Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 19. október 1995, kl. 12:10:19 (457)

1995-10-19 12:10:19# 120. lþ. 16.1 fundur 47#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), GGuðbj
[prenta uppsett í dálka]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. utanrrh. fyrir ræðu hans og það tækifæri sem skýrsla hans gefur til að ræða utanríkismál á Alþingi. Staða okkar í samfélagi þjóðanna skiptir verulegu máli og því er ákaflega fróðlegt að sjá hvaða áherslur nýr utanrrh. leggur í ræðu sinni, með hvers konar gleraugum hann skoðar þessa stöðu. Ræðan er greinargott yfirlit yfir stöðu okkar gagnvart Sameinuðu þjóðunum, Norðurlöndum, Eystrasaltssvæðinu og Evrópusambandinu og hvaða sýn hæstv. utanrrh. hefur á þær breytingar sem eru yfirvofandi á alþjóðavettvangi. Hann fer nokkrum orðum um þær helstu alþjóðastofnanir sem við erum aðilar að og er það ágætt yfirlit en efnislega er staða okkar í samfélagi þjóðanna einkum rædd út frá auðlindum og umhverfismálum, þróun öryggismála, afvopnunarmála, þróunar- og viðskiptamála og einnig er talað um áherslur ráðherra um átak í markaðs- og fjárfestingarmálum. Ráðherra gerir grein fyrir hvers vegna hann kýs að hafa þessar áherslur í fyrstu ræðu sinni sem utanrrh. sem eru m.a. þær að hann hefur mikinn áhuga á sjávarútvegsmálum og mikla reynslu á því sviði og finnst mér það mjög eðlilegt.

Yfirlitið er greinargott en það er hefðbundið og það kom fátt þar á óvart sem ber kannski vott um gott upplýsingastreymi til okkar þingmanna. Því verður ekki séð að samskipti okkar við útlönd breytist mikið á næstunni og þau snúist fyrst og fremst um sjávarútvegs-, öryggis-, umhverfis- og viðskiptamál. Hlutfallslega lítið er þó fjallað um þau mál sem hafa tekið mestan tíma í utanrmn. á þessu kjörtímabili, nefnilega úthafsveiðar okkar í Barentshafi og á Flæmska hattinum enda eru samningamálin um veiðarnar í Barentshafi á viðkvæmu stigi og verulegur ágreiningur er í þjóðfélaginu um stöðu rækjuveiða á Flæmingjagrunni. Þar keppast íslenskir útgerðarmenn við að safna sér veiðireynslu enda er nú mikið um Íslendinga, heilu fjölskyldurnar í borginni St. John á Nýfundnalandi og var ástandinu þar líkt við Strikið í Kaupmannahöfn í mín eyru í gær. Við erum eins og gullgrafarar á úthöfunum sem vissulega hefur komið sér vel fyrir efnahagsástandið þó að efnahagsbatinn hafi eingöngu komið í vasa sumra. En arðrán á auðlindum þar er jafnhættulegt og annars staðar og því er það fagnaðarefni að samningaviðræður virðast vera að nást við stjórnun á þessum veiðum í kjölfar samninganna sem náðust á úthafsveiðiráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í New York í sumar. Enda þótt við verðum vissulega að gæta okkar hagsmuna í úthafsveiðum fögnum við kvennalistakonur þeirri stefnu að leggja höfuðáherslu á að ná markvissri stjórnun á þessum veiðum og á sjálfbæra þróun fiskstofna. Á því byggist ekki bara efnahagslegt sjálfstæði okkar heldur einnig að við séum virt sem ábyrg þjóð í alþjóðaviðskiptum enda er augljóst að deila okkar í Barentshafi hefur skaðað samskipti okkar bæði við Norðmenn, Rússa og líklega Evrópusambandið líka. Þetta eru mikilvæg mál sem réttlæta þá áherslu sem utanrrh. hefur lagt á þau þó vert sé að minna á að það er óþarfi að hafa tvo sjútvrh. eins og stundum virðist raunin hjá núv. hæstv. ríkisstjórn og það er nauðsynlegt að líta til fleiri þátta utanríkismála en sjávarútvegsmála.

