. öldina.