Framleiðsla og sala á búvörum

Fimmtudaginn 19. október 1995, kl. 16:12:29 (472)

1995-10-19 16:12:29# 120. lþ. 17.2 fundur 96. mál: #A framleiðsla og sala á búvörum# (sauðfjárframleiðsla) frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Egill Jónsson gagnrýndi þann samning sem við höfum hér til umræðu mjög harðlega. Ég var ekki sammála gagnrýni hans í öllum atriðum og hef í sumum atriðum þveröfuga skoðun við hv. þm. Mér sýnist samt á máli hv. þm. að við séum sammála um það að þessi samningur sé óalandi og óferjandi. Við erum nefnilega sammála um það sem er aðalatriðið í þessu. Sem sagt það að breytingar á greiðslumarki samkvæmt samningnum muni leiða til aukinnar framleiðslu. Með öðrum orðum hið nýja fyrirkomulag mun hafa þveröfug áhrif á það sem það átti að gera. Og þar sem þetta er burðarásinn í þessum samningi spyr ég hv. þm. Egil Jónsson: Treystir hann sér til þess að styðja samninginn nema að það sé algjörlega ljóst að breytingarnar muni ekki leiða til aukinnar framleiðslu? En það er merkilegt að hv. þm. Egill Jónsson, sem hefur nú stundum verið talinn til framsóknararmsins í Sjálfstfl., og hef ég ekki nema gott eitt um það að segja, er þarna orðinn sammála þeim sem hafa verið yst til hægri, þ.e. ungu mönnunum, ritara landbn. Sjálfstfl., Markúsi Möller.