[12:15]

Varðandi deiluna um stjórnun rækjuveiða á Flæmingjagrunni teljum við að íhuga þurfi vandlega hvort nýtt verður heimild til að kæra þá niðurstöðu um sóknarstýringu sem ákveðin hefur verið. Það eru bæði rök með og á móti því en aðalatriðið er að við komum fram sem ábyrg þjóð sem vill ábyrga stjórnun og markvissa uppbyggingu. Og þó að rækjustofninn virðist í mikilli lægð þar núna þá eru vísindagögnin ekki alveg nægilega góð. Ákvörðun um kæru þarf að taka með langtímamarkmið okkar í huga sem ábyrgrar fiskveiðiþjóðar, en ekki með skammtímagróða í huga.

Virðulegi forseti. Okkur er skammtaður naumt tíminn í þessari umræðu svo ég vil nota það sem eftir er af mínum tíma til að ræða um það sem ég saknaði úr ræðu hæstv. utanrrh. og það sem óhjákvæmilega þarf að ræða mjög gaumgæfilega á þessu kjörtímabili, nefnilega tengsl Íslands við Evrópusambandið.

Það var við hæfi að hefja ræðuna á umfjöllun um Sameinuðu þjóðirnar á þessu 50 ára afmælisári samtakanna, þó að það hafi verið mér veruleg vonbrigði að aðeins þremur línum er varið í að ræða um nýafstaðna ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Peking. Líklegt má telja að hér hefði skipt máli að utanrrh. er karl en ekki kona því að þessi merkilega ráðstefna hlyti að hafa fengið meiri umfjöllun hjá konu. Ég tel að þetta sé í raun móðgun við konur og þá erfiðu mannréttindabaráttu sem þær heyja út um allan heim. Ég vil því nota tækifærið núna og spyrja hæstv. utanrrh. hvernig hann og ríkisstjórnin hyggst fylgja eftir þeirri framkvæmdaáætlun sem samþykkt var í Kína og hvort hann hyggst beita sér fyrir því að framkvæmdaáætlunin verði þýdd á íslensku og gerð aðgengileg til dreifingar eða sölu? Einnig vil ég spyrja hann hvort það væri eitthvað eitt umfram annað í framkvæmdaáætluninni sem hann hyggst beita sér fyrir sem utanrrh.?

Ráðherrann kemur inn á Þróunarstofnun Sameinuðu þjóðanna og áhuga sinn á að efla starfsemi á sviði þróunarmála. Hins vegar eru engin fyrirheit að reyna að auka okkar hlut í þróunaraðstoð sem hefur á undanförnum árum verið skammarlega lítill og á fjárlögum komandi árs er enn fyrirhugaður niðurskurður. Því miður hefur okkar þróunaraðstoð of oft mótast meira af eigin útflutningshagsmunum en raunverulegum skilningi á vandamálum viðkomandi þjóða, þó að vissulega sé gott að við miðlum af okkar reynslu og því sem við eigum nóg af. Nú eru æ fleiri alþjóðastofnanir, t.d. Alþjóðabankinn o.fl., að átta sig á því hve konur í þróunarlöndum gegna mikilvægu hlutverki til raunverulegar hjálpar til sjálfshjálpar og vil ég í því sambandi minna á hið mikilvæga starf UNIFEM, Þróunarsjóðs Sameinuðu þjóðanna til styrktar konum. En á sama tíma og fólk er að átta sig á þessu þá eru Bandaríkjamenn að skera niður framlög sín bæði til Sameinuðu þjóðanna og til þróunaraðstoðar yfirleitt og við virðumst vera að gera það líka. Því er ég ósátt við þær áherslur sem fram koma í ræðu ráðherra um markmið þróunaraðstoðar og vona að aukið fjármagn verði veitt til að hjálpa fólki til að hjálpa sér sjálft. Það er siðferðileg skylda okkar sem ríkrar velferðarþjóðar, en jafnframt undirstaða velferðar og áframhaldandi friðar í veröldinni að mínu mati.

