Framleiðsla og sala á búvörum

Fimmtudaginn 19. október 1995, kl. 17:38:42 (481)

1995-10-19 17:38:42# 120. lþ. 17.2 fundur 96. mál: #A framleiðsla og sala á búvörum# (sauðfjárframleiðsla) frv., landbrh.
[prenta uppsett í dálka]

Landbúnaðarráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Hér hafa farið fram ítarlegar umræður um frv. þetta sem við höfum verið að fjalla um, um breytingar á búvörulögunum svokölluðu og fylgir samningnum um framleiðslu sauðfjárafurða. Ég vil þakka fyrir þessar umræður. Ég tel að það hafi út af fyrir sig margt komið hér fram sem er fullrar athygli vert, en auðvitað er líka ljóslega komið fram, ekki síst í máli hv. síðasta þingmanns, að menn greinir mjög á um málið. Mönnum sýnist sitt hverjum, það eru skiptar skoðanir og hvort sem menn vilja nú kalla samninginn moðsuðu eða eitthvað annað það skiptir ekki öllu máli. Ég sagði það líka í minni inngangsræðu að samningurinn væri samkomulag ólíkra sjónarmiða, ólíkra viðhorfa og það væri reynt að ná þeirri ásættanlegustu og bestu niðurstöðu sem þeir sem um hefðu fjallað hefðu talið sig geta komist að.

Ég hef þá tilfinningu að viðhorf manna til samningsins sé af nokkuð ólíkum toga. Og reyndar kemur einnig fram í máli sumra hv. þm. eitthvað sem maður gæti kannski kallað svona ,,haltu-mér-slepptu-mér-stefnu``. Einn hv. þm. sagði að samningurinn væri nokkurs konar blanda af stýringu og markaðshyggju. Og það má sjálfsagt einnig segja að það sé nokkuð til í því. Það er m.a. vegna þess, eins og ég t.d. gerði grein fyrir í inngangsræðu minni og hef látið falla í umræðum um samninginn í þjóðfélaginu að undanförnu, að við þurfum að komast frá ákveðnu ástandi sem ríkir í dag, erfiðu ástandi, birgðastöðu sem við verðum að losa um og að þessu sinni ætla stjórnvöld að veita aðstoð við að breyta stjórnkerfi og stjórnunarformi þessarar atvinnugreinar. Og því miður finnst mér sumir hv. þm. líta algerlega fram hjá þessu. Annars vegar spyrja þeir: Til hvers á þetta að leiða? Til hvers á hitt að leiða? Hver verður niðurstaðan eftir árin fimm eða árið 2000? --- Og óska þar með eftir því að samningurinn og stjórnvöld taki á öllum þessum málum og leysi þann vanda sem hugsanlega er við að glíma og kann að verða við að glíma áfram. Á hinn bóginn að segja þeir: Við eigum að hætta öllum þessum afskiptum. Við eigum að gefa þessa framleiðslu algerlega frjálsa strax og hætta að skipta okkur af verðlagsmálum. Og láta þá væntanlega skeika að sköpuðu. --- Ætli það mundi leiða til þess að það yrðu þá engir erfiðleikar með markaðssetningu, engir erfiðleikar með birgðasöfnun og við stæðum frammi fyrir nýrri og betri veröld strax á morgun eða a.m.k. ekki seinna en á næsta ári? Ég óttast að svo sé ekki. Ég held að við þurfum þennan samningstíma og mér finnst gæta ofurlítillar óþolinmæði í þessum ummælum. Ég held við þurfum þennan samningstíma sem er fimm ár til þess að búa til nýtt umhverfi, nýja stöðu sem ég ætlast til og vonast til að við stöndum frammi fyrir að fimm árum liðnum. Og það sé í raun, hvað sem hv. síðasti þm. annars kann að álíta og ýmsir aðrir sem hér hafa talað, verið að búa til allt öðruvísi samning en verið hefur.

Mig langar aðeins að segja vegna ummæla og áminninga, við getum jafnvel kallað það ádrepu hv. þm. Margrétar Frímannsdóttur hér í upphafi umræðnanna, að lítið samráð eða ekkert hafi verið haft við landbúnaðarnefndina í þingingu og það sé svik á fyrirheitum ráðherra frá því í vor. Málin þróuðust á þann hátt í sumar að við settumst niður við þessa samninga. Þeir gengu því miður lengi framan af allt of hægt. Ég hefði viljað sjá hlutina gerast hraðar og að niðurstaða hefði náðst fyrr. En um tíma má segja að þetta hafi gengið í hægagangi. Síðan komu sumarleyfi hjá embættismönnum og reyndar einnig hjá fulltrúum í samninganefnd bænda og þegar hjólin fóru svo loks að snúast og samningum var svona u.þ.b. að ljúka þá gerðust hlutirnir aftur á móti svo hratt að við gengum í það að undirrita samninginn, eins og menn þekkja hann, á örfáum dögum þegar svo virtist sem menn gætu náð saman um það sem hér er komið á blað. Það réttlætir hins vegar ekki að hafa ekki talað við landbn. Alþingis og ég átti reyndar viðræður við einstaka nefndarmenn af og til í sumar þótt það væri ekki á formlegum fundum. Stjórnarfulltrúarnir í nefndinni fylgdust a.m.k. með framgangi mála og ég ímynda mér að hefði verið fast sótt af hálfu fulltrúa í nefndinni að fá fund og fá að fylgjast með málinu þá hefði verið orðið við því. Það hefur aldrei staðið á því. Ég ímynda mér a.m.k. að slíkum fundarhöldum hefði ekki verið hafnað og til þeirra hefði verið boðað strax og ósk hefði um það borist.

Ég vona hins vegar að það sem hér er sagt, að sumu leyti kannski í afsökunarskyni, leiði ekki til þess að málið eigi ógreiðari gang í gegnum þingið.

[17:45]

Landbn. fær nú nokkurn tíma til að vinna úr málinu og eins og ég nefndi líka í upphafi ræðu minnar áðan, þá þyrfti trúlega að gefa sér tíma fram í nóvember. Það verður ekki unnt að afgreiða málið fyrir mánaðamót þannig að það verður þá nokkur tími til þess að fjalla um málið og fara yfir þær spurningar sem komið hafa fram í umræðum. Ég mun hvorki getað svarað þeim tímans vegna né heldur hygg ég að ég hafi svör við þeim öllum. Hv. nefndarmenn munu geta fengið greiðari og betri svör á nefndarfundunum.

Þó eru nokkur atriði sem mig langar að nefna. T.d. fullyrðing hv. þm. sem ég vitnaði til áðan, Margrétar Frímannsdóttur, um að engin markaðssókn sé í samningnum og ekkert sé gert til þess að bregðast við á því sviði. Hér tel ég að ekki sé rétt með farið. Gert er ráð fyrir rúmum 200 millj. kr. í hagræðingar- og vöruþróunarátak sem ég held að sé afar mikilvægt og geti gefið af sér góða hluti. Við ættum að geta unnið vel fyrir þessa upphæð og vissulega er þörf á því. Það er mikil þörf á því að taka á í vöruþróun þessarar afurðar og ég hygg að hluti af vandanum sé sá að markaðssetningin hefur ekki verið nægjanlega skilvirk. Ég ætla ekki að sakast við neinn um það, en bendi þó á til samanburðar að það hefur orðið allt önnur þróun í mjólkurafurðum í landinu þar sem við höfum náð verulegum árangri í vöruþróun og þær hafa sannarlega haldið velli á markaði gagnvart öðrum hliðstæðum vörum, t.d. drykkjarvörum svo eitthvað sé nefnt til samanburðar.

Það kom líka fram hjá hv. þm. og fleirum að lítið tillit væri tekið til umhverfissjónarmiða í samningnum þótt það ætti að vera eitt af markmiðum hans og töluvert hefði verið um það talað í umræðunni að leggja ætti áherslu á slíka þætti að þessu sinni. Það er að vísu ekki há tala sem sérstaklega er merkt umhverfisverkefnum á árunum 1997--2000 eða 75 millj. kr. Á hinn bóginn vil ég undirstrika það ákvæði samningsins að bændur geti, ef má orða það svo, keypt sig frá ásetningskröfunni og því að halda sauðfé með því að gera sérstaka samninga við Landgræðslu og Skógrækt eða taka þátt í öðrum umhverfisverkefnum. Þetta held ég að sé afar viðamikill þáttur í samningnum og það sé of lítið úr honum gert, bæði í umræðum og hér og jafnvel úti í þjóðfélaginu. Menn hafa ekki viljað gefa þessu þann gaum sem ég held þó að virkilega sé ástæða til. Ég held að hér sé um að ræða stórt átak og stórt skref í þá átt að gera þennan samning, eins og stundum hefur verið sagt, meira að byggðasamningi, samningi um byggð, atvinnu, og búháttabreytingu frekar en eingöngu samning um sauðfjárframleiðslu. Og það vil ég undirstrika og benda hv. þingmönnum á.

Hv. þm. Margrét Frímannsdóttir spurði líka um Jarðasjóðinn. Jarðasjóðurinn á nú nokkra fjármuni en í þessum samningi eru honum ekki falin nein ákveðin verkefni. Hún sagði að hann gæti ekki tekist á við þær skyldur sem á hann væru lagðar. Það eru í rauninni ekki lagðar á hann skyldur, en hann hefur nokkra fjármuni og það verður auðvitað að koma í ljós hvort á það muni reyna að bændur leiti eftir því að Jarðasjóður kaupi af þeim eignir.

Í sambandi við útsöluátak sem nú er á döfinni og fleiri hv. þm. spurðu um , þá er meiningin að verja allnokkrum fjármunum sem tengjast samningnum í að reyna að losa um birgðirnar og létta birgðastöðuna. Það á að fara af stað nú fljótlega og ég hef lagt áherslu á að hluti af því kjöti sem í boði verður í þessu söluátaki verði það sem kallað er snyrt, þ.e. það verði ekki selt með sama útsöluformi og verið hefur. Ég held að nauðsynlegt sé að við hefjum strax það átak að breyta vöruþróuninni. A.m.k. eitthvað af kjötinu verður að fara út á markaðinn með öðrum hætti en verið hefur. Hins vegar er það auðvitað ekki ráðuneytisins eða ráðherrans að ráða þessu. Það er markaðarins sjálfs. Það eru söluaðilarnir, afurðastöðvarnar og bændasamtökin, sem hafa mest um það að segja.

Í þeim viðræðum sem farið hafa fram á undanförnum dögum til undirbúnings þessu, hefur komið fram að menn telja að verðið skipti langmestu máli, það er nauðsynlegt að reyna að hafa það sem allra lægst til þess að söluátakið gangi sem best upp.

Ég harma það, eins og margir aðrir hv. þm. hafa nefnt í umræðunum, að það skuli hafa verið gripið til þess óyndisúrræðis af ákveðinni afurðastöð, eða kannski fleiri, að urða kjöt eða eyða því með einhverjum hætti. Það er sorglegt að horfa upp á það, en ég er þess fullviss að þar hafi verið um að ræða kjöt eða skrokka sem vart hafi verið neysluvara og ómarkaðshæfir til manneldis. Hugsanlega hefði þó mátt nýta þá í loðdýrafóður eða jafnvel mala þá og nýta þá til landgræðsluverkefna eins og komið hefur fram að mætti gera. Allt er betra en að urða kjötið eða eyða því í eldi. Ég vona að við þurfum ekki framar að horfa upp á slíkt.

Hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson talaði um óbreytt ástand í 20--30 ár og við værum að gera sams konar samning nú og áður. Ég undirstrika það sem ég sagði áðan og kom líka fram í ræðu minni í upphafi að ég tel að við séum að gera samning gjörólíkan þeim sem gerðir hafa verið. Það er verið að stíga hér stór og veigamikil skref í átt til frjálsræðis í þessari atvinnugrein. Ég tel að það séu mikilvæg skref og nauðsynleg. Ég held að hv. þm. hafi kallað það undanhald landbrh. eða landbúnaðarkerfisins. En ég fullyrði að hér er verið að horfast í augu við þær staðreyndir að þjóðfélagið er að breytast. Það hefur breyst mikið. Við þurfum að horfast í augu við nýja tíma. Landbúnaðurinn og þeir aðilar aðrir sem þurfa að treysta á markaðsöflin verða líka að horfast í augu við það. Og hér eru stigin stór skref í þá veru að aðlaga landbúnaðinn, sem hefur búið við gjörólíkt stjórnkerfi eða stjórnunarhætti, að nýjum tímum og breyttum viðhorfum.

Ýmsir hv. þm. töldu að endurúthlutun uppkaupanna svokölluðu þýddu aukna framleiðslu og það væri framleiðslusprenging í aðsigi. Ég fór ítarlega yfir slíkt í ræðu minni áðan. T.d. þau viðhorf sem ég tel ríkjandi varðandi framleiðsluhvatann sem sumir telja falinn í samningnum en ég tel að svo sé ekki. Ég tel fjölmörg atriði benda til þess að slíka hættu sé alls ekki að finna í samningnum. Ég ræddi líka ítarlega um útflutningsmálin og hinn svokallaða svarta markað. Tíma míns vegna get ég ekki endurtekið það, en vitna þar til framsöguræðunnar. Ég tel að allt séu þetta mál sem tekið er á í þessum samningi og ef við ætlum að stíga skref til frelsis eða frjálsræðis þá geta menn ekki á sama tíma krafist þess að ríkisvaldið haldi líka utan um hlutina og sjái til þess að þetta gangi upp með öðrum hætti en samningurinn þó gerir ráð fyrir.

Hv. þm. Kristján Pálsson sagðist vona að styrkjakerfinu væri að ljúka. Ég segi enn að þótt skiptar skoðanir kunni að vera um þá fjármuni sem hér er varið í samninginn, þá er verið að stíga skref sem dregur verulega úr stuðningi ríkisvaldsins og það er verulega dregið úr ríkisútgjöldum. Ef við lítum nokkur ár aftur í tímann, þá eru þetta miklir fjármunir og það er haldið áfram á þeirri braut. En ég spyr og læt það þá svo sem eins og vaka í umræðunni hvað menn sjá fyrir sér í þessu. Ég veit ekki hvort menn vilja svara því eða eyða lengri tíma í þá umræðu hér, það er hægt að taka hana aftur við 2. umr. um málið. Halda menn í raun að við komumst á fimm árum frá því að styðja þessa atvinnugrein sem hefur svo lengi notið stuðnings? Allar aðrar þjóðir í kringum okkur hafa stutt sinn landbúnað og ég hygg að þær muni flestar ef ekki allar gera það meira og minna áfram. Ég er ekki þar með að segja að við eigum að búa við óbreytt ástand, en við hljótum að verða að viðurkenna þau skref sem eru stigin og ég tel að þau séu stór.