Framleiðsla og sala á búvörum

Fimmtudaginn 19. október 1995, kl. 17:28:50 (480)

1995-10-19 17:28:50# 120. lþ. 17.2 fundur 96. mál: #A framleiðsla og sala á búvörum# (sauðfjárframleiðsla) frv., HJök
[prenta uppsett í dálka]

Hrafn Jökulsson:

Herra forseti. Hvað er það nú sem einna helst mælir með þessum nýja búvörusamningi? Ég get aðallega komið auga á eitt og það er að hv. þm. Egill á Seljavöllum virðist sáróánægður með hann. Það gefur vissulega ágætar vísbendingar. En það er því miður ekki nóg.

Áður en lengra er haldið langar mig að lesa fyrir ykkur örlítinn kafla um landbúnaðarmál, sem er að vísu ekki nema 53 ára gamalt skrif og er eftir Halldór Kiljan Laxness, sem var lengi mikill áhugamaður um landbúnað eins og alþjóð veit. 1942, Tímarit Máls og menningar, með leyfi forseta:

[17:30]

,,Mein íslenska sveitabúskaparins er það að hann er almennt rekinn á grundvelli sem á lítið skylt við landbúnað og enn minna við iðjurekstur í nútímaskilningi og getur í rauninni varla kallast atvinnuvegur í sannri merkingu þess orðs. Ef ætti að flokka hann heyrir hann ef til vill best undir sport eins og þolhlaup eða í besta falli stangaveiði. Landbúnaðarstefna þess stjórnmálaflokks, sem hefur tögl og hagldir í sveitunum undanfarna áratugi, Framsfl., hefur ofureinfaldlega verið sú að gera sveitabúskap á Íslandi að atvinnuvegi fyrir ölmusumenn.``

Og skáldið sem sýndi næmari skilning á íslenskum landbúnaði en samanlagðir framsóknarmenn allra flokka og allra tíma sagði líka:

,,Landbúnaður á Íslandi er þannig stundaður að það eru áhöld um fyrir hvors þörfum hann sé miðaður, framleiðandanna eða markaðarins.`` Þessi orð standa því miður í fullu gildi, 53 árum síðar.

Við sögðum í vor, alþýðuflokksmenn, hvað við vildum gera til þess að reyna að bjarga íslenskum landbúnaði og hífa sveitirnar upp úr þeirri auðmýkingu sem vinir þeirra, framsóknarmennirnir, hafa komið þeim í. Það sem við vildum gera var þetta:

Afnema kvótakerfið. Við vildum hætta að framleiðslutengja beingreiðslurnar. Við vildum taka upp búsetustuðning. Við vildum verja verulegum fjármunum til þess að gera bændum, sem þess óskuðu, kleift að bregða búi. Við vitum að meðalaldur íslenskra bænda er kominn yfir 50 ár. Þetta er einhver elsta stétt í heiminum. Við vitum það líka og höfum heyrt hroðalegar tölur um hvað bændur hafa úr að spila. Það eru dæmi um fjölskyldur sem hafa 20--30 þús. kr. í tekjur á mánuði, fólk sem er hætt að geta sent börnin sín í skóla.

Í kosningabaráttunni heyrðum við líka gamalkunna sönginn, að bændur á Íslandi ættu fyrst og fremst einn óvin. Það var Alþfl. Einhverra hluta vegna sá flokkur sem aldrei hefur með landbúnaðarmálin farið. Allir viðurkenndu að ástandið var skelfilegt og það var þeim að kenna sem aldrei hafði um þessi mál vélað. (SvanJ: Sá veldur er varar.) Sá veldur er varar, segir hv. þm. Svanfríður Jónasdóttir. Og þá völdum við sannarlega, alþýðuflokksmenn. Því áratugum saman hafa alþýðuflokksmenn og foringjar jafnaðarmanna varað við helstefnunni sem rekin er. Þessi samningur hefur fátt eitt annað sér til ágætis en að hv. þm. Egill Jónsson hefur eitthvað út á hann að setja. Hann er moðsuða sem ... (SvG: Þingmaðurinn?) Ég ætla nú að vona að hv. þm. Svavar Gestsson geri mér ekki upp að ég líti á hugmyndafræðinginn frá Seljavöllum sem moðsuðu. Það hefur aldrei hvarflað að mér. Hins vegar er þessi samningur, rétt eins og sú landbúnaðarpólitík sem hér hefur verið rekin, moðsuða. Enda er enginn ánægður. Ekki bændur, ekki neytendur, ekki ASÍ, ekki VSÍ. Það er enginn ánægður. Ekki einu sinni Egill Jónsson. Þá er nú langt til jafnað.