En lífið er meira en sjávarútvegur, hafréttarmál og viðskiptatengsl þó að ráðherra hafi kosið að gera þau mikilvægu mál að meginefni sinnar ræðu að þessu sinni. Auk meiri áherslu á málefni kvennaráðstefnunnar í Kína saknaði ég umræðu um stefnu ríkisstjórnarinnar í menningarsamstarfi í víðri merkingu, ekki síst á sviði vísinda, lista og rannsókna eða menntamála.

Þá sakna ég umfjöllunar um stefnu ríkisstjórnarinnar á alþjóðavettvangi til að vinna gegn alþjóðlegum hryðjuverkum, sem í vaxandi mæli virðast tengjast fíkniefnum nú þegar járntjaldið er fallið.

Þá sakna ég að heyra einhvað frá ráðherranum um það sem virðist vera að gerast á alþjóðavettvangi, að hið svokallaða fjórða vald eða fjölmiðlar eru í vaxandi mæli að taka töluverð völd af stjórnmálamönnum og ég er mjög forvitin að vita hvort það er einhver alþjóðleg umræða í gangi á meðal stjórnmálamanna um hvernig ber að bregðast við því og spyr því: Ætlar utanrrh. að beita sér eitthvað á þeim sviðum sem ég hér nefndi og þá á hvaða vettvangi?

Ég fagna því að ríkisstjórnin hefur fordæmt kjarnorkusprengingar Kínverja og Frakka og vona að Alþingi sjálft fordæmi þessar sprengingar einnig.

Þá er ég komin að tengslum Íslands við Evrópusambandið. Ég fagna þeirri skýru umræðu sem er í þessari ræðu ráðherra um það mál, þó að það sé alveg ljóst að við lifum á breytingatímum og umræðan mótast af því. En það er þó sagt alveg skýrt að það sé ekki á stefnuskrá ríkisstjórnarinnar að sækja um aðild að Evrópusambandinu þar sem umsókn nú, eins og það er túlkað, gæfi til kynna að við sættum okkur við sameiginlega sjávarútvegsstefnu sambandsins sem óhjákvæmilega. Einnig er undirstrikuð nauðsyn þess að fylgjast vel með þróun Evrópuumræðunnar og stefnt verði að því að velja þann kost sem þjónar best langtímahagsmunum þjóðarinnar. Þessi stefna er algerlega samhljóma stefnu Kvennalistans í þessu mikilvæga máli og við kvennalistakonur leggjum mjög mikla áherslu á það að ef til stefnubreytingar kemur þá verði slík ákvörðun lögð í þjóðaratkvæði.

Ein rökin sem við kvennalistakonur höfum nefnt gegn Evrópusambandsaðild, auk fiskveiðistefnunnar, er sú mikla miðstýring, embættismannavald og karlveldi sem ræður ríkjum í Brussel, þó að vissulega sé einnig hægt að sækja fyrirmyndir til Evrópusambandsins varðandi það sem til bóta horfir í ýmsum félags- og jafnréttismálum.

Hinn dapurlegi dómur sem Evrópusambandsdómstóllinn í Lúxemborg var að fella um að ekki sé heimilt að leyfa mismunun á grundvelli kynferðis í þeim tilgangi að rétta hag kvenna, sýnir karlveldið sem ríkir í þessum dómstól og minnir okkur enn einu sinni á hve dómstólakerfið almennt er íhaldssamt og seint að breytast í takt við gildandi lög og þetta á svo sannarlega við hér á landi. Það var skelfileg sjón að sjá hvern karldómarann á fætur öðrum taka sér sæti í Evrópusambandsdómstólnum og kveða upp þennan úrskurð gegn anda tilskipunarinnar og gegn þeirri trú að raunverulegur vilji sé innan Evrópusambandsins til að vinna að jafnréttismálum kynjanna á vinnumarkaði. Tókuð þið eftir því að það var ekki ein einasta kona í dómstólnum? Þó að þessi dómur muni væntanlega ekki hafa sömu áhrif hér á landi og í Þýskalandi og Noregi, en þau lönd hafa lögtekið ákveðin mismununarákvæði í sín jafnréttislög, þá virðist mér ljóst að þessi niðurstaða muni hafa annað tveggja í för með sér í Evrópu almennt. Annaðhvort verulegt bakslag í jafnréttis- og mannréttindabaráttu kvenna eða tvíefldan kraft til að efla kvennabaráttuna og stöðu kvenna í stjórnmálum, til að takast á við þau afturhaldsöfl sem viðhalda ástandi sem heyrir fortíðinni til. Það er svo sannarlega von mín að það verði hið síðarnefnda og það verði ríkisstjórn Íslands, sem aðeins hefur eina konu innanborðs, til umhugsunar og að konur komist hér til valda og meiri kraftur verði í kvennabaráttunni núna en nokkru sinni fyrr og það verði ekki raunin að fyrir hvert hálft skref sem við stígum fram á við þá þurfum við að stíga hálft aftur á bak eða jafnvel eitt.

Fram undan er 24. okt. og 20 ára afmæli þess dags sem við konur lögðum niður vinnu í einn dag þannig að athygli vakti á alþjóðavettvangi. Minna hefur áunnist á þessum 20 árum en bjartsýnar konur vonuðu, en við megum ekki bugast og því hljóta allar kvenfrelsiskonur að blása í baráttulúðra nú um leið og við hvetjum karlana sem nú sitja við völd í ríkisstjórn Íslands til að taka mið af eftirfarandi klausum sem eru í samþykkt allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna frá 1979 og heitir ,,Samningur um afnám allrar mismununar gagnvart konum.`` Þessi samningur var fullgiltur með ályktun Alþingis í júní 1985 rétt fyrir kvennaráðstefnu Sameinuðu þjóðanna sem þá var haldin í Nairobi.

Virðulegi forseti. Ég er rétt að ljúka máli mínu. Í þessum samningi segir m.a. að ríkin sem hann hafa fullgilt, með leyfi forseta: ,,...eru sannfærð um að alger og alhliða þróun lands, velferð í heiminum og málstaður friðarins, krefjast þátttöku kvenna í sem ríkustum mæli og til jafns við karla á hvaða vettvangi sem er.`` Og í 8. gr. samningsins segir:

,,Aðildarríkin skulu gera allar viðeigandi ráðstafanir til þess að tryggja konum til jafns við karla og án nokkurs misréttis tækifæri til að koma fram fyrir hönd ríkisstjórna sinna á alþjóðavettvangi og taka þátt í störfum alþjóðastofnana.``

Í þessu sambandi vil ég benda á að núna í haust er það í fyrsta skipti sem við kvennalistakonur fáum ekki tækifæri til að fara til Sameinuðu þjóðanna á vegum Alþingis og er því borið við að okkar atkvæðamagn sé ekki nægjanlegt, en hingað til hefur það dugað og hingað til hefur önnur túlkun gilt en nú í þessu alþjóðasamstarfi. Ég vil sem sagt benda á að þó að við njótum hér jafnréttis og fáum sama tíma og aðrir í umræðu og við gerum það einnig í eldhúsdegi, þá eru allt aðrar reglur notaðar innan þingsins þannig að þáttur okkur kvennalistakvenna í alþjóðastarfi er svo til enginn.

Ég vona að þetta verði hvatning til utanrrh. og ríkisstjórnarinnar og læt það verða mín síðustu orð, herra forseti. En ég vil aðeins í lokin benda utanrrh. á mynd sem birtist í tímaritinu Nordisk kontakt og er af því fræga málverki Edwards Munk Ópið, en hérna er viðkomandi í kvenmannsklæðum og ég vona svo sannarlega að hann hugsi um þessa mynd þegar hann er að ræða á alþjóðavettvangi og þegar hann er að velja fólk til þess að tala á þeim vettvangi.