Framleiðsla og sala á búvörum

Fimmtudaginn 19. október 1995, kl. 16:15:40 (474)

1995-10-19 16:15:40# 120. lþ. 17.2 fundur 96. mál: #A framleiðsla og sala á búvörum# (sauðfjárframleiðsla) frv., SvanJ
[prenta uppsett í dálka]

Svanfríður Jónasdóttir :

Herra forseti. Hér er til umfjöllunar frv. til laga um breytingu á lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum. Annað af fylgiskjölunum sem eru hér með þessu frv. er búvörusamningur sá sem þegar hefur verið undirritaður af hálfu bænda og með fyrirvara af hálfu ráðherra í hv. ríkisstjórn.

Ég verð í máli mínu hér að blanda því nokkuð saman sem kemur fram í þessu frv. annars vegar og búvörusamningnum hins vegar. Svo nátengt og samansúrrað er þetta efni þótt sums staðar greini reyndar á og ekki sé alveg ljóst við hvað er átt eins og hér kom fram í máli hv. þm. Margrétar Frímannsdóttur.

Hér er, eins og ég sagði áðan, verið að fjalla um breytingar á lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum en hins vegar er jafnframt verið að ræða um breytingar á búvörusamningi. Það er verið að ræða um breytingar á kindakjötshluta búvörusamningsins. Menn hafa stundum varið þá miklu fjármuni sem fara til landbúnaðar með þeim rökum að í því fælist viðleitni okkar til að halda landinu í byggð.

[16:15]

Það mun vera eitt af stefnumiðum þessarar ríkisstjórnar, rétt eins og flestra ef ekki allra ríkisstjórna á undan, að reyna að halda landinu sem best í byggð og gera þeim sem starfa í sauðfjárrækt kleift að lifa mannsæmandi lífi, svo vitnað sé orðrétt til formanns Framsfl. í umfjöllun um búvörusamninginn í sjónvarpi hinn 5. október sl. Hann er þá væntanlega sannfærður um að þeim fjármunum sem eiga að fara til uppfyllingar þessa kindakjötssamnings ef þetta frv. verður að lögum sé vel varið, þeir haldi landinu í byggð og geri sauðfjárbændum kleift að lifa mannsæmandi lífi. Ef ég væri sannfærð um það og liti þá væntanlega á milljarðana 11--13 sem fjárfestingu til framtíðar þá væri ég ekki í hópi þeirra sem gagnrýna og draga í efa árangur af nefndum samningi. En það hefur enn enginn sannfært mig um að forgangsröðun til að ná þessum markmiðum, þ.e. að halda landinu í byggð, eigi að vera sú sem hér birtist og meðan svo er, þá hlýt ég að gagnrýna samninginn, bæði tilurð hans og innihald.

Greiðslur vegna búvörusamningsins í heild eru bæði greiðslur vegna mjólkurframleiðslu sem nema nú tæpum 5,7 milljörðum kr. og greiðslur vegna sauðfjárframleiðslu sem nema á næsta ári samkvæmt fjárlagafrv. um það bil 2,7 milljörðum kr. Þannig hækka framlög vegna búvörusamnings á næsta ári miðað við áform stjórnvalda og þann samning um kindakjötsframleiðslu sem nú liggur fyrir undirritaður af hæstv. utanrrh. og fjmrh. en samþykktur af bændum. Miðað við það sem fram kemur í umsögn fjárlagaskrifstofu, þá kostar þessi breyting á kindakjötshlutanum rúmlega einum milljarði meira en gamli samningurinn hefði kostað og reyndar hafa aðrir, svo sem Guðmundur Gylfi Guðmundsson, hagfræðingur ASÍ og sérlegur sérfræðingur í málefnum landbúnaðarins, sagt að samningurinn þýddi um tveimur milljörðum meira en sá gamli að óbreyttu. Og þessa peninga telur hann að sé verið að setja í landbúnaðinn til að viðhalda óbreyttu ástandi til að fresta vanda. Formaður búnaðarþings Suðurlands dáðist einnig að samninganefndinni fyrir að hafa náð öllu þessu fjármagni. En það er jafnmerkilegt þegar þetta liggur fyrir að hlusta á ráðherrana leggja svo mikla áherslu á að telja þjóðinni trú um að með þessum samningi sé verið að spara.

Fjmrh. kynnir samninginn þannig að þrátt fyrir allt sé hér um minnkun að ræða og hæstv. landbrh. fullyrðir í viðtali við Ríkisútvarpið hinn 12. okt. sl. að við séum náttúrlega að lækka stuðning hins opinbera til sauðfjárræktarinnar umtalsvert með þessum samningi. Og hér í dag kemur svo fram að hann lítur svo á sem hér sé um viðskiptasamning að ræða og því eðlilegt að allt í honum sé verðtryggt. Og formaður Framsfl. réttlætir samninginn ekki bara með búsetumarkmiðum heldur einnig með því að gífurlegur samdráttur hafi orðið í sauðfjárræktinni. Þá hljótum við sem höfum reynt að fylgjast með landbúnaðarumræðunni að spyrja: Stóð það þá ekki til? Stóð ekki til að draga saman? Var ekki upphaflega til samninga stofnað með það að markmiði? Var ekki markmiðið það sama og nú, að ná jafnvægi á milli framleiðslu og sölu sauðfjárafurða? Eða er það rétt sem stundum er haldið fram að á Íslandi sé hætt við efnahagsráðstafanir þegar þær fara að bíta? Hvaða vandi er það sem nú steðjar að? Er vandamálið ekki enn það sama: Of margir bændur að framleiða of mikið kjöt fyrir of lítinn markað? Við skulum líta á markmið samningsins. Þau eru afskaplega almennt orðuð. Þetta er huggulegur texti um það sem við getum öll verið sammála um, svo sem að auka hagkvæmni og samkeppnishæfni sauðfjárframleiðslunnar til hagsbóta fyrir sauðfjárframleiðendur og neytendur. Hver getur ekki skrifað undir það? En það er bara svo fátæklegt sem fylgir þessari fínu setningu í samningnum sjálfum.

Nokkuð hefur verið rætt um það að auka þurfi framleiðni í íslensku atvinnulífi, en það eru engin framleiðnimarkmið í þessum samningi. Það eru engir áfangar í þeim efnum til að stefna að.

Hvar er sá hvati sem fær bændur til að minnka framleiðslu og laga hana fyrst og fremst að innanlandsmarkaði? Hann finnst ekki. Hér er verið setja upp eins konar sóknarkerfi í sauðfjárframleiðslu. Það virðist borga sig fyrir bóndann að framleiða meira. Hann á vélarnar, ræktunina og húsin, fasti kostnaðurinn er fyrir hendi og það borgar sig auðvitað að framleiða meira ef viðbótartekjurnar eru hærri en viðbótarkostnaðurinn. Sóknarkerfi í fiskveiðum er nákvæmlega sama dæmið. Í slíku kerfi borgar sig fyrir einstaka útgerðarmenn að auka sína sókn þó að aukin heildarsókn sé til tjóns, bæði fyrir fiskstofnana og þjóðarbúið og minnki almennt hagkvæmni í greininni. Bóndinn fær alltaf sínar beingreiðslur frá ríkinu samkvæmt sínu greiðslumarki. Hann fær svokallað innanlandsverð fyrir ákveðið hlutfall framleiðslu sinnar og síðan útflutningsverð fyrir það sem út af stendur. E.t.v. nær hann sér í enn annað verð með því að selja á svörtum markaði, en allir veiða úr sama potti, allir veiða úr potti sem er verðjafnaður þannig að allir eiga jafnan rétt og auðvitað munu menn auka sóknina. Og hver segir að svarti markaðurinn verði ekki áfram fýsilegasti valkosturinn fyrir bændur? Þetta er sígilt dæmi um það þegar hagsmunir einstaklinga stangast á við hagsmuni heildarinnar og þó að við vildum að öll dýrin í skóginum væru vinir þá eru þau það bara ekki. Þetta sóknarmark í landbúnaðinum getur haft það í för með sér að árið 2000 þegar samningurinn rennur út, þá verði framleiðslan orðin mun meiri en nú og hvað gera bændur þá? Við því fást engin svör. Framtíðarsýnina vantar. Bændur eiga að haga sér með tilteknum, skynsamlegum hætti fyrir heildina og ekki er reiknað með sjálfsbjargarviðleitni þeirra. Það er merkilegt því að bændur hafa þegar sýnt að þeir eins og aðrar stéttir, geta brugðist við breytingum. Samdráttur hefur vissulega verið mikill og óháður fjárhagslegri stöðu búanna, en bændur hafa flestir brugðist við og snúið sér að öðru með búskapnum. Þeir hafa snúið sér að ferðamennsku og minjagripagerð, kannski í stíl við græna ferðamennsku, þ.e. reynt að byggja á því sem sérstakt er, bæði við það að vera bóndi og við það hérað sem þeir búa í. Og einnig að ýmsum störfum sem til hafa fallið í byggðarlaginu.

Það er rétt eins og gerst hefur í sjávarútvegi við samdrátt í þorskveiði. Menn hafa sótt í annað og sýnt bæði hugkvæmni og útsjónarsemi og þar hafa menn verið að auka framleiðni í greininni. Þar hafa menn líka farið í úreldingu og það þarf líka að gera í landbúnaði. Þeir bændur sem stunda aðra framleiðslu en sauðfjárframleiðslu eru auðvitað áhyggjufullir yfir því að þessi samningur muni skemma fyrir öðrum búgreinum, hann skekkir alla samkeppni og með auknum skattpeningum er ákveðið hverjir fá meiri séns. Því var krafan um það að allir bændur landsins tækju þátt í atkvæðagreiðslu um samninginn ekki óeðlileg. Staða atvinnugreinarinnar í heild, umfjöllun um hana, ímynd hennar og framtíð er mál þeirra allra.

En aftur að samningnum og lögunum. Það er rétt að hverfa frá því kerfi sem hefur verið í sauðfjárrækt. Það hefur ekki reynst nothæft til að ná þeim markmiðum sem stefnt var að eða e.t.v. hefur verið of auðvelt að komast hjá því að ná markmiðunum. Innan þess samnings sem hefur verið unnið eftir áttu birgðir t.d. ekki að myndast en það hafa þær sannarlega gert og svartur markaður hefur blómstrað. Þess vegna er spor í rétta átt að hafa beingreiðslur ekki jafnframleiðslutengdar og verið hefur. Þar hefði þó átt að ganga lengra með skýrari markmiðum.

Það hefði einnig átt að ganga djarfar til frjálsrar verðmyndunar á afurðum og ekki jafnskilyrt og fram kemur í samningnum. Lagatextinn er reyndar skilyrðislaus.

Í samningnum segir, og einnig í lögunum, að árið 1998 verði verðmyndun frjáls. Orðrétt segir í samningnum: ,,1998 verður horfið frá opinberri verðákvörðun afurðaverðs, enda hafi komið til framkvæmda þær aðgerðir sem samningurinn kveður á um til að ná jafnvægi í birgðum sauðfjárafurða.``

Hverjar eru þessar aðgerðir og hver skyldi nú bera ábyrgð á framkvæmd þeirra? Jú, m.a. verður sett sérstakt fjármagn til þess að greiða niður kjöt á útsölu í haust og reynt verður að ná jafnvægi á innanlandsmarkaði með því að skammta á markaðinn með tilliti til þess hvað menn álíta að hann þoli. En hversu raunhæfar verða slíkar spár? Hvað segir sagan okkur um það og verður þá allt í uppnámi? Hvaða gildi hefur þessi fyrirvari? Það hefði líka átt að stefna að því að framleiðslan væri fyrst og fremst hugsuð fyrir innanlandsmarkað. Það er að mínu mati fráhvarf frá þeirri hugmyndafræði að íslenskt lambakjöt sé gæðavara sem við eigum að stefna að að markaðssetja sem vistvæna að við notum útflutningsmarkaði eins og ruslakistu fyrir allt sem út af stendur, sem eins konar táknræna urðun.

Auðvitað á að hætta niðurgreiðslu vaxta- og geymslukostnaðar. En það að setja til þess sérstakt eyrnamerkt fé, þó svo ráðstöfun þess fjár verði falin bændum, er of lítil breyting. Síðan mun reyna á það, herra forseti, hvort heimamenn, sveitarstjórnarmenn og jafnvel alþingismenn geta setið og horft á það aðgerðalausir að sláturhúsin leggi upp laupana ef um raunverulega samkeppni á milli þeirra verður að ræða eins og gæti orðið og hlýtur að eiga að verða þegar fallið verður frá opinberri verðlagningu slátur- og heildsölukostnaðar haustið 1996. Og við verklokasamninga við bændur þarf líka að hafa í huga á hvaða verði greiðslumarkið hefur gengið á markaðnum að undanförnu því að þar hefur myndast verð sem segir okkur hvaða augum bændur sjálfir líta silfrið, hvernig þeir verðleggja sitt lifibrauð.

Framtíðin byggir á því að okkur takist að stöðva neyslusamdráttinn, segir aðstoðarmaður landbrh. í grein í Bændablaðinu 4. okt. sl. og tekur þannig afstöðu með sauðfjárræktinni. En er þá eitthvað í samningnum sem tryggir lækkun matarverðs? Kannanir sýna að þrátt fyrir að við Íslendingar borðum allra þjóða mest af kindakjöti þá minnkar neyslan ár frá ári. Það er fróðlegt með tilliti til þess að menn eru að reyna að ná hér jafnvægi á markaði að því greiðslumarki sem ríkið kaupir af bændum verður endurúthlutað til þeirra sem ákveðið hefur verið að styrkja sérstaklega, en það eru þeir sem eru með 180--450 ærgilda greiðslumark. Þeir fá þetta viðbótargreiðslumark afhent og þannig ávísun á þau verðmæti óháð annarri stöðu sinni. Hér er ekki verið að tekjutengja eða stuðla að jöfnuði. Og ekki verður séð af því sem fram kemur um endurúthlutun greiðslumarks að hið minnsta tillit sé tekið til umhverfismála eða þess að menn hafi áhuga á því að styrkja frekar sauðfjárrækt á einum stað en öðrum.

Herra forseti. Í vor þegar GATT-samningurinn var til umfjöllunar á Alþingi létu margir í ljós þá von að nýta mætti þann samning til að knýja á um umbætur í landbúnaði, að nota aðlögunartímann skynsamlega til að íslenskur landbúnaður stæði betur þegar að því kemur að samkeppnin frá útlöndum verði beinni og harðari því væntanlega er öllum ljóst að jafnvel þó við vildum þá getum við ekki einangrað landbúnaðinn frekar en annað í okkar þjóðlífi frá utanaðkomandi áhrifum. En það gekk ekki eftir. Það var misskilningur ef fólk hafði látið sig dreyma um að GATT-samningurinn mundi stuðla að lægra matarverði. Og nú bætist nýr kindakjötshluti búvörusamningsins við með viðbótarútgjöldum upp á milljarða sem eru þá ekki á meðan notaðir annars staðar og engin lækkun fyrirsjáanleg á matarkostnaði heimilanna í landinu. Engan skyldi undra þó einhvers staðar sé bölvað bæði upphátt og í hljóði og ekki ótrúlegt að það fólk sem ekki hefur lengi efni á sunnudagslærinu en horfir á kjöt urðað kvöld eftir kvöld í sjónvarpsfréttunum sé í þeim hópi.

Mikil umræða fer nú fram í þjóðfélaginu um kjaramál, enda hefur verið þrengt að fleiri þjóðfélagshópum og starfsstéttum en bændum. Stjórnvöld virðast stundum gleyma því að það er fátækt fólk víðar en í hópi sauðfjárframleiðenda og einnig hinu að krónufjöldinn í launaumslaginu er ekki mælikvarðinn á kjörin heldur hvað þú færð fyrir krónurnar og þá ekki síður hvað þú færð fyrir það sem þú greiðir í skatta. Það er þess vegna miður þar sem hér er um stórmál að ræða í kjaralegu tilliti, bæði varðandi kaupmáttinn og ráðstöfun skatta næstu árin, að þrátt fyrir loforð þar að lútandi frá í vor komi alþingismenn, hv. landbúnaðarnefndarmenn, lítt eða ekki að samningsgerðinni og standa nú frammi fyrir gerðum hlut. Og Alþýðusamband Íslands sem var ein meginstoðin í þeirri víðtæku sátt sem náðist um það hvert stefna skyldi með íslenskan landbúnað í tengslum við þjóðarsáttarsamningana fyrir fimm árum hefur nú slitið stjórnmálasambandi við bændaforustuna. Og saka þau nú bændur og stjórnvöld um að hafa rofið þessa sátt enda hafi þeir ekki heldur fengið að koma að málinu með viðhlítandi hætti. Stjórnvöld og bændaforustan fyrir hönd sauðfjárframleiðenda standa því dálítið ein með þennan samning og ábyrgð þeirra er því þeim mun meiri.

[16:30]

Það er ekkert sem bendir til þess að þessi samningur muni stöðva fólksflóttann úr landinu og þannig stuðla að því að halda landinu í byggð. En eins og staðan er núna ætti það ekki síður að vera áhyggjuefni stjórnvalda en hitt hvort að enn heldur áfram straumurinn úr sveitum í þéttbýli.

Herra forseti. Það er líka kominn tími til fyrir okkur sem þjóð að sætta okkur við það og reyna að lifa með því að það er ákveðin byggðaþróun í landinu og ef til vill höfum við ekki lengur efni á því að kosta jafnmiklu til hér eftir sem hingað til.

Það hefur farið nokkur umræða fram um þann búvörusamning, sem er fskj. þess frv. sem við ræðum nú, úti í þjóðfélaginu. Það er þó býsna erfitt fyrir alþýðu manna að átta sig á því oft og einatt um hvað er rætt. Það er þannig þegar landbúnaðarmálin koma til umræðu að öll orðræðan er orðin svo flókin og full af tækniorðum að menn þurfa tiltekna sérfræðiþekkingu til að geta verið þátttakendur í umræðunni. Fullt af nýjum orðum koma fram og menn þurfa að tileinka sér ný hugtök. Mér hefur stundum dottið í hug, herra forseti, að þetta væri ein af aðferðum kerfisins til að koma í veg fyrir vitræna umræðu um það sem helst er að gerast og ef til vill brennur heitast á í okkar samfélagi. Ég vona að svo sé ekki, en sá grunur læðist þó að manni þegar maður hefur lengi lesið um verðskerðingarfé, umsýslufé og ærgildi sem nú jafngildir 18,2 kg kjöts við umreikning greiðslumarks eða 3.734 kr. í beingreiðslum á ári. Þannig er hugtakið ærgildi orðið abstrakt, eins konar ECU í íslensku efnahagslífi.

Herra forseti. Það væri heiðarlegra gagnvart landbúnaðinum og landsbyggðinni að leyfa honum að rétta úr kútnum sem einni af alvöru atvinnugreinum frekar en að halda öllu í hálfgerðum kyrkingi í nafni byggðastefnu. Veikt atvinnulíf getur aldrei staðið undir blómlegri byggð. Þeir fjármunir sem fara í þennan samning eru þá teknir úr öðrum verkefnum, þeir eru að minnsta kosti ekki notaðir til annarra hluta á meðan. Í því birtist ákveðin forgangsröðun, forgangsröðun þeirra sem mæla með þessum samningi og forgangsröðun þeirra sem munu samþykkja hann.