Framleiðsla og sala á búvörum

Fimmtudaginn 19. október 1995, kl. 17:24:37 (479)

1995-10-19 17:24:37# 120. lþ. 17.2 fundur 96. mál: #A framleiðsla og sala á búvörum# (sauðfjárframleiðsla) frv., ÍGP
[prenta uppsett í dálka]

Ísólfur Gylfi Pálmason:

Virðulegi forseti. Vissulega verjum við miklum peningum í landbúnaðarkerfið á Íslandi. Eins og hér hefur komið fram er það ekkert einsdæmi. Erlendar þjóðir verja líka miklum peningum til landbúnaðarkerfisins, bæði beint og óbeint, sýnilega og ósýnilega og oft á tíðum er mjög erfitt að átta sig á þessum ríkisstyrk. Það gleymist mjög gjarnan í umræðunni að hluti af þessum ríkisstyrk skilar sér til baka til þjóðarinnar.

Það er mjög gjarnan talað hér um landbúnað eins og einungis sé um hagsmuni bænda að ræða. En landbúnaðurinn hefur mjög mikið gildi fyrir þéttbýli. Ég bendi á það að þéttbýli vítt og breitt um landið á allt sitt undir landbúnaði. Svo ég tali nú um mitt kjördæmi þá hafa nánast allir þéttbýliskjarnar á Suðurlandi mjög mikla vinnu af því að vinna landbúnaðarafurðir. Hér er um nokkur þúsund ársverk að ræða á landsmælikvarða. Það er dálítið sérkennilegt að kvarta í öðru orðinu um atvinnuleysi og í hinu orðinu að skammast yfir styrkjum til landbúnaðar vegna þess að landbúnaðurinn skapar mikla atvinnu.

Í allri okkar umræðu, t.d. um fjárlögin, er ákveðið lausnarorð, sparnaður, og við getum gjarnan leikið okkur með þetta orð. Það er mjög kostnaðarsamt að vera lítil þjóð og það væri sjálfsagt ódýrara að vera enn þá undir dönsku krúnunni. Ég kýs þó heldur áfram að vera sjálfstæð þjóð. Það væri sjálfsagt ódýrara fyrir okkur að taka upp erlend tungumál eins og ensku og sleppa íslenskunni. Ég kýs þó heldur að halda áfram að tala íslenskuna þó að það sé erfitt að koma eðum og þornum fyrir í tölvubúnaði. Það er líka kostnaðarsamt að reka okkar menntakerfi, sem ég er samt sem áður stoltur af. Við erum að útskrifa fólk úr háskólanum sem ekki fær störf við sitt hæfi, en ég trúi því að þegar fram í sækir þá skili þetta sér.

Herra forseti. Ég trúi því að við eigum mikla möguleika í íslenskum landbúnaði. Í dag höfum við rætt um vistvæna og lífræna ræktun. Þess má til gamans geta að það eru bú í Mýrdalnum sem framleiða nú þegar lífrænt lambakjöt og það verður sett á markaðinn á næstu dögum og þá geta virðulegir þingmenn og aðrir Íslendingar farið í stórmarkaði hér í Reykjavík og reynt þessa vöru. Nýjar rannsóknir sýna að í íslenska lambakjötinu séu Omega-3 sýrur, sem koma í veg fyrir hjartasjúkdóma. Hér eigum við mjög mikla möguleika í framleiðslu, en það sem mistekist hefur í gegnum tíðina hjá okkur, bæði innan lands og erlendis, eru markaðsmálin. Ég trúi því að ef við getum kippt þeim málum í liðinn þá eigum við mikla framtíð fyrir okkur í íslenskum landbúnaði.