Það kom fram í nýlegri skoðanakönnun Hagvangs að af þeim sem vinna við landbúnaðarframleiðslu vilja 36% að frjáls samkeppni ráði í framleiðslu og sölu á landbúnaðarafurðum meðan aðeins 38% eru því andvígir. Ég hef spurt, en aldrei fengið neitt svar við því, af hverju landbúnaður á Íslandi er eina atvinnugreinin sem hneppt er í fjötra ríkisafskipta og miðstýringar. Af hverju sitjum við uppi með afdankað sovétkerfi í landbúnaði sem er að mergsjúga bændur og fjölskyldur þeirra út um allt land? Hvað er það við landbúnaðinn sem réttlætir að nú, þegar jafnvel Sovétríkin eru hrunin, virðast nokkrir hugmyndafræðingar sem þangað hafa sótt enn þá geta ráðskast með heila atvinnugrein og þar með haldið heilli stétt manna í fjötrum fátæktar.

Það er athyglisvert að ýmsir ágætir þingmenn Sjálfstfl. aðrir en hv. þm. Egill Jónsson eru ekki ánægðir en á öðrum forsendum. Það heyrðum við áðan hjá hv. þm. Kristjáni Pálssyni. Árni Mathiesen, hv. þm. og landbúnaðarnefndarmaður, hefur líka á opinberum vettvangi lýst bullandi óánægju með þennan samning. Um hann er ekki eining. Ekki í stjórnarflokkunum og ekki í þjóðfélaginu. Það er athyglisvert að skoða viðbrögð t.d. Vinnuveitendasambandsins. Þórarinn V. Þórarinsson, framkvæmdastjóri VSÍ, segir í samtali við hið ágæta blað Alþýðublaðið 5. okt. sl., með leyfi forseta:

,,Það er fullkomlega óskiljanlegt að ríkisstjórnin skuli á árunum 1995--2000 ráðstafa vel á fjórtánda milljarð til að ýta undir sauðfjárrækt. Ég tek undir með Sighvati Björgvinssyni að ríkisstjórn sem hefur ráð á að haga sér svona getur ekki verið í vandræðum með peninga.`` Og Þórarinn segir: ,,Þeir beinlínis standa út úr eyrunum á henni.``

Peningarnir beinlínis standa út úr eyrunum á ríkisstjórninni. Kemur það fram í fjárlagafrv.? Kemur það fram í því fjárlagafrv. sem samkvæmt mati forseta ASÍ mun fækka störfum á Íslandi um 900 vegna niðurskurðar á opinberum framkvæmdum? Væntanlega til þess að efna kosningaloforð framsóknarmannanna um störfin 12 þúsund.

Sú landbúnaðarstefna sem rekin hefur verið hér síðustu áratugi er harmsaga. Þessi samningur breytir engu þar um. Hann er framlenging á óbreyttu ástandi. Þar er aðeins komið til móts við málflutning okkar alþýðuflokksmanna en það er samt hálfvelgja, það er moðsuða og það eru allir óánægðir með þennan samning. Við þurfum að stíga skrefið til fulls. Við þurfum að gefa verðmyndun frjálsa, við þurfum að leyfa frjálsa samkeppni, við eigum að hætta að láta ríkið vera með fingurna í landbúnaðinum. Við eigum hins vegar að verja fjármunum til þess að gera bændum kleift að aðlagast og til að hætta, þeim sem það vilja. Og í guðanna bænum, við eigum að forða þeim frá framsóknarmönnum allra flokka, vinum þeirra sem hafa haldið þeim í fjötrum fátækar í öll þessi ár.