Framleiðsla og sala á búvörum

Fimmtudaginn 19. október 1995, kl. 17:18:52 (478)

1995-10-19 17:18:52# 120. lþ. 17.2 fundur 96. mál: #A framleiðsla og sala á búvörum# (sauðfjárframleiðsla) frv., HjálmJ
[prenta uppsett í dálka]

Hjálmar Jónsson:

Virðulegi forseti. Hér er mikilvægt mál á ferð. Fyrirkomulag heillar starfsgreinar, framtíð heilla byggðarlaga er í húfi og þess vegna þarf að ræða málið ítarlega og fara vel yfir það í hv. landbn., sem fær málið til umfjöllunar að lokinni þessari umræðu.

Í dag hefur margt jákvætt, margt gott, komið fram í umræðunni, annað lítt grundað eins og gengur. Hitt er þó rétt að sauðfjárrækt á Íslandi er í kröggum þó að vissulega sé margt einnig jákvætt að gerast við hana. Eitt er búvörusamningurinn sem nú er samþykktur af Bændasamtökum Íslands og ríkisstjórninni, en bíður staðfestingar eða umfjöllunar Alþingis réttara sagt.

Á tímabilinu 1991--1995, á síðasta kjörtímabili, lækkuðu ríkisútgjöld til landbúnaðar um 45%, um hálfan fimmta milljarð króna. Það er ekki hægt að segja að það sé ekkert að gerast í rétta átt. Það væri réttara að segja nú að menn greindi frekar á um hraðann í breytingunum sem eru að ganga yfir og það er mikilvægt að vinna að þessari þróun með bændum en setja ekki lög án samráðs við þá sem málið helst varðar.

Menn vita það líka að í flestum löndum er landbúnaður styrktur, ekkert síður í löndum sem henta miklu betur til sauðfjárræktar en okkar land. Okkar stuðningsstig er svipað og í þeim löndum sem við helst viljum bera okkur saman við, hvað sem annað er skrafað. Það er örlítið hærra en meðaltal OECD-ríkjanna. Ég býst við því líka að ef stjórnvöld vildu gera stökkbreytingu og hætta stuðningi við sauðfjárrækt í einu vetfangi, eins og mér heyrist einstaka hv. þm. vilja og vissulega fleiri í þjóðfélaginu, þá mundi það valda alvarlegri byggðaröskun og ýmiss konar félagslegum vandræðum í okkar landi langt umfram það sem við þekkjum og það yrði langt umfram fjárframlögin sem fara á næstu árum til að gera mikilvægar breytingar í framleiðslu sauðfjárafurða.

Við höfum fyrir okkur dæmin. Í Ástralíu var strikað yfir stuðning við landbúnað í einu vetfangi, nánast að segja á einum degi. Það dæmi gæti orðið okkur til alvarlegrar umhugsunar. Þeir sem áttu allt sitt og voru ekki skuldsettir, þeir sem voru með eiginfjárhlutfall upp á 80--90%, þraukuðu, aðrir ekki. Aðrir urðu gjaldþrota og fóru hálfpartinn á vergang. Það er fróðlegt að kynna sér þessa sögu meðal þjóðar sem hætti skyndilega að styðja sinn landbúnað.

En meginmarkmiðið hjá okkur nú með samningnum um framleiðslu sauðfjárafurða er að auðvelda sauðfjárbændum aðlögun að breyttum aðstæðum og markmiðið er einnig það að skapa svigrúm og skilyrði fyrir nýrri atvinnusókn í sveitum landsins. Það skiptir, virðulegi forseti, alla þjóðina máli. Samningurinn er ákveðin niðurstaða, hann er málamiðlun milli ólíkra sjónarmiða, hann er áfangi á réttri leið og að mínum dómi væri ábyrgðarleysi að stöðva framgang hans, þó að vissulega þurfum við að fjalla og fara vel yfir hann og ígrunda þar margt betur.

Heilt yfir þá felur samningurinn í sér mikla möguleika til meiri hagkvæmni. Á það er líka að líta að þjóðfélagið er um margt breytt. Fram kom í máli hv. þm. Kristjáns Pálssonar að um 80 milljarðar færu til bænda á fáum áratugum og að bændum væri borgað svo og svo mikið. Beingreiðslurnar eru fyrrverandi niðurgreiðslur. Beingreiðslurnar sem fara til bænda eru fyrrverandi niðurgreiðslur fyrir neytendur í landinu. Breytingin er eingöngu sú að það sem var áður greitt á lokastigi er nú greitt á frumstigi beint til bænda. Það er þetta sem við erum að reyna að trappa okkur út úr og eru stigin góð skref til þess þó að, eins og ég segi, margir telji að fara þurfi hraðar.

Virðulegi forseti. Ég vænti þess að umræða verði málefnaleg um þessa þætti. Það er alveg rétt að allt of lengi hafa stjórnvöld ákvarðað verð, allt of lengi hafa tengsl framleiðenda og neytenda verið brengluð. Aðlögun að markaðnum gerist nú í áföngum og ég hygg það nauðsynlegt og sjálfsagt og tel samninginn skref í rétta átt.