Framleiðsla og sala á búvörum

Fimmtudaginn 19. október 1995, kl. 15:45:18 (469)

1995-10-19 15:45:18# 120. lþ. 17.2 fundur 96. mál: #A framleiðsla og sala á búvörum# (sauðfjárframleiðsla) frv., landbrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka]

Landbúnaðarráðherra (Guðmundur Bjarnason) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég orðaði það reyndar ekki í fyrri ræðu minni að Alþfl. bæri ábyrgð á þessu öllu saman. Ég minnti aðeins á það að Alþfl. hefði verið þátttakandi í ríkisstjórnum á undanförnum árum og hann hefði kannski átt aðild að þeim ákvörðunum sem teknar hafa verið af hálfu stjórnvalda á undanförnum árum. Ég hef aldrei sagt að Framsfl. hafi ekki átt og eigi ekki aðild að því stjórnkerfi sem ríkt hefur og ég vil líka viðurkenna og segja það, og það kom reyndar mjög skýrt fram í minni framsöguræðu, að við erum að búa til nýtt kerfi. Við erum að móta stefnu til annarrar framtíðar heldur en verið hefur og við erum að búa til framleiðslukerfi sem er með öðrum hætti heldur en það hefur verið hingað til.

Það kom fram í ræðu hv. þm. að það sé krafa hans að kvótakerfið verði aflagt strax. Ég sé það fyrir mér að þær róttæku breytingar, eins og ég vil kalla þær sem verið er að boða, verði framkvæmdar. Það er hins vegar ekki hægt við þær aðstæður sem ríkja nú í augnablikinu með þær birgðir sem við stöndum frammi fyrir að skella á svokölluðu markaðskerfi eða afnema kvótakerfið skilyrðislaust og án nokkurrar aðlögunar eða aðdraganda árið 1996 eins og hv. þm. sagði. Ég tel að við þurfum að nýta tímann næstu eitt til tvö ár til að komast inn í það nýja kerfi eða þann nýja farveg sem er sannarlega boðaður hér með þessum samningi og frv. Og ég held að það sé mikilvægt að menn tali málefnalega um það án þess í sjálfu sér að vera að ásaka einn eða neinn um það hvernig ástandið er. Það er ekki gott. Það hefði þurft að bregðast við fyrr og ég er sannarlega að reyna að gera það. Núv. ríkisstjórn er að reyna að gera það og takast á við það sem ég held að hefði þurft að gera í tíð fyrri ríkisstjórnar sem hv. þm. átti aðild